Sigrún hefur mikla ástríðu fyrir hönnun og hefur hannað allt frá dúkkufötum í barnæsku og til alls hins sem er að gerast hjá henni í dag. Hún fagnaði nýjustu hönnun sinni og bauð til hönnunarboðs þar sem nýja skólínan var kynnt.

„Ég hef teiknað, hannað og búið til eitthvað síðan ég man eftir mér og ávallt haft áhuga á fallegum hlutum. Mér finnst reyndar allt fallegt, og sé fegurð í öllu,“ segir Sigrún sem fór í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, sem er Listaháskólinn í dag.

„Svo langaði mig að læra meiri hönnun og var næstum sama hvaða hönnun. Ég fór til Sovétríkjanna upp úr tvítugu til að læra rússnesku og leikhúshönnun. Það var mjög áhugavert, því í Rússlandi er svo mikið af stórkostlega fallegri menningararfleifð sem blandaðist á mjög sérstakan hátt við sovéska stílinn. Áhugi minn á Rússlandi hefur ávallt verið til staðar og ég kom þangað fyrst 18 ára gömul með foreldrum mínum. Frá þeim tíma hef ég elskað rússneska popptónlist. Svo langaði mig að rannsaka þessa menningu nánar og fór aftur þangað í nám þremur árum síðar,“ segir Sigrún sem kynntist eiginmanni sínum til tuttugu ára í Rússlandi. Saman eiga þau soninn Atla Vassili sem nú er 22 ára og býr í París.

„Það var eiginlega í Rússlandi sem áhugi minn á tískuhönnun vaknaði, þótt ótrúlegt megi virðast. Hann hefði líklega kviknað á öllum öðrum stöðum, en alla vega fórum við Dimitri til Parísar og ég lærði fatahönnun við tískuskólann ESMOD. Eftir námið fórum við aftur til Moskvu og þar vann ég sem hönnuður í rússneskum leikhúsum á árunum 1989–92,“ segir Sigrún.

Guðrún Gunnarsdóttir, vinkona Sigrúnar, var alsæl með nýju skóna sína úr Divine Love línunni. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Lagerfeld kúltiveraður og fágaður

Aðspurð segist Sigrún eiga sér fyrirmynd á meðal hönnuða.

„Ég vann fyrir Karl Lagerfeld og finnst hann enn æðislegur og mikil fyrirmynd. Hann var líka svo kúltiveraður og fágaður. Hann hefur samt aldrei notað mikið af litum, sem ég er sjálf mikið fyrir. Ég er líka hrifin af Gucci, eins og það hefur verið undir listrænni stjórn Alessandro Michele, sem mjög litskrúðugt merki. Ég dáist líka að Balenciaga og hönnuðinum þar, Demna Gavsalia. Það merki er reyndar ekki mjög litríkt, en þeir hafa svo flott form. Munurinn er sá að Lagerfeld/Chanel og Balenciaga eru frönsk merki en Gucci er ítalskt merki. Frakkar vilja hafa stílinn svolítið meira „strict“.“

Merkið Divine Love merkir alheimskærleikur og eru skórnir í senn klæðilegir, töff og fallegir. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Fyrsta hönnunarstarf Sigrúnar var hjá Charles Jourdan, stóru skófyrirtæki í París.

„Þeir framleiddu eigin skólínur í Suður-Frakklandi, sem er ótrúlegt að hugsa til í dag. Fyrirtækið endaði næstum á því að fara á hausinn upp úr 2000, vegna þess að það þurfti að borga frönsk laun. Tímarnir voru að breytast og skóverð í heiminum að lækka. Þeir framleiddu enn fremur skó fyrir fullt af öðrum merkjum, til dæmis Lagerfeld og Chanel. Þeir framleiddu fyrir fyrirtæki sem notuðu „made in France“ sem mikilvægan sölupunkt,“ upplýsir Sigrún.

Það var þannig sem hún komst að hjá Lagerfeld.

„Ég byrjaði að hanna skó fyrir Lagerfeld hjá Charles Jourdan. Svo fór ég að hanna skartgripi og töskur fyrir Lagerfeld. Innblásturinn fyrir akkúrat þessa skólínu var að mér finnst hannaðir hlutir oft of fastir í sinni kategóríu. Miðað við hvernig þjóðfélögin eru að þróast eru tísku-kategóríur enn mjög íhaldssamar. Mig langaði að gera skó með gimsteinum, en samt íþróttasóla. Það eru mest keyptu og þægilegustu sólar í heiminum í dag en yfirleitt getur maður bara fundið skó með íþrótta-útliti að ofan. Mig langaði að blanda þessu saman.“

Arna G. Einarsdóttir, Eva Dögg Sigurgeirsdóttir og Þóra H. Ólafsdóttir létu sig ekki vanta þegar skólínan var kynnt, enda annálaðir tískusérfræðingar. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Orkustöðvar í mannslíkamanum

Nafnið á línunni er það sama og á fyrirtæki Sigrúnar, Divine Love.

„Nafnið kemur þannig til að á tímabili hafði ég mikinn áhuga á orkustöðvum/chökrum í indverskum Ayurveda-fræðum. Ég bjó til orkustöðva-skartgripi sem voru seldir í Icelandair-Saga shop og búðum í París. Hjartastöðin er mið-chakran af sjö aðalorkustöðvum í mannslíkamanum. Hún er miðstöð ástar og kærleika og Divine Love er alheimskærleikurinn. Það er hvort eð er eina orkan sem til,“ segir Sigrún.

Hönnunarferlið tók sinn tíma en Sigrún byrjaði að hanna skólínuna í byrjun árs 2021. „Venjulega tekur ekki svona langan tíma að hanna skólínu, en í Covid árin 2021 og 2022 tók allt lengri tíma en venjulega. Verksmiðjan var oft lokuð og framleiðsla á frumgerðum á skóm almennt er ekki möguleg í fjarvinnu. Venjulega tekur kannski mánuð að fá hugmyndir og teikna þær, síðan tekur fjóra til sex að fá frumgerðirnar framleiddar. Eftir það fer þetta að ganga hraðar.“

Gleðin var í fyrirrúmi þegar Sigrún kynnti nýju skólínuna sem sló í gegn. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Hönnun Divine Love-skólínunnar er afslöppuð og þægileg.

„Skórnir eiga að vera í lúxus-bóhem stíl. Svo hef ég alltaf verið veik fyrir Biba sem var hönnuður í Seventies í Chelsea í London og hannaði í lúxuslegum hippa-art nouveau stíl. Skólínan mín er framleidd í Portúgal, bæði af því ég elska Portúgal og vegna þess að þeir framleiða gæðavöru sem vart er hægt að fá í Evrópu. Framleiðslan er svo miklu betri en sams konar framleiðsla frá Kína,“ segir Sigrún og von er á fleiri týpum.

„Í undirbúningi eru fleiri skómódel. Ég hef ekki notað hæla í þessari línu en langar að bæta þeim inn. Mér þykja ítalskir hælar fallegastir, mun fá þá og senda út hælaskó og fleiri skó seinna á árinu. Þeir verða líka seldir í einhverjum „boutiques“ í Frakklandi frá og með haustinu.“

Fyrir áhugasama er skólínan Divine Love seld í Kaupfélaginu í Kringlunni og Smáralind. Einnig er hægt að skoða skartgripi Sigrúnar á divinelove.is