Söngkonan Irene Cara er látin aðeins 63 ára að aldri. Cara skaust upp á stjörnuhimininn í upphafi níunda áratugarins og sívinsæl titillög kvikmyndanna Fame og Flashdance eru líkleg til þess að halda minningu hennar á lofti um ókomna tíð.

Fame sló í gegn 1980 en þar lék hún Coco, eitt aðahlutverkanna, auk þess að syngja titillagið. Hún gerði síðan ekki síður stormandi lukku þremur árum síðar með laginu Flashdance... What a Feeling.

Breska blaðið Independent greinir frá.

Cara lést á heimili sínu en dánarorsök liggur ekki fyrir. Margir minnast Cöru á samfélagsmiðlum en útgefandi hennar, Judith A. Moose, greindi frá andlátinu á Twitter-síðu sinni.

Hún segir Cöru hafa verið einstaklega hæfileikaríka manneskju og að arfleifð hennar muni lifa um ókomna tíð í gegnum tónlist hennar og kvikmyndir.

Cara árið 1984 er hún vann til verðlauna.
Fréttablaðið/Getty Images