„Þetta er safn af handritum, handritabrotum, senuskrifum og vinnuaðferðum sviðslistafólks í Reykjavík á árunum 2009 til 2020. Fjórtán sviðslistahópar og einstaklingar eiga efni í bókinni,“ segir Eva Rún.

„Ég vildi ná fram sem mestri fjölbreytni og þarna kennir ýmissa grasa. Þetta eru excel-skjöl, teikningar, listar og sýningar í hinum ýmsu formum.

Hóparnir vinna sumir út frá human specific-nálgun, setja sér tímaramma, vinna verk inn í óhefðbundin rými. Svo eru líka í bókinni aðlaganir, sviðshandrit sem hópar hafa unnið út frá skáldverkum. Það er meira að segja messa þarna og viðkomandi handrit ber keim af því.

Í bókinni eru handrit frá meðal annars Marmarabörnum, Ásrúnu Magnúsdóttur, Kriðpleir, Kviss búmm bang, Reykjavík Ensamble og Sóma þjóðar.

Spurð að því hvaða þýðingu það hafi að efnið sé komið á bók segir Eva Rún: „Ég ritstýrði bókinni og safnaði efninu saman til að búa til heimild. Framlögin eiga það sameiginlegt að vera unnin í samsköpun. Þessi bók veitir gríðarlega góða innsýn í vinnu sviðslistahópa með texta sem unnið er með á margvíslegan hátt. Það er oft erfitt að nálgast texta sviðslistaverka, hann hættir að vera miðlægur og verður einungis eitt af verkfærunum sem notast var við til að skapa sýningu. Það er dýrmætt að geta séð handritið í bók eins og þessari. Það getur líka verið mikill innblástur fyrir fólk sem er að vinna með hvers konar handrit að sjá þessa vinnu og það má læra ýmislegt af henni. Svo er þetta ótrúlega skemmtilegt efni.“

Karl Ágúst Þorbergsson skrifar inngangsgrein bókarinnar. „Þetta er stutt og góð fræðigrein þar sem hann setur þessi framlög í samhengi,“ segir Eva Rún. Bókin er fallega hannaður gripur, hönnunina sá Helga Dögg Ólafsdóttir um.

Bókin fæst í helstu bókaverslunum og á bókasöfnum.