Þórdís Aðalsteinsdóttir sýnir sjö nýleg verk á sýningunni Óáreiðanleg vitni í Tveimur hröfnum listhúsi á Baldursgötu. Þetta er þriðja myndlistarsýning Þórdísar hér á landi síðan 2006.

Málverkið fyrir miðju salarins vísar til Voltairine de Cleyre. „Voltairine, amerískur anarkisti sem barðist fyrir frelsi kvenna, sagði: Sá sem er ekki fær um að elska náttúruna alla, er ekki fær um að elska yfirhöfuð. Ást og anarkía var því undiraldan í þessu verki,“ segir Þórdís. „Ég las grein um Voltairine í NY Times og meðfylgjandi var mynd sem virtist vera tekin af henni sitjandi í gluggakistunni minni í New York, haldandi á sama kettlingi og kom inn á heimili mitt úr skóginum tæpum hundrað árum eftir að Voltairine lést.“

Einblínir á það fallega

Á annarri mynd, titluð Hundur í vinnustofu í Berlín, sést svartur hundur liggja á trégólfi með gulan kaffibolla sér við hlið. Hönd klædd í sóttvarnarhanska teygir sig inn á myndflötinn og klappar hundinum, úr spenum hundsins flæðir mjólk. Í texta Þórdísar í sýningarskrá segir: „Svartur hundur drekkur með mér morgunkaffi þar sem ég átti að vera örugg í fjarlægðinni. Við drekkum úr bollum ömmu minnar vegna viðkvæmra minninga og einnig heillumst við af litum og mynstri sjöunda áratugarins.“

Mynd Þórdísar af Voltairine de Cleyre.

Þórdís segir málverkin á sýningunni flétta saman efnivið úr samtímanum, úr mannkyns- og listasögunni, og persónulegri upplifun. „Það er alltaf köttur eða kettir í kringum mig, suma þekki ég ekkert og einhverjir þeirra ganga jafnvel í sokkabuxum. Þegar ég vann sýninguna reyndi ég að einblína á það fallega og í verkunum eru óljós mörk milli innra lífs og umhverfisins.“

Þögul vitni

Um titilinn Óáreiðanleg vitni segir hún: „Titillinn kom upp úr textanum sem ég skrifaði með sýningunni. Textinn vísar til katta sem óáreiðanlegra vitna; dýrin eru þögul vitni að tilvist okkar og mismannúðlegum gjörðum. Mér finnst titillinn líka eiga vel við verkin í sýningunni, þau eru grunsamlega óáreiðanleg.“

Þórdís, sem er í hópi virtustu myndlistarmanna þjóðarinnar, skiptir tíma sínum að mestu á milli New York og Reykjavíkur en síðasta vetur dvaldi hún í Mexíkó. „Það er öflugt myndlistarlíf í Mexíkó, mikið af frábærum söfnum og galleríum og þar sá ég margar sterkar og spennandi sýningar. Þær myndir sem ég málaði í Mexíkó sýni ég á næstu einkasýningu minni sem verður opnuð í Taipei núna í vor.“