Heimildamyndin Hálfur Álfur, í leikstjórn Jóns Bjarka Magnússonar, er sögð bæði sérviskuleg og innileg á Netflix þar sem hún bættist í dag við heimildamyndastreymið.

Myndin hverfist um ömmu og afa leikstjórans, þau Huldu Jónsdóttur og vitavörðinn Trausta Breiðfjörð Magnússon sem vill meðtaka og fagna sínum innri álfi með því að taka upp nafnið Álfur.

Jón Bjarki fylgist einnig með afa sínum undirbúa 100 ára afmælið sitt eða jarðarförina, allt eftir því hvort kemur á undan á meðan Hulda lætur sig hverfa inn í heim horfinna ljóða með stækkunarglerið sitt á lofti.

Hálfur Álfur var að hluta til unnin í meistaranámi Jóns Bjarka í sjónrænni mannfræði við Freie Universitat í Berlín en hugmyndin um að fylgja ömmu sinni og afa eftir með tökuvélina fór að leita sterkt á hann þegar hann byrjaði að huga að lokaverkefninu.

Myndin hefur fengið prýðilegar viðtökur þar sem hún hefur verið sýnd eftir að Jóni Bjarka tókst loks að brjótast með hana út úr kófinu og vann til að mynda til dómnefndarverðlauna Skjaldborgarhátíðarinnar 2020.

Þá hafa dómar um hana verið lofsamlegir og hún var meðal annars tilnefnd sem bjartasta vonin á kvikmyndahátíð Nordisk Panorama 2020 og var á meðal tilnefndra heimildamynda á Edduverðlaununum 2021, auk þess sem hún vann sérstök verðlaun fyrir kvikmyndatöku á German International Ethnographic Film Festival, GIEFF, 2022.

Jón Bjarki og Hlín Ólafsdóttir framleiða Hálfur Álfur fyrir SKAK bíófilm, í samstarfi við þau Andy Lawrence hjá AllRitesReversed í Bretlandi og Veroniku Janatkovu hjá Pandistan í Tékklandi.

Alþjóðlega dreifingarfyrirtækið Feelsales á Spáni sér um sölu og dreifingu myndarinnar erlendis og í ljósi tíðinda dagsins má ætla að Hálfur Álfur eigi eftir að ferðast víða, hratt og örugglega, eftir Netflixstraumnum.