Ragnheiður Georgsdóttir er markaðsstjóri Flúðasveppa og Flúðajörfa og lætur sér ekki bara nægja að stýra markaðsmálunum þar heldur er hún rekstrar- og viðburðastjóri hjá hinum geysivinsæla veitingastað Farmers Bistro þar sem afurðir frá stöðinni eru nýttar í fjölbreytta sælkerarétti.

Ragnheiður kláraði stúdentspróf frá Menntaskólanum á Laugarvatni árið 2006 og flutti svo til Danmerkur og bjó þar í ellefu ár. Í Danmörku tók hún BA-gráðu í fyrirtækjasamskiptum og ensku og tveggja ára viðbótarnám í viðburðastjórnun og þjónustuhagfræði. „Ég vann alltaf með skólanum sem aðstoðarveitingastjóri á listasafni í Aarhus þannig að ég hef alltaf verið með puttana í veitingabransanum. Núna vinn ég sem markaðsstjóri Flúðasveppa og Flúðajörfa ásamt að vera rekstrar- og viðburðastjóri Farmers Bistro. Ég á þriggja ára yndislega dóttur sem heitir Kirsten og búum við tvær saman hérna á Flúðum og elskum það,“ segir Ragnheiður.

Lambabagginn nýtur mikla vinsælda.

Æðislegt að alast upp í þessu umhverfi

Hvernig var að alast upp á Flúðum í svepparæktinni?

„Ég ólst ekki þannig upp í svepparæktinni, ég ólst upp í gróðurhúsunum á Flúðajörfa, sem er ein stærsta garðyrkjustöð Íslands. Flúðasveppir voru auðvitað þarna þegar ég var að alast upp. Ég hef unnið frá því ég man eftir mér. Þannig að öll þessi vitneskja um ræktunina kom strax á unga aldri.“

Pabbi keypti Flúðasveppi 2006 og þá byrjaði ég að fræðast aðeins meira um þá ræktun.“

Leið þér nokkurn tímann eins og þú byggir í Strumpalandi?

„Ég veit ekki alveg með það, en ég hef verið að leika mér svolítið með strumpa þegar ég hef verið að taka á móti yngri hópum, sem hefur vakið mikla ánægju en við erum samt hálfgerðir strumpar hérna,“ segir Ragnheiður og skellir upp úr.

Frægasta sveppasúpa landsins laðar að matargesti og uppskriftin er hernaðarleyndarmál staðarins. Smjörsteiktu sveppirnir eru girnilegir og bráðna í munni.

Gott starfsfólk lykilatriði í blómlegum rekstri

Hver er galdurinn á bak við að hafa verið með þennan blómlega rekstur öll þess ár?

„Svepparæktun er mikil nákvæmisræktun, þannig að það skiptir miklu máli að vera með gott starfsfólk, sem við erum svo ótrúlega heppin að hafa. Svo er auðvitað hráefnið sem skiptir líka gríðarlegu máli. Við erum með um 300 hektara af landi, þar sem við erum að rækta strandreyr og bygg sem er undirstaðan í svepparækt. Okkur hefur tekist vel í þeirri ræktun og það skiptir mjög miklu máli að við vitum hvernig hráefnið er.“

Ræktið þið meira en sveppi?

„Já, eins og ég hef nefnt, þá eigum við líka Flúðajörfa. Þar erum við að rækta pink tómata og paprikur í gróðurhúsum og spergilkál, rauðkál og gulrætur úti. Við erum að nota öll þessi hráefni sem við ræktum á veitingastaðnum Farmers Bistro.“

Farmers Bistro draumur pabba

Segðu okkur aðeins frá hvernig það kom til að þið opnuðuð Farmers Bistro?

„Að opna veitingastað var alltaf draumur hjá pabba, og hugmyndin kom svo árið 2015. Ég var í Danmörku á þeim tíma. Pabbi sagði mér frá þessu og spurði hvort ég væri ekki til í að vera með honum í þessu verkefni. Þetta var auðvitað tilvalið fyrir mig og mína menntun þannig að þetta var svo sem ekki erfið ákvörðun. Ég flutti heim 2017 og við opnuðum veitingastaðinn það sumar,“ segir Ragnheiður.

„Innblásturinn er svolítið sveitó en samt stílhreinn. Þannig að staðurinn er mjög rústik-hannaður með hlýleika. Við erum sem sagt að framreiða mat fyrst og fremst úr því sem við erum að rækta og svo úr nærumhverfinu. Það er þetta slow-food konsept.“

Portobello-sveppaborgarinn er flottur á diskinum.Serbl_Myndatexti:

Sælkerahlaðborðið vinsælast

Aðspurð segir Ragnheiður að þau eigi öll heiðurinn af uppskriftunum. „Við vinnum öll saman að því að koma með hugmyndir og útfærslur, við erum svo heppin að vera með frábært starfsfólk sem fer með okkur í þankahríð fyrir matargerðina.

Sælkerahlaðborðið okkar er langvinsælast, þar er sveppasúpan okkar í aðalhlutverki, nýbökuð brauð og alls konar gúmmelaði úr okkar hráefnum.“

Ertu til í að svipta hulunni af einum rétti sem boðið var upp á í þættinum Matur og heimili á dögunum?

„Smjörsteiktu sveppirnir á hlaðborðinu hafa notið gríðarlegra vinsælda þannig að ég vil endilega deila þeirri uppskrift með þjóðinni.“

Smjörsteiktir sveppir að Farmers Bistro stíl

250 g af sveppum (helst litlum)

50 g af smjöri

1 msk. olía

2 tsk. salt

1 msk. timian

Setjið smjör og olíu á pönnu og bræðið. Bætið sveppunum við.

Látið malla í 10 mínútur áður en kryddinu er bætt við. Steikið í 5 til 7 mínútur eða þangað til þeir ná gylltum lit. Berið fram með því sem hugurinn girnist og njótið.