Tíðir flutningar milli Íslands og Englands meðan hann var barn og unglingur hafa markað líf og tískuáhuga Viktors Más Péturssonar, nema á öðru ári í fatahönnun við Listaháskóla Íslands. „Ég held að ég geti þakkað árunum mínum sem barn í London fyrir þennan mikla tískuáhuga sem ég hef í dag. Mamma dró mig í margar fataverslanir á þessum tíma og ég man hvað ég naut þess að fara með henni. Það var þó um fjórtán ára aldurinn sem stærsta breytingin varð þegar ég fór að velta fyrir mér skoðunum annarra á mér.“

Stöðug aðlögun

Allt flakkið á æskuárunum gerði að verkum að Viktor var stöðugt að aðlagast nýju umhverfi og fólki. „Ég komst að því að þau skref voru miklu auðveldari ef ég var smart klæddur. Það má því segja að í fyrstu hafi fatastíll minn verið hluti af því að falla inn í hópinn.

Fljótlega tók ég þó eftir því hversu gaman það var að tjá mig gegnum tískuna. Ýmsir segja að fatastíll hvers og eins endurspegli hver hann eða hún er mér finnst fatastíllinn segja meira um hvaða boðskap eða skilaboð hver og einn hefur fram að færa.“

Jakkann fékk hann gefins og skórnir eru gamlir Converse-skór. Buxurnar voru keyptar notaðar. Húfuna risti hann upp og bætti við reimum til að gera hana víðari.

Margt sem heillar

Eftir útskrift frá Listaháskólanum langar hann helst að starfa hjá einhverju fatamerki sem hann dáist að. „Þar til sá draumur rætist vil ég gjarnan starfa við búningahönnun í tengslum við kvikmyndir og tónlistarmyndbönd, í tískuvöruverslunum og við almenna smíðavinnu en ég elska að vinna í höndunum. Ef ég ætti hins vegar að reyna við drauminn í tengslum við tískubransann væri það að vinna við einhvers konar hönnun sem tengist umhverfisvænni framtíð.“

Levi’s-buxur og Champion-peysa eru keyptar á nytjamarkaði. Húfuna keypti hann á markaði á Englandi af konu sem prjónaði hana sjálf.

Innblástur úr ólíkum áttum

Helstu áhrifavaldar hans þegar kemur að tísku eru einfaldlega fólkið í kringum hann hverju sinni, þótt það sé að öllu jöfnu ekki með eins áberandi stíl og margt frægt fólk. „Ég fæ mikinn innblástur með því að fylgjast daglega með fatastíl fólks í kringum mig og fæ þannig ýmsar hugmyndir. Utan þess eru það líka frægir listamenn á borð við Kerwin Frost, Asap Nast, Blondey Mccoy og Steve Lacy sem hafa líka haft mikil áhrif á mig undanfarin ár.“

Hvernig hefur fatastíllinn þinn þróast undanfarin ár?

Það er vont að segja. Ég á nógu erfitt með að skilgreina fatastíl minn dagsdaglega. En ef eitthvað einkennir hann undanfarin ár mundi ég segja húmor. Mér finnst húmor mjög vanmetinn í tísku en þegar hann er notaður rétt gefur hann mér mikla gleði.

Jakka og buxur keypti hann notaða í London. Skórnir eru frá Kiko Stadinov og töskuna saumaði hann sjálfur.

Hvernig fylgist þú helst með tískunni?

Mest í gegnum Instagram og stundum Vogue Runway.

Hvar kaupir þú helst fötin þín?

Í verslunum sem selja notuð föt. Þegar ég fer í verslunarferð reyni ég að keyra milli allra slíkra verslana og stundum kaupi ég kannski eina flík á öllum þessum rúnti.

Hvaða litir eru í uppáhaldi?

Regnboginn.

Áttu minningar um gömul tískuslys?

Þau eru allt of mörg. Flest voru þess eðlis að fólk í kringum mig var lítið að spá í þeim en ég man eftir tilfinningunni þegar ég gerði mér sjálfur grein fyrir þeim. Ég er samt þakklátur fyrir þessi gömlu tískuslys því þau hafa kennt mér margt þegar kemur að klæðaburði.

Hvaða þekkti einstaklingur er svalur þegar kemur að fatnaði?

Þessir einstaklingar eru kannski ekki frægir þannig séð en hafa að mínu mati flekklausan fatastíl sem er meðal annars hægt að skoða á Instagram-­reikningum þeirra. Þetta eru Logi Thorvaldsson (@prettylogi), Guðmundur Magnússon (@gummo_), Arna Inga (@arnainga), Jón Sölvi Eiríksson (@jonsolvi) og Karitas Spano (@karitasspano).

Hvaða flíkur hefur þú átt lengst og notar enn?

Það er væntanlega ljósbrúnu Converse-skórnir mínir sem ég er búinn að eiga í sjö ár. Skórnir eru að detta í sundur en ég set appelsínugular gúmmítúttur utan um þá til að verja skóna.

Hér klæðist Viktor gömlum Carhartt cargo buxum og notaðri peysa frá Stellu McCartney. Skórnir eru UGG loðskór.

Áttu uppáhaldsverslanir?

Ég held jafnt upp á allar verslanir á Íslandi sem selja notuð föt.

Áttu eina uppáhaldsflík?

Nei, mér þykir mjög vænt um allar flíkurnar mínar.

Bestu og verstu fatakaupin?

Margar flíkur keppast um bestu kaupin. Nýlega fann þó ég bláa Strætó-skyrtu í „charity shop“ sem var í mjög góðu ástandi. Geggjuð kaup! Mér þykir mjög vænt um þessa skyrtu og finnst mikill húmor fólginn í því að klæðast henni þegar ég vil vera svalur.

Notar þú fylgihluti?

Ég reyni það. Fyrst vel ég fötin og svo þá fylgihluti sem passa við. Fylgihlutir gera falleg föt enn betri.

Eyðir þú miklum peningum í föt miðað við jafnaldra þína?

Það held ég ekki. Ég kaupi minna af nýjum fötum en áður þótt ég freistist til að kaupa flíkur frá hönnuðum sem ég dáist að. Nú kaupi ég flest föt í verslunum sem selja notuð föt því mér finnst það vera eina leiðin til að klæða sig frumlega á meðan það eru svo fáar alvöru merkjabúðir á Íslandi. Þar er að minnsta kosti hægt að finna einstakan notaðan fatnað ef maður bara gefur sér góðan tíma.