Eydís hefur ávallt haft mikinn áhuga á listum, alveg frá því hún man eftir sér. „Frá því að ég man eftir mér hef ég ætlað mér að verða listamaður, þar sem margir valkostir komu til greina. Þar einna helst á lista hafa alltaf verið að verða fatahönnuður, söngkona og leikkona.

Ég hef einnig ávallt haft mikinn áhuga á tónlist og hef verið syngjandi frá því að ég lærði að tala, er mikil handavinnukona og hef alltaf verið. Einnig hef ég verið mikið í leiklist frá því ég var ung.“

Keypti fyrstu saumavélina 10 ára

Eydís útskrifaðist sem stúdent af leiklistarbraut úr Borgarholtsskóla. „Ég ákvað að sækja um í fatahönnun í Listaháskólanum í framhaldi af því og er núna nýútskrifuð sem fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands. Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á tísku og langaði lengi vel að verða fatahönnuður, en ástríðan á hönnun kviknaði aftur þegar ég fór að hafa mikinn áhuga á umhverfisvernd og langaði að finna betri og umhverfisvænni leiðir til að búa til fatnað,“ segir hún.

Eydís, sem er 22 ára, gengur í eigin hönnun. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Draumurinn um að verða fatahönnuður hefur lengi blundað í Eydísi og má segja að það hafi verið svolítið skrifað í bækurnar frá bernskuárunum. „Fatahönnun hefur verið á planinu frá því að ég fór og keypti mína fyrstu saumavél þegar ég var 10 ára. Frá því ég var krakki hafði ég alltaf mjög gaman af handavinnu. Ég prjónaði, heklaði og saumaði eins mikið og ég gat, og fannst ekkert skemmtilegra. Þar kviknaði fyrst og fremst áhuginn á fatahönnun. Þegar kom að því að ég þurfti að velja framhaldsskóla var valið á milli leiklistarbrautar eða fatahönnunarbrautar, og á þeim tíma varð leiklistin fyrir valinu. En draumurinn hefur ávallt verið að verða leik- og söngkona og fatahönnuður,“ segir hún.

„Þegar kom að lokum á þeirri námsbraut kviknaði aftur upp hönnunargleðin og því ákvað ég að sækja um í fatahönnun,“ segir Eydís. Á þessum tíma var Eydís farin að fræðast talsvert um umhverfismál og var löngunin til að reyna að leita lausna og nýrra leiða fyrir fataiðnaðinn til að verða grænni og betri iðnaður orðin að ástríðu.

Eydís Elfa hannaði útskriftarkjólinn sinn sjálf sem er hinn glæsilegasti og takið eftir skónum. Eydís Elfa fagnaði tímamótunum í faðmi fjölskyldunnar.

„Frá unga aldri hef ég verið að sanka að mér alls konar drasli/hlutum og síðan unnið eitthvað úr þeim. Ég vil að ekkert fari til spillis og reyni alltaf að sjá fegurðina og möguleikana í því sem er fyrir framan mig, alveg sama hvað það er. Þegar ég var krakki safnaði ég Mackintosh umbúðum og gerði úr því kápu, safnaði saman töppum af glerflöskum sem ég síðan festi saman, setti síðan á gamalt leður úr sófasettinu hjá ömmu og afa og bjó til veski úr því. Til að mynda þríf ég og geymi gamla snakkpoka og nota þá sem gjafapappír. Allt sem ég get nýtt, nota ég.“

Innblásið af lúpínu

Aðspurð segir Eydís að náminu hafi fylgt margar áskoranir. „Námið sjálft var mjög krefjandi og margar áskoranir sem blöstu við. Enda mjög krefjandi að þurfa að vera hugmyndaríkur og frjór alla daga, allan daginn. Ég er lesblind og það hefur verið krefjandi þegar kemur að námi en ég lærði einnig snemma að því fylgir ákveðin náðargáfa, ég sé hlutina mjög myndrænt, sem ég held að hjálpi mér þegar kemur að því að hanna.“

Eydís segist fá innblásturinn fyrir hönnun sína víða. „Lokaverkefnið mitt var innblásið af lúpínu enda blasa þær við manni á þessum árstíma sem lokaverkefnið fór af stað. Ég fór að hugsa hvort ekki væri hægt að nýta lúpínuna í textíl. Eftir alls konar rannsóknir komst ég svo að því að hún hentaði ekki á hefðbundinn hátt en hún var samt grunnurinn og leiddi mig áfram í ferlinu.“

Hér má sjá brot af lokalínunni hennar Að jörðu skaltu aftur verða. Módelið er Neza Dapcevic. Myndir/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir.

Ofbýður sóun

Þegar Eydís er beðin um að lýsa hönnunarstíl sínum segist hún vera frekar praktísk en innblásin af umhverfinu og nýtni; hvernig hægt er að endurnýta hluti og koma í veg fyrir sóun. „Mér ofbýður sóun í nútímasamfélagi og vil sjá sem mesta endurnýtingu og endurvinnslu. Við getum ekki gengið endalaust á auðlindir jarðar. Fataiðnaðurinn er því miður einn mest mengandi iðnaður í heimi og því er algjörlega nauðsynlegt að huga að því hvernig hægt er að nýta efni betur, hvernig hægt er að notast við umhverfisvænni lausnir í nærsamfélaginu og að huga að því hvað verður um flíkina þegar hún er ekki lengur notuð.“

Elskar að klæðast litum

Eydís hefur ávallt haft sterkar skoðanir á því hverju hún hefur viljað klæðast. „Ég hef alltaf verið frekar erfið þegar kemur að klæðnaði. Átti það til að harðneita að fara í eitthvað sem krakki ef mér fannst það ekki fallegt. Ég er ekki að segja að ég hafi alltaf verið rosa smart sem krakki en ég var samt sem áður mjög ákveðin í því hverju ég vildi klæðast og hverju ekki. Eitt sem hefur ávallt verið rauður þráður í gegnum allar mínar tískubylgjur er það að ég hef alltaf sóst eftir að klæða mig mjög litríkt. Sérstaðan við minn persónulega stíl er að ég elska að klæðast litum og er hægt að finna alla liti regnbogans í skápnum mínum. Ég eltist ekki við tískustrauma og læt þá ekki hafa nein áhrif á mig hvað varðar litaval. Ég sækist hvað mest í rauðan og appelsínugulan ásamt fullt af öðrum litum en mér finnst þeir mjög einkennandi fyrir mig og finnst mér þeir mjög sterkir. Fyrir mig að klæðast litum, finnst mér þeir gefa mér styrk og gleði út í daginn.“

Lúpína til að kalla fram áferð og mynstur

Eydís og samnemendur hennar í fatahönnun voru með tískusýningu sem vakti mikla athygli enda frjó og glæsileg hönnun þar á ferð. „Ég tók þátt í tískusýningu þar sem að ég og samnemendur mínir á þriðja ári í fatahönnun sýndum lokalínurnar okkar í byrjun maí. Einnig tók ég þátt í útskriftarsýningu Listaháskólans sem haldin var á Kjarvalsstöðum þar sem að verk útskriftarnema fengu að skreyta alla sali hússins.“

Það má svo sannarlega sjá að Eydís hafi blómstrað í hönnun sinni þegar útkoman á lokalínunni var afhjúpuð og nafn hennar skírskotun í hugmyndafræðina bak við hönnunina. „Lokalínan mín fékk nafnið Að jörðu skaltu aftur verða, þar sem að mér fannst það mjög viðeigandi nafn í takt við verkefnið, en línan var unnin út frá hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins þar sem að hugmyndin var sú að geta skilað flíkunum aftur til náttúrunnar þegar þær hafa hætt að þjóna tilgangi sínum.

Kveikjan að hugmyndinni kom þar sem mig langaði að kanna hvort hægt væri að nýta trefjar lúpínu við gerð textíls. Kom í ljós að ekki var það hægt á hefðbundinn hátt og því ákvað ég að leita annarra leiða og leika mér aðeins meira með hráefnið. Sem að mínu mati gerði verkefnið skemmtilegra en ella. Ég ákvað að búa til flíkur úr lífplasti/bioplasti þar sem að ég notaði lúpínuna til að kalla fram áferð og mynstur í efnið. Ég notaðist aðeins við náttúruleg efni í flíkurnar og hugmyndin er sú að hægt væri að skila þeim aftur til jarðarinnar eftir að þær hafa fengið að þjóna tilgangi sínum,“ segir Eydís að lokum.

Gullfallegur kjóll sem Kamilla klæðist. Eins og sjá má kallast mynstrið og formið á við náttúruna.