Ljóð­skáldið Arn­dís Lóa Magnús­dóttir hefur sent frá sér sína aðra ljóða­bók sem ber heitið Skurn. Bókinni hefur verið lýst sem ljóð­sögu á mörkum skáld­sögu og ljóða en spurð um hvernig hún myndi sjálf lýsa bókinni segir Arn­dís:

„Já, bókinni hefur verið lýst sem ljóð­sögu af því að hún er mitt á milli ljóða­bókar og skáld­sögu. Sjálf kýs ég kannski frekar að líta á hana sem ljóð­ræna og svo­lítið skrítna stutta skáld­sögu.“

Ég heyrði ein­hvers staðar að bókin hefði upp­haf­lega átt að vera skáld­saga, hvernig og af hverju um­breyttist hún í ljóða­bók?

„Mig langaði til að fara að­eins meira út í til­raunir með formið heldur en í ljóða­bókinni minni, Tauga­boð á há­spennu­línu, sem kom út fyrir tveimur árum. Ég er ung og enn að prófa mig á­fram og læra og mig langaði til að skrifa bók sem væri á mörkum hins hefð­bundna forms skáld­sögu og gæti jafn­vel fallið í fleiri en eina kate­góríu. Að endingu fannst mér knappara form henta bókinni betur. Þetta er svo­lítið erfitt efni, til­finninga­lega séð, því tví­bura­systir sögu­manns lendir í slysi og hlýtur heila­skaða og mér fannst efnið komast betur til skila í færri orðum. Mér finnst sjálfri oft það á­huga­verðasta í skáld­skap felast í hinu ó­sagða.“

Stað­reyndir og gervi­vísindi

Skurn segir frá tví­bura­systrum og er sögu­maðurinn stelpa sem segir sögu systur sinnar sem lendir í al­var­legu slysi og hlýtur heila­skaða.

Fórstu í ein­hverja rann­sóknar­vinnu þegar þú varst að skrifa bókina?

„Ég get ekki bein­línis sagt að ég hafi eytt miklum tíma í rann­sóknar­vinnu en þó ein­hverjum. Maður vill auð­vitað vera trúr við­fangs­efni sínu og fjalla um það af virðingu. Ég las mér svo­lítið til um heilann og á­hrif höfuð­kúpu­brots áður en ég fór að stað með skrifin. En þótt sumt virki vísinda­legt eða læknis­fræði­legt er það oft upp­spuni og í raun bara mitt í­myndunar­afl. Mér fannst á­huga­vert að blanda saman stað­reyndum og ein­hverju sem ég bjó til, sem sagt að búa til eins konar „gervi­vísindi“.“

Arndís Lóa og kápa bókarinnar Skurn.
Mynd/samsett

Svaf ekki í þrjá mánuði

Í einum kafla Skurnar þar sem fjallað er um snertingu horfir sögu­hetjan á tví­bura­systur sína í gegnum gler á gjör­gæslu, þá minnist Arn­dís á tvær vísinda­konur sem aldrei hafa verið til og eru hreinn til­búningur.

„Önnu Bombus sem sögð er hafa annast fólk eftir kjarn­orku­slys og ekki mátti snerta það vegna geisla­virkni og stjarn­fræðinginn Lunu Auer sem segir að það erfiðasta við geim­ferðir hafi verið snertingar­leysið, að geta ekki faðmað aðra mann­eskju. Í öðrum kafla þar sem ég tala um svefn­leysi sögu­hetju minnist ég á að svefn­leysi hafi hrjáð ýmsar frægar mann­eskjur, eins og Thomas Edi­son og Isa­ac Newton. Ég þekki líka svefn­leysi af eigin raun því þegar ég var í MH upp­lifði ég ó­út­skýrt svefn­leysi þegar ég svaf ekki í þrjá mánuði. Það má kannski líta á það sem eins konar heimilda­vinnu að nýta sér þá reynslu sem inn­blástur til að skrifa þessa bók,“ segir hún.

Þetta hlýtur að hafa haft mikil á­hrif á þig, fékkstu ein­hvern tíma skýringu á svefn­leysinu?

„Já, þetta hafði tölu­verð á­hrif á mig og á fjöl­skylduna og ég var eigin­lega utan­skóla eitt misseri í MH. Það fannst í raun aldrei nein hald­bær skýring á þessu önnur en sú að þetta hefði verið eitt­hvað tauga­líf­eðlis­fræði­legt sem er á lækna­máli næsti bær við eitt­hvað guð­legt. Mig hefur alltaf langað til að gera eitt­hvað við þessa lífs­reynslu en ekki fundið henni far­veg fyrr en í Skurn.“

Í öðrum kafla þar sem ég tala um svefn­leysi sögu­hetju minnist ég á að svefn­leysi hafi hrjáð ýmsar frægar mann­eskjur, eins og Thomas Edi­son og Isa­ac Newton. Ég þekki líka svefn­leysi af eigin raun því þegar ég var í MH upp­lifði ég ó­út­skýrt svefn­leysi þegar ég svaf ekki í þrjá mánuði.

Skáld og þýðandi

Arn­dís starfar einnig sem þýðandi og í fyrra kom út þýðing hennar á skáld­sögunni Ru eftir Kim Thúy. Þá fjalla sum ljóða hennar í Skurn um merkingu og inn­tak orða.

Veitir tungu­málið sjálft þér inn­blástur fyrir skrifin?

„Já, ég held að það sé ó­hjá­kvæmi­legt þegar maður starfar bæði sem þýðandi og skáld annað en að fá gífur­legan inn­blástur frá tungu­málinu sjálfu. Þegar maður strandar á orði í þýðingu fer maður ó­sjálf­rátt að hugsa hvers vegna sam­bæri­legt orð sé ekki til í hinu málinu. Maður fær einnig mikinn inn­blástur bara við það að þýða. Það er nefni­lega mjög skapandi ferli að koma sögu til skila yfir á eigið móður­mál. Sem þýðanda finnst mér ég líka eiga ör­litla hlut­deild í verkinu sjálfu.“

Spurð um hvað sé næst á döfinni hjá henni segist Arn­dís vera komin með ein­hverjar hug­myndir en kveðst ekki vita hvaða form þau skrif muni taka.

„Ég held að ég sé að fikra mig hægt og ró­lega upp í að skrifa lengri prósa. En ég hef ekki hug­mynd um í hvaða formi það verður. Eins og ég sagði þá byrjaði ég að skrifa Skurn með allt annað form í huga en raunin varð svo. Nú er ég hins vegar að þýða dá­lítið heim­speki­lega barna­bók. Það er öðru­vísi að þýða fyrir börn en full­orðna, það er eins og maður finni til meiri á­byrgðar­kenndar, bæði gagn­vart tungu­málinu og lesandanum. Tungu­málið þarf að vera ein­falt og skýrt en samt verður maður að gæta þess að van­meta ekki börn og náttúru­lega alls ekki að tala niður til þeirra.“