Ljóðskáldið Arndís Lóa Magnúsdóttir hefur sent frá sér sína aðra ljóðabók sem ber heitið Skurn. Bókinni hefur verið lýst sem ljóðsögu á mörkum skáldsögu og ljóða en spurð um hvernig hún myndi sjálf lýsa bókinni segir Arndís:
„Já, bókinni hefur verið lýst sem ljóðsögu af því að hún er mitt á milli ljóðabókar og skáldsögu. Sjálf kýs ég kannski frekar að líta á hana sem ljóðræna og svolítið skrítna stutta skáldsögu.“
Ég heyrði einhvers staðar að bókin hefði upphaflega átt að vera skáldsaga, hvernig og af hverju umbreyttist hún í ljóðabók?
„Mig langaði til að fara aðeins meira út í tilraunir með formið heldur en í ljóðabókinni minni, Taugaboð á háspennulínu, sem kom út fyrir tveimur árum. Ég er ung og enn að prófa mig áfram og læra og mig langaði til að skrifa bók sem væri á mörkum hins hefðbundna forms skáldsögu og gæti jafnvel fallið í fleiri en eina kategóríu. Að endingu fannst mér knappara form henta bókinni betur. Þetta er svolítið erfitt efni, tilfinningalega séð, því tvíburasystir sögumanns lendir í slysi og hlýtur heilaskaða og mér fannst efnið komast betur til skila í færri orðum. Mér finnst sjálfri oft það áhugaverðasta í skáldskap felast í hinu ósagða.“
Staðreyndir og gervivísindi
Skurn segir frá tvíburasystrum og er sögumaðurinn stelpa sem segir sögu systur sinnar sem lendir í alvarlegu slysi og hlýtur heilaskaða.
Fórstu í einhverja rannsóknarvinnu þegar þú varst að skrifa bókina?
„Ég get ekki beinlínis sagt að ég hafi eytt miklum tíma í rannsóknarvinnu en þó einhverjum. Maður vill auðvitað vera trúr viðfangsefni sínu og fjalla um það af virðingu. Ég las mér svolítið til um heilann og áhrif höfuðkúpubrots áður en ég fór að stað með skrifin. En þótt sumt virki vísindalegt eða læknisfræðilegt er það oft uppspuni og í raun bara mitt ímyndunarafl. Mér fannst áhugavert að blanda saman staðreyndum og einhverju sem ég bjó til, sem sagt að búa til eins konar „gervivísindi“.“

Svaf ekki í þrjá mánuði
Í einum kafla Skurnar þar sem fjallað er um snertingu horfir söguhetjan á tvíburasystur sína í gegnum gler á gjörgæslu, þá minnist Arndís á tvær vísindakonur sem aldrei hafa verið til og eru hreinn tilbúningur.
„Önnu Bombus sem sögð er hafa annast fólk eftir kjarnorkuslys og ekki mátti snerta það vegna geislavirkni og stjarnfræðinginn Lunu Auer sem segir að það erfiðasta við geimferðir hafi verið snertingarleysið, að geta ekki faðmað aðra manneskju. Í öðrum kafla þar sem ég tala um svefnleysi söguhetju minnist ég á að svefnleysi hafi hrjáð ýmsar frægar manneskjur, eins og Thomas Edison og Isaac Newton. Ég þekki líka svefnleysi af eigin raun því þegar ég var í MH upplifði ég óútskýrt svefnleysi þegar ég svaf ekki í þrjá mánuði. Það má kannski líta á það sem eins konar heimildavinnu að nýta sér þá reynslu sem innblástur til að skrifa þessa bók,“ segir hún.
Þetta hlýtur að hafa haft mikil áhrif á þig, fékkstu einhvern tíma skýringu á svefnleysinu?
„Já, þetta hafði töluverð áhrif á mig og á fjölskylduna og ég var eiginlega utanskóla eitt misseri í MH. Það fannst í raun aldrei nein haldbær skýring á þessu önnur en sú að þetta hefði verið eitthvað taugalífeðlisfræðilegt sem er á læknamáli næsti bær við eitthvað guðlegt. Mig hefur alltaf langað til að gera eitthvað við þessa lífsreynslu en ekki fundið henni farveg fyrr en í Skurn.“
Í öðrum kafla þar sem ég tala um svefnleysi söguhetju minnist ég á að svefnleysi hafi hrjáð ýmsar frægar manneskjur, eins og Thomas Edison og Isaac Newton. Ég þekki líka svefnleysi af eigin raun því þegar ég var í MH upplifði ég óútskýrt svefnleysi þegar ég svaf ekki í þrjá mánuði.
Skáld og þýðandi
Arndís starfar einnig sem þýðandi og í fyrra kom út þýðing hennar á skáldsögunni Ru eftir Kim Thúy. Þá fjalla sum ljóða hennar í Skurn um merkingu og inntak orða.
Veitir tungumálið sjálft þér innblástur fyrir skrifin?
„Já, ég held að það sé óhjákvæmilegt þegar maður starfar bæði sem þýðandi og skáld annað en að fá gífurlegan innblástur frá tungumálinu sjálfu. Þegar maður strandar á orði í þýðingu fer maður ósjálfrátt að hugsa hvers vegna sambærilegt orð sé ekki til í hinu málinu. Maður fær einnig mikinn innblástur bara við það að þýða. Það er nefnilega mjög skapandi ferli að koma sögu til skila yfir á eigið móðurmál. Sem þýðanda finnst mér ég líka eiga örlitla hlutdeild í verkinu sjálfu.“
Spurð um hvað sé næst á döfinni hjá henni segist Arndís vera komin með einhverjar hugmyndir en kveðst ekki vita hvaða form þau skrif muni taka.
„Ég held að ég sé að fikra mig hægt og rólega upp í að skrifa lengri prósa. En ég hef ekki hugmynd um í hvaða formi það verður. Eins og ég sagði þá byrjaði ég að skrifa Skurn með allt annað form í huga en raunin varð svo. Nú er ég hins vegar að þýða dálítið heimspekilega barnabók. Það er öðruvísi að þýða fyrir börn en fullorðna, það er eins og maður finni til meiri ábyrgðarkenndar, bæði gagnvart tungumálinu og lesandanum. Tungumálið þarf að vera einfalt og skýrt en samt verður maður að gæta þess að vanmeta ekki börn og náttúrulega alls ekki að tala niður til þeirra.“