Ferða- og náttúrulýsingabókin Fjallamenn eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal kom fyrst út árið 1946. Í henni er að finna innblásna ferðaþætti, fjölþættar frásagnir og texta um náttúru og útivist, frá byggðum og óbyggðum Íslands, fjallalöndum Mið-Evrópu til landa fyrir botni Miðjarðarhafs. Í henni eru að auki ljósmyndir og teikningar eftir Guðmund. Bókin hefur í fjölda ára verið keypt og seld dýrum dómum hjá fornbókasölum en kemur nú aftur fyrir sjónir lesenda í nýrri endurútgáfu.

„Útgefendur hjá Sölku höfðu samband við okkur fjölskylduna. Sögðu einfaldlega að áhuginn á úti- og fjallamensku væri orðinn slíkur að það væri tímabært að bókin yrði gefin aftur út,“ segir Ari Trausti Guðmundsson, sonur Guðmundar, sem ritar formála endurútgáfunnar.

„Bókin er örlítið minni í sniðum en upprunalega útgáfan, en annars ansi nákvæm eftirmynd.“

Kaflarnir í bókinni eru nokkuð langir og í sumum þeirra rekur Guðmundur reynslu sína af ferðalögum og leið­öngrum á Íslandi og erlendis, meðal annars frá þeim tíma sem hann stundaði listnám í München.

„Þar tengdist hann inn í hóp austurrískra og þýskra fjallamanna og fór með þeim í alvöru fjallaferðir í Ölpunum,“ segir Ari Trausti.

„Þegar hann kemur heim 1926 fer hann fljótlega að tala fyrir aukinni útivist og náttúruskoðun og kynna fjallamennsku á tæknilegum nótum eða svonefndan alpínisma. Í kjölfarið tóku við fjallamennskunámskeið, skálabyggingar og fleira, sem leiðir svo til þess að félagsskapurinn Fjallamenn er stofnaður árið 1939. Hann var sérstakur að því leyti að þar var útivist færð frá hefðbundnum fjallgöngum yfir í klifur og jöklaferðir með tilheyrandi búnaði.“

Áhrifamikill félagsskapur

Fjallamenn vöktu framan af mikla athygli og þegar til dæmis páskaferðir inn á öræfin stóðu fyrir dyrum var haft samband við Guðmund, sem endaði jafnvel með forsíðufrétt í einhverju dagblaðanna.

+Þegar bókin kom svo út árið 1946 seldist hún vel og var ekki endurprentuð fyrr en nú á dögunum. Í nokkrum köflum koma fram sagnir sem Guðmundur heyrði og endursegir á skemmtilegan hátt. „Sumar þeirra eru nánast þjóðsögur,“ segir Ari Trausti.

„Hann rekur svo ferð sem hann fer frá München með Ósvaldi Knudsen yfir til Litlu-Asíu og segir frá upplifun sinni af Grikklandi, Tyrklandi og fleiri löndum.“

Guðmundur fléttar einnig inn alls konar pælingum um það sem hann kallaði líkamsmennt, en hann var að hluta alinn upp í ungmennasamtökum landsins snemma á síðustu öld og lagði mikla áherslu á íþróttir, einkum útivistaríþróttir.

Þá fjallar Guðmundur einnig um náttúruna á einstakan hátt. „Þar skynjar maður bæði náttúruverndaráhuga og rómantík, en hann var af þeirri kynslóð sem leit háleitum augum á náttúru Íslands,“ segir Ari Trausti.

„Þetta er innblásinn og glæsilega skrifaður texti, sem er ein af ástæðunum fyrir því að bókin er nú komin fram í endurútgáfu.“