Ingvar E. Sigurðsson hlaut í gær verðlaun sem besti leikarinn á Critics‘ Week sem er ein af hliðardagskrám Cannes kvikmyndahátíðarinnar, fyrir leik sinn í kvikmyndinni Hvítur, hvítur dagur. Hann staðfestir einnig að hafa nýverið tekið þátt í tökum hérlendis á HBO-þáttaseríunni Succession.

Myndin er önnur kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Hlyns Pálmarssonar en sú fyrsta sem hann gerir í fullri lengd á íslensku. Á Critics‘ Week eru sjö kvikmyndir sem eru annaðhvort fyrsta eða önnur mynd leikstjóra tilnefndar til verðlauna í tveimur flokkum. Annars vegar eru veitt verðlaun fyrir besta leikarann, sem Ingvar hlaut, og hins vegar fyrir bestu myndina en þau hlaut myndin J’ai perdu mon corps, eða Ég týndi líkama mínum, eftir franska leikstjórann Jérémy Clapin.

Hvítur, hvítur dagur hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda á hátíðinni en hún fjallar um lögreglustjórann Ingimund sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum. Sagan fjallar um sorg, hefnd og ástina en Ingimund fer bráðlega að gruna mann um að hafa átt í leynilegu ástarsambandi við konu sína.

Kvikmyndin verður frumsýnd á Íslandi 6. September.

Þá staðfesti Ingvar einnig í samtali við Fréttablaðið að hafa nýverið tekið þátt í tökum á annarri seríu HBO-þáttanna Succession. Tökurnar fóru fram hérlendis dagana 13. og 14. maí á Nesjavöllum.