Einn vinsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar, Ingó Veðurguð eða Ingólfur Þórarinsson, er orðinn einhleypur á nýjan leik. Ingó og Rakel María Hjaltadóttir, slitu sambandi sínu fyrr í sumar eftir tæplega sex ára samband.

Það hafa því skipst á skin og skúrir hjá Ingó í sumar því nýjasta lagið hans - „Í kvöld er gigg“ – hefur slegið rækilega í gegn og verður án efa eitt af vinsælustu lögum ársins. Þá hefur þjóðarhátíðarlag hans „Takk fyrir mig“, einskonar óður til hátíðar sem aldrei varð, einnig gert góða hluti í útvörpum landsmanna.

Rakel María er lærður hársnyrtir og förðunarfræðingur. Hún hóf störf hjá Ríkisútvarpinu á síðasta ári en að auki starfar hún hjá Borgarleikhúsinu.

Í viðtali við Fréttablaðið á dögunum sagði Ingó að fyrra lagið væri afar persónulegt og hefði verið samið þegar hann fann til andlegs tómleika eftir mikla vinnutörn. Hann hafi meðal annars látið slag standa að gefa lagið út því það var eftirlætislag Rakelar.