Milliþing Viðreisnar fór fram í gær og að því loknu gerðu fjórir þingmenn flokksins sér lítið fyrir, skelltu sér á svið og tóku lag með sænsku hljómsveitinni ABBA í fullum skrúða. Textinn við lagið var á íslensku og fjallar í stuttu máli um hin ýmsu málefni Viðreisnar, flokksmeðlimi og áherslur. Er hann saminn af Ragnhildi Sverrisdóttur, upplýsingafulltrúa og eiginkonu Hönnu Katrínar Friðriksson þingmanns. Má lesa hann hér að neðan.

Það voru þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Þorsteinn Víglundsson og Jón Steindór Valdimarsson sem tóku lagið, og dansinn, og voru þau glæsileg til fara á sviðinu, íklædd ABBA-búningum, sem fengnir voru að láni úr sýningunni Mamma mia sem sett var á svið Borgarleikhússins á sínum tíma.

Að sögn Maríu Rutar Kristinsdóttur, aðstoðarkonu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttir þingmanns, hafði þinginu verið slitið í gær og ljósin slökkt þegar þingmennirnir stigu skyndilega á svið við mikinn fögnuð. Bendir hún á að Þorsteinn Víglundsson þingmaður hafi einungis haft tvær mínútur til að skipta um föt og fara í búninginn skrautlega. Honum tókst það þó snarlega og fékk atriðið góðar viðtökur.

Brot úr atriðinu má sjá hér að neðan. 

Textinn við lagið

Þegar frjálslynt er fólk vill það stýra landi
Fylkjast saman í lið, það er enginn vandi
Hér erum við, hér er Viðreisnin
Hinkrið nú við, því nú stígum við öll á svið
Hér er allt þetta þingflokkslið
Þorgerður, Þorsteinn og Jón Steindór
Kata leggur líka í þennan kór

Ó-ó-ó Mamma mia, komin(n) er á þing
Æ, æ, á ég mér þar framtíð?
Mamma mia, þarf að sitja þing
Æ, æ, fást við þessa misklíð
 
Innan um alls kyns dóna
Einn þeirra vill ei skóna
Æ, æ, hvernig mun ég lifa af
Mamma mia, víst ég óttast það
Æ, æ, ég mun ekki lifa af.
 
Leigubílar og lögræði finnst okkur hot
Búsið viljum í Bónus, það er svo gott
Sálfræðihjálp afar ódýra
Skírum svo öll börnin okkar svo frjálslega
Sendum í frjálsa grunnskóla
 
Þorgerður, Þorsteinn og Jón Steindór
Kata leggur líka í þennan kór
 
Ó-ó-ó Mamma mia, komin(n) er á þing
Æ, æ, á ég mér þar framtíð?
Mamma mia, þarf að sitja þing
Æ, æ, fást við þessa misklíð
 
Maríu, Stell‘ og Dagbjart
Kveljum við gjarnan dagspart
Æ, æ, gera þau nú eitthvað rétt?
Mamma mia, þett‘er ekki létt
En við munum berjast áfram
Mamma mia, fyrir jafnrétti
Þótt það reynist stundum erfitt
 
Mamma mia, komin(n) er á þing
Æ, æ, á ég mér þar framtíð?
Mamma mia, þarf að sitja þing
Æ, æ, fást við þessa misklíð
 
Enn er þó verk að vinna
ESB þarf að sinna
Og svo los‘okkur við krónuna
Mamma mia, lækka vextina
Æ, æ, hvenær verður komið nóg?