Íbúar og starfsfólk Hrafnistuheimilanna gerðu sér glaðan dag í dag þegar blásið var til kótilettuveislu í tilefni af afmæli Sjómannadagsráðs. Meðal gesta voru þingmennirnir Guðjón Brjánsson og Ólafur Þór Gunnarsson auk Sighvats Halldórssonar frá Kiwanisklúbbnum Heklu og öttu þeir kappi við Birgi rafvirkja á Hrafnistu um það hver gat torgað flestum kótilettum. 

Skipuleggjendur hjá Sjómannadagsráði áttu von á því að reiða fram rúmlega þúsund máltíðir á Hrafnistuheimilunum sex, vitaskuld hinn svokallaða þjóðarrétt Hrafnistu sem eru sígildar kótilettur í raspi með grænum baunum, rabarbarasultu, létt brúnuðum kartöflum og öðru tilheyrandi meðlæti.

Líkt og sjá má á myndunum hér að neðan var afar skemmtileg stemning á Hrafnistu en með sigur af hólmi í kótilettuátinu fór þingmaðurinn Ólafur Þór og tók þar með titilinn af Birgi rafvirkja, sem áður átti metið þegar hann innbyrti um árið heilar nítján kótilettur.