Í þættinum Matur og Heimili á sjón­varps­stöðinni Hring­braut í kvöld hittir Sjöfn Þórðar Garð­bæingana, at­hafna­konurnar og gleði­gjafana þær Ás­laugu Huldu Jóns­dóttur og Ingu Lind Karls­dóttur heima í eld­húsinu hjá Ás­laugu Huldu þar sem Sjöfn kemur færandi hendi með þorra­mat eins og hann gerist bestur. Þær stöllur er vanar að mæta á hið ár­lega Þorra­blót Stjörnunnar en ekkert blót er fram undan nú á Bónda­dag líkt og í fyrra.

Vegna sam­komu­tak­markana verða vart mörg þorra­blót haldin í ár og því fátt annað að gera en að færa þorra­matinn aftur inn á heimili fólks.

„Það sem mér finnst kannski verst við þorrann í ár að það verður ekki Þorra­blót hjá Stjörnunni, en það hefur verið svona há­punkturinn hjá mér og mörgum Garð­bæingum. Mér finnst rosa­lega skemmti­leg stemning og menning kringum þorra­blótin en maturinn kannski ekki alveg það sem mig langar í,“ segir Ás­laug þegar hún er spurð út í hefðir sínar og siði kringum þorrann. „En mig langar að vera manneskjan sem borðar allt þorra­borðinu.“

„Ás­laug er al­gjör­lega að mis­skilja þetta, þorra­maturinn er aðal­málið. Ég er lang spenntust yfir þorra­matnum og ræðst nánast á hlað­borðið þegar ég mæti,“ segir Inga Lind og bætir því við að hún sé alin upp við þorra­matinn og mamma hennar hafi soðið svið og út­búið fleira góð­gæti í þorranum.

Inga Lind skorar á Ás­laugu að fara alla leið í þorra­matnum í þættinum og fær hana til að smakka það sem Ingu Lind þykir best og sker augað úr sviða­kjammanum fyrir Ás­laugu.

Missið ekki af stór­skemmti­legu við­tali og þorra­veislu heima hjá Ás­laugu Huldu í þættinum Matur og Heimili í kvöld á Hring­braut.

Þátturinn Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar er sýndur klukkan 19.00 og fyrsta endur­sýning er klukkan 21.00 í kvöld.