Kylie Minouge fæddist í borginni Melbourne í Ástralíu 28. maí. Þar vakti hún fyrst athygli í áströlsku sjónvarpsþáttunum Nágrönnum og gaf út sínar fyrstu hljómplötur með sykursætu tyggjópoppi. Frá því á tíunda áratugnum hefur Kylie búið og starfað á Englandi, en hennar allra vinsælasta lag, Can’t get you out of my mind, kom út á metsöluplötunni Fever, sem kom út 2001.

Orðin 22 ára og búin að meika það í Nágrönnum 1990.

Kylie hefur komið víða við í sjónvarpi og kvikmyndum, hún lék meðal annars hlutverk í Moulin Rouge! árið 2001 og hefur setið sem dómari í hæfileikakeppninni The Voice í Bretlandi og Ástralíu. Önnur verkefni eru barnabókaskrif og tíska í víðu samhengi, svo fátt sé upp talið. Hún hefur selt yfir 70 milljónir platna á heimsvísu og hlotið ótal verðlaun og viðurkenningar, þar á meðal Grammy-, Brit- og MTV-verðlaunin.

32 á MTV-tónlistarhátíðinni 2000.

Kylie er þekkt fyrir stórfenglegar tónleikaferðir þar sem hún sýnir færni sína í öllu sem við kemur tísku og stíl. Á tónleikaferðinni Showgirl: The Greatest Hits, í maí 2005, greindist söngkonan með brjóstakrabbamein, þá 36 ára. Hún fór rakleiðis í skurðaðgerð og svo lyfjameðferð en eftir að Kylie hafði unnið bug á meininu hélt hún tónleikaferðinni áfram og hlaut mikið lof fyrir framgöngu sína og baráttu. Hún hlaut heiðursnafnbótina „doctor of health science“ (D.H.Sc.) frá Anglia Ruskin háskólanum fyrir framlag sitt til vitundar um brjóstakrabbamein og enn er talað um Kylie-áhrifin sem urðu ungum konum hvatning til að fara snemma og reglulega í brjóstaskoðun. Þegar Kylie hélt áfram tónleikaferðalagi sínu í Ástralíu snemma árs 2006 talaði hún um veikindin við áhorfendur og sagði lyfjameðferðina hafa verið eins og að verða fyrir kjarnorkusprengju, en í viðtali við Ellen DeGeners árið 2008 sagði hún krabbameinið hafa verið vangreint í upphafi.

42 á galadinner í Los Angeles 2010. MYNDIR/GETTY

Kylie Minouge er kunn fyrir mikla manngæsku. Hún söng í laginu Do they know it’s Christmas með Band Aid II árið 1989 til að safna fé vegna hungursneyðar í Eþíópíu og árið 2010 tók hún þátt í laginu Everybody Hurts, til að safna fyrir fórnarlömbum jarðskjálftans á Haítí. Hún fór til hjálparstarfa í Taílandi eftir flóðbylgjuna miklu árið 2005 og gaf stórar fjárhæðir til björgunarstarfa gegn skógareldunum miklu í Ástralíu 2019 og 2020. Þá hefur hún safnað fé fyrir börn sem beitt eru ofbeldi, eyðnisjúklinga og auðvitað baráttuna gegn brjóstakrabbameini.

Afmælisbarn dagsins ber aldurinn vel og er alltaf jafn undurfögur og glæsileg eins og sjá má á myndunum hér, sem sýna hana með áratuga millibili.

Kylie í Lundúnum í mars 2020, rétt að verða 52 ára.