Idol stjörnu­leit mun snúa aftur á Stöð 2 næsta haust eftir nokkurra ára hlé. Þetta kemur fram í til­kynningu frá stöðinni og segir Þór­hallur Gunnars­son, dag­skrár­stjóri stöðvarinnar tíma þáttarins alls ekki liðinn í sam­tali við Frétta­blaðið.

Í til­kynningu frá Stöð 2 eru allir á­huga­samir á aldrinum 16 til 30 ára hvattir til aðsenda inn mynd­band með söng­prufu. Idol lestin verði einnig á ferðinni í leit að hæfi­leika­fólki um land allt í sumar.

Vart þarf að kynna þættina fyrir les­endum en sann­kallað Idol æði greip um sig meðal heims­byggðarinnar í upp­hafi aldarinnar eftir að Pop Idol í Bret­landi og American Idol í Banda­ríkjunum slógu í gegn.

Æðið náði einnig hingað eins og al­þjóð veit með fjórum seríum af þáttunum vin­sælu, sem enduðu í beinni út­sendingu í Vetrar­garðinum í Smára­lind þar sem Simmi og Jói héldu um stjórnar­taumana og Bubbi Morthens, Sigga Bein­teins og Þor­valdur Bjarni voru meðal dómara. Síðasta serían var sýnd árið 2009.

Hildur Vala og Kalli Bjarni sigruðu aðra og fyrstu seríu af þáttunum vinsælu.
Fréttablaðið/Teitur

Idol skipið að leggja úr höfn

Maður hélt ein­hvern veginn að Idol skipið væri siglt?

„Ekki í heiminum,“ svarar Þór­hallur hlæjandi. „Og í rauninni ef þú horfir í kringum þig á alla talentana í tón­list og söng sem við eigum, sem eru þarna að keppa í karaókíum og eru á leið á stjörnu­himininn þá eru þarna hellingur af fólki úti sem þráir að koma sér á fram­færi fyrir framan okkar stærstu stjörnur í faginu,“ segir Þórhallur og bætir við:

„Þannig nei, ég held að það sé ekki siglt, ég held að það sé bara að leggja af stað úr höfn.“

Þór­hallur segir for­svars­menn Stöðvar 2 alls ekki smeyka við að fylgja eftir vin­sælustu þáttum stöðvarinnar svo löngu síðar. „Nei, alls ekki. Við erum bara hrika­lega spennt. Við höfum líka fengið við­brögð við þessu,“ segir Þórhallur.

„Við erum líka búin að ræða við marga í tón­listar­bransanum um þetta og það er al­mennt mikil stemning innan bransans. Við finnum mikinn með­byr og hlökkum til. Það er gaman að gera svona stóra þætti þar sem við sjáum hæfi­leika fólks spretta fram og blómstra.“

Gefur ekkert upp um Bubba

Í til­kynningu frá Stöð 2 segir að dóm­nefnd þáttanna verði skipuð skipuð nokkrum af skærustu stjörnum ís­lenskrar tón­listar í dag og kynnt á næstu dögum.Tón­listar­stjórn þáttanna verður í höndum Magnúsar Jóhanns Ragnars­sonar sem stýrir einnig hljóm­sveit þáttanna.

Þór­hallur er inntur eftir svörum við því hverjir muni skipa dóm­nefndina en gefur ekkert upp. „Ég ætla að gera það í næstu viku,“ segir Þór­hallur léttur í bragði.

Þannig maður á ekkert að þora að spyrja þig hvort að Bubbi Morthens muni eiga ein­hverja svaka­lega endur­komu?

„Ég ætla að leyfa þér bara að láta þig dreyma,“ segir Þór­hallur og skellir upp úr.

Upphaflega dómnefndin í Idol stjörnuleit.
Mynd/Fréttablaðið
Simmi og Jói stýrðu þáttunum, í hið minnsta í fyrstu seríunum.
Mynd/Fréttablaðið
Snorri Snorrason sigraði þriðju seríu þáttanna.
Fréttablaðið/Daníel
Hrafna Hanna Elísa Herbertsdóttir sigraði fjórðu seríu þáttanna.
Fréttablaðið/Valli