„Í stíl við persónuleika hins látna“ er titill myndlistarsýningar sem mun standa yfir í eina kvöldstund næstkomandi fimmtudag í Garðskálanum við Norræna húsið. „Titillinn er fengin frá heimasíðu útfararstofu þar sem verið er að lýsa ásýnd hins látna,“ segir Helena Jónsdóttir, myndlistakona og frumkvöðull sýningarinnar.

„Rammi jarðarfara er skilgreindur út frá mjög þröngum fagurfræðilegum ramma,“ segir Helena. Hún telur jarðarfarir almennt ekki ganga út frá því að vera í stíl við persónuleika hins látna þvert á móti mega persónuleikaeinkenni ekki koma fram nema að vera mjög látlaus og tignarleg. „Reynsla okkar er, að þessi atriði skipta aðstandendur miklu máli er þeir líta ástvin í hinsta sinn.“

Myndlistarsýning verður jarðarför

Hugmynd sýningarinnar var að yfirfæra þann stranga ramma yfir á annan viðburð líkt og myndlistarsýningu. „Í útförum er hefð fyrir að allt þurfi að vera, smekklegt, virðulegt og látlaust og við vildum athuga hvort sýningin okkar myndi passa inn í þá umgjörð.“

Mismunandi útfærslur fæddust út frá ólíkum túlkunum listakvennanna og ólíkir miðlar fá hlutverk í Garðskálanum þessa einu kvöldstund. „Verkin eru mis kvíðavaldandi en þetta verður samt allt mjög nærgætið og virðulegt.“ Fyrir tilviljun er ein myndlistakonan á sýningunni að fara í útför fyrir opnunina, Helena telur að það muni hafa áhrif á andrúmsloftið.

Líkkista og brauðterta

"Jarðafarastemmning mun umlykja viðburðinn, það verður brauðterta, safnaðarstell, líkkista, og nokkurskonar sálmaskrá í formi sýningarskrár.“ Texti sýningarskráarinnar er unnin út frá texta sem gefin er upp á heimasíðum útfararstofa.

Að sýningunni koma þær Anna Margrét Ólafsdóttir, Helena Margrét Jónsdóttir, Hildur Elísa Jónsdóttir, Jóhanna Rakel, Katla Rúnarsdóttir, Margrét Aðalheiður, Nína Kristín Guðmundsdóttir, Ólöf Bóasdóttir og Salka Rósinkranz. Sýningin mun vera opin almenningi frá klukkan fimm til átta og bíður Helena alla velkomna að mæta.