Það gekk alveg rosalega vel,“ segir Björg Jónsdóttir, verkefnastjóri Menningarnætur. „Þegar sólin sýnir sig þá gengur allt miklu betur og allt er miklu auðveldara líka, allir eru glaðari,“ bætir Björg svo við.

Í ár var metfjöldi viðburða, bæði á vegum borgarinnar og sjálfstæðir.

Björg Jónsdóttir, verkefnastjóri Menningarnætur, var ánægð með daginn.

„Bara allt gekk í raun vel. Umferðin gekk vel og það gekk líka vel að rýma. Engin stór vandamál, að minnsta kosti ekki svo að við vitum. Við vorum eiginlega bara í skýjunum með daginn.“

Sjálf naut Björg dagsins og mætti á setninguna á Hagatorgi. „Þar gekk allt vonum framar, svo fórum við í ráðhúsið þar sem Blindrafélagið var. Eftir það kíktum við á brauðtertukeppnina, sem var mjög gaman og svo var frábær stemning á Miðbakkanum. Svo löbbuðum við upp Laugaveginn og það var fólk út um allt.“

Veðrið var betra en spáð var og sólin lék við gesti Menningarnætur fyrripart dags.

Björg var mjög ánægð með stemninguna sem ríkti á laugardaginn.

„Við komum svo líka við á Klapparstígnum þar sem Dj Margeir var að spila og auðvitað sáum við stóru tónleikana á Arnarhóli. Þannig að ég er mjög glöð og við öll sátt, en þökkum auðvitað veðrinu líka vel fyrir,“ segir Björg hlæjandi.