Ágúst Kristján Steinarrsson er 38 ára gamall maður sem hefur á stuttri ævi tekist á við erfið andleg og líkamleg mein og endað nokkrum sinnum á geðdeild. Síðast þegar það gerðist fyrir fimm árum síðan kom hann til baka með brennandi þörf fyrir að færa sögu sína í letur.

Margt skrýtið getur gerst í geðhvörfunum og Ágúst Kristján segir að í þessu síðasta kasti hafi tónlistarmaður og rithöfundur sprottið fram í huga hans og fært honum ný tól til þess að takast á við sjálfan sig. „Þannig að þetta er allt voða nýtt,“ segir hann  í samtali við Fréttablaðið um tilurð bókarinnar Riddarar hringavitleysunnar þar sem hann teflir fram fjórum ólíkum persónum sem saman mynda manneskjuna Ágúst Kristján á fjórum æviskeiðum.

Einu sinni var ég Árni Stefán, síðan Geir, þar á eftir Tindur og að lokum Úlfar. Þessi tímabil kölluðu fram mismunandi útgáfur af mér. Ég hef lengi velt fyrir mér hver ég er, eða hvernig ég birtist fólki og þá sérstaklega hve fáir þekkja í raun allar mínar hliðar. Sumir þekkja stómaþegann, aðrir þann geðsjúka og svo nú í seinni tíð þekkja sumir bara leiðsögumanninn, stjórnunarráðgjafann og jafnvel tónlistarmanninn.

Síðasti kafli Riddara hringavitleysunnar hefst með þessum orðum en tók það á að skrifa bókina?

„Það má segja að þetta hafi verið gott og vont,“ segir Ágúst í samtali við Fréttablaðið. „Ég á slæmar minningar og þær eru þarna alltaf og það særði mig þegar ég heimsótti þær en þarna tókst mér að taka á þeim og breyta tilfinningunni. Losa um þær með því að skrifa þær niður og þótt þær séu enn erfiðar þá er það einhvern veginn fallegt,“ segir Ágúst og bætir við að í raun hafi honum tekist að breyta vinnsluminni sínu. „Eftir því sem blaðsíðunum fjölgaði urðu tárin líka fleiri en það voru samt einhvern veginn góð tár.“

Fimm sinnum í geðrof

Ágúst Kristján hefur fimm sinnum farið í geðrof eftir að hafa farið fyrst í maníu. „Líf mitt er almennt í jafnvægi nema þegar ég veikist. Þá taka veikindin líf mitt alveg yfir, en lukkulega er það ekki viðvarandi ástand.  En ég þarf að lifa með þessu og vanda mig og síðustu fimm ár hafa gengið mjög vel,“ segir Ágúst sem hefur ekki aðeins glímt við andleg veikindi heldur einnig meltingarsjúkdóm og krabbamein, sem koma einnig við sögu í bókinni.

Ágúst Kristján segir bókaskrifin hafa virkað sem einhvers konar meðferð og verkfæri til þess að gera upp við allt sem hann hefur tekist á við á sál og líkama. „Eftir síðustu maníuna, fyrir fimm árum, situr í mér þessi ofboðslega ríka þörf fyrir að segja sögu mína.“ Og þegar hugmyndinni að byggingu sögunnar laust niður í huga hans var ekki eftir neinu og bíða og hann settist við skriftir.

Sjá einnig: Bókarkafli: Riddarar hringavitleysunnar

„Með því að segja sögu fjögurra manna sem allir eru að fást hvor við sinn hlutinn var ég kominn með farveginn og elti þá bara. Þegar ég segi frá þessu í þriðju persónu með þessum fjórum einstaklingum, sem eru ekki ég, sé ég sjálfan mig í öðru ljósi. Þarna er ég að horfa á einhverja aðra og og get því fjallað um mig á beinskeittari hátt.“

Hetjan í bíómyndinni

„Þegar maður fer í maníu lendir maður oft á skjön við geðheilbrigðiskerfið og maður verður ósáttur og reiður. Þeir eru vondu kallarnir og maður sjálfur er hetjan. Síðan þegar maður fær sjúkraskýrslurnar og sér hvernig maður lét þá loksins kviknar á ljósaperunni og þá er ljóst maður hefur ekki verið alveg í lagi sjálfur,“ segir Ágúst Kristján án þess þó að hann sé tilbúinn til þess að veita kerfinu allsherjar syndaflausn.

Ágúst Kristján segir að í hans tilfelli hafi manían stigmagnast þangað til hann endaði í geðrofi . „Maður fer að trúa á tilviljanir sem þróast yfir í að maður verður hetjan í bíómyndinni og vex í því hlutverki þangað til manni finnst maður eiginlega vera óstöðvandi. Ég enda svo í geðrofi þar sem ég missi algerlega fótanna og er nánast bara svífandi yfir jörðinni.“

Sjálfsskoðunin og vinnan við bókina hefur hjálpað Ágústi Kristjáni en hann lagði einnig upp í þennan leiðangur með það að leiðarljósi að reyna að nýta reynslu sína til þess að hjálpa öðrum.

„Miðað við viðbrögðin sem ég hef verið að fá, frá mjög mismunandi hópum, þá virðist þessi bók eiga erindi til allra, einfaldlega til að fá innsýn í hugarheim þess veika, hver sem veikindin eru. Bókin er líka byggð upp eins og skáldsaga og ófáir lesendur hafa sagt mér að þeir hafi hreinlega ekki getað lagt hana frá sér, og margir hafa skellt upp úr við lesturinn. En ef ég ætti að vera nákvæmur þá má segja að bókin eigi að geta gagnast fólki sem er með sambærilega reynslu og það getur mátað sig við mína upplifun,.“

Frelsi til að tala

Ágúst Kristján segir aðstandendur geðsjúkra einnig geta haft gagn af bókinni. „Þarna sjá þeir stigmögnunina og fá vonandi betri innsýn inn í hugarheim manneskjunnar á meðan veikindin magnast hægt og bítandi. Síðan vona ég líka að bókin hreyfi við heilbrigðiskerfinu og fólk þar sjái hvernig gott heilbrigðiskerfi styður við mann en brýtur mann ekki niður eins og stundum gerist.“

Aðspurður segist Ágúst Kristján ekki upplifa sig berskjaldaðan eftir að hafa skrifað sögu sína. „Mér finnst ég frekar frelsaður og finnst ég geta talað betur um sjálfan mig í dag en ég gerði áður. Áður fyrr sat ég svolítið á mér þegar verið var að ræða geðheilbrigðismál. Núna er staðan frekar sú að ég er beðinn um að tala um þessi mál og segja frá þannig að ég er orðinn virkur í umræðu um heim sem ég hef mikla innsýn í,“ segir Ágúst sem fylgir útgáfu bókarinnar eftir um þessar mundir með fyrirlestrum um efni hennar.