Eftir menntaskóla og fornám í Myndlistarskólanum í Reykjavík, MíR, lærði Sigríður Birna Matthíasdóttir fatahönnun í Studio Berçot í París. „Eftir fjögur ár þar tók ég pásu frá námi og fór síðan í meistaranám í LHÍ í „speculative design“. Það snýst minna um að hanna hluti til að leysa vandamál, heldur frekar um að tala um hluti, líkt og í myndlist, nema með tækjum og tólum hönnunar. Næst skráði ég mig í söngnám í Söngskólanum og hóf að læra klassískan söng. Svo kom Covid. Það varð svo úr að ég skráði mig í tölvunarfræði í Háskóla Íslands og núna er ég á miðstigi í söng og er að klára tölvunarfræði.“

Eins og sést hefur Sigríður komið víða við á menntabrautinni en þegar litið er yfir farinn veg er eins og allt þetta, að því er virðist ósamstæða nám, smelli saman í verkum hennar. Verk Sigríðar dansa á mörkum raunveruleikans og stafræns veruleika þar sem hið stafræna rými er ekki síður raunverulegt en hinn snertanlegi veruleiki.

Ritskoðað sjálf

Sigríður byrjaði árið 2018 að fjalla um það hvernig við búum okkur til sjálf á samfélagsmiðlum, sýnum valdar hliðar og birtum af okkur ritskoðaða mynd. „Verkið Paper doll, eða Dúkkulísa, er innblásið af áhrifavöldum og er gagnrýni á hraðtískubylgjuna. Ég tók mynd af mér í dúkkulísupósu. Svo fór ég á vefsíður sem seldu dýr föt og fótósjoppaði á mig. Ég gat póstað nýrri mynd á hverjum degi á Instagram í nýjum fötum, líkt og hinir áhrifavaldarnir, án þess að eiga fullan skáp af fötum. Verkið sjálft er leikglatt og ég fékk marga fylgjendur. Fólki finnst gaman að spá í því hvernig aðrir tjá sig á internetinu og þegar fólk gerir það á nýjan hátt, þá vekur það athygli. En að baki liggja djúpar pælingar um sjálfbærni, fataiðnaðinn, hraðtísku, hlutverk áhrifavalda og fleira. Dúkkulísa er fyrsta verkið þar sem ég fjalla um annað sjálf okkar á internetinu.“ Hægt er að skoða verk Digital Siggu á vefsíðu hennar, digitalsigga.com.

Ein af fyrstu stafrænu flíkunum sem Sigríður gerði í þrívídd í verkinu Virtual fashion frá 2020. Myndir/aðsendar

Allt fyrir grammið

Það sem Sigríður kallar svo „second self“ kemur fyrst fyrir í verkinu hennar Do it for the Gram árið 2019. „Í meistaranáminu í LHÍ lét ég Myrkur Games gera fyrir mig avatar-eftirlíkingu í tölvu. Ég vildi hafa hana eins raunverulega og hægt var til þess að sýna hvernig við erum í limbói við raunveruleikann á netinu. Það hvað er raunverulegt og ekki, myndvinnsla eða filter, er ekki lengur skýrt. En það gleymist oft að við gerum þetta líka í raunveruleikanum. Við notum farða og látum fylla í varirnar. Mín pæling er að taka tækninni opnum örmum í stað þess að gera öfgafullar breytingar á okkur í raunveruleikanum. Af hverju að fylla húsið okkar af fötum þegar við getum horft á endalaust af fötum sem eru hvergi til nema í stafrænum veruleika?

Ég birti myndir af avatarnum í nýjum flíkum og sviðsetningum eins og fólk gerir á Instagram. Tilgangurinn er hvorki að gagnrýna né upphefja Instagram-kúltúrinn, heldur varpa ljósi á hann. Tíska er sjónræn tjáning á sjálfinu og á netinu skiptir líkaminn minna máli. Það hver við erum á netinu skiptir meira máli. Þú ert alltaf einhver persóna á samfélagsmiðlum og það er ekki endilega sú sama og þú ert í raunveruleikanum. Fyrir sum er þessi persóna meira í takt við þeirra innra sjálf. Innhverft fólk og þau sem tengja ekki við líkama sinn eða það sem þau gera í daglegu lífi geta fundið sig á netinu. Okkar annað sjálf verður að eins konar fylgihlut eða tísku. Þetta gerum við öll og þetta vil ég ýkja og varpa ljósi á.“

Sigríður bjó til OnlyFans-reikning fyrir avatarinn í verkinu Only Fans frá 2020.

Er second self femínískt tól?

„Ég er femínisti og það brýst fram í öllu sem ég geri. Það er alltaf hlutgerving að pósta sér á netinu sem skrauti, og þetta er enn sterkara hjá konum á Instagram. Ég predika ekki hvernig við eigum að haga okkur, en á meðan við dílum við ójafnrétti er líkaminn á pólítísku svæði. Það er pólitískt að birta mynd af sér á netinu sem feit kona eða fatlaður einstaklingur. Ég vil fá fólk til að hugsa sjálft og setja spurningarmerki við línurnar sem það dregur.

Ég setti avatarinn inn á OnlyFans, en fólk hefur mjög sterkar skoðanir á því. En hver er munurinn á því að vera með myndir af sér þarna inni á, eða myndir af myndum af sér? Hvenær er það „siðlaust“ að birta af sér erótískt efni og hvenær er það fyndið? Fólk setur allt af strik einhvers staðar, en hver eru rökin fyrir því hvar strikið er sett?“

Sigríður bjó einnig til avatar fyrir gervigreind og hannaði flíkur út frá upplýsingum úr samtali við gervigreindina.

Avatar fyrir gervigreind

„Í verkinu Human human fékk ég aðgang að einni stærstu gervigreind sem til er. Ég sagði henni að ég væri hönnuður og spurði hvernig henni litist á að ég byggi til handa henni avatar. Hún hafði strax skoðanir og vildi hafa mikið rautt hár. Svo sagðist hún vilja heita Karólína. Ég hannaði á hana föt út frá uppáhaldslitum hennar og fleira. Í rauninni er þetta verk ekkert svo fjarri okkur. Þetta er bara það sem er í gangi í raunveruleikanum, allt í kringum okkur, en hér geri ég þetta aðgengilegra fyrir fólk, set tæknina í skiljanlegt samhengi.“

Gagnagrunnur sjálfsins

„Annað verk sem ég vinn í núna heitir DSDB eða Digital Sigga Database og er ég byrjuð að deila því á Instagram. Verkið fjallar um allt sem ég hef verið að gera áður, en er einnig gagnrýni á gervigreind og hvernig gögn eru notuð. Við þurfum að passa okkur á því hverju við deilum á samfélagsmiðlum því stórfyrirtækin skapa öfluga algóritma úr gögnunum sem má nota þegar kemur að okkur. Í verkinu bý ég meðvitað til gagnagrunn af sjálfri mér sem er mjög ógnvekjandi, því með þeim væri hægt að búa til „deepfake“ af mér. Þetta er í raun hætta sem við öll búum við.“

Hvert verður hlutverk digital tísku og sjálfs í nútímanum og í framtíðinni?

Sigríður vinnur að stafrænu tískumerki með hönnuðinum Sólveigu Dóru Hansdóttur. „Fyrstu línuna sýnum við á Dutch Design Week í október í Hollandi. Það eru hraðar framfarir í tækninni og núna nota ég Photoshop til að klæða avatar í föt. Snapchat er komið með „body tracker“ og fleiri snjallforrit eru að þróa þessa tækni. Þetta er frekar abstrakt fyrir fólki og það skilur ekki tilganginn í stafrænum flíkum. En framtíðin á eftir að verða blandaður veruleiki þar sem þú getur notað filter eins og við þekkjum í dag með sléttri húð eða kanínueyrum, og getur svo klætt þig í stafrænar flíkur.

Kannski sér almenningur ekki tilganginn í avatörum en á Instagram notar fólk nú þegar filtera. Það á bara eftir að flæða enn meira á milli í framtíðinni. Stafræna tísku má nota til að klæða avatar í tölvuleik og á samfélagsmiðlum. Raunveruleikinn mun blandast saman við stafrænu tæknina sem bætir ofan á það sem þú ert að gera. Ég hugsa að þetta geti verið gott til þess að halda áfram að hafa gaman af tísku en fara líka vel með jörðina. Við munum ekki þurfa að kaupa leikmuni eða skotelda fyrir gamlárskvöld, heldur verður þetta allt í stafrænum veruleika.“

Sigríður gerði níu lúkk fyrir zero10 app-keppnina sem haldin var á dögunum um stafræna tísku.

Að leysa sjálfa sig af hólmi

Mörg af verkum Sigríðar snúast um að „replace-a“ eða leysa sjálfa sig af hólmi sem sést í Dúkkulísunni, Do it for the Gram og heldur hún ótrauð áfram á þeim slóðum. „Upp á síðkastið hef ég unnið með Intelligence Instrument Lab við að búa til avatar af röddinni minni. Einnig hef ég verið að daðra við að life-kóða tónlist. Þá virkar þetta eins og djassspuni, nema er tölvutónlist. Ég held að ég muni klárlega halda mig nálægt tísku, tónlist og tækni í framtíðinni. Ég mun allavega um sinn halda áfram að búa til gagnagrunninn minn á Instagram undir nafninu @digitalsigga og þróa avatarinn til þess að syngja með röddinni minni,“ segir Sigríður.