Margir muna eftir Heiðu í hæfileikakeppninni Idol stjörnuleit sem fram fór árið 2005 en Heiða hefur sungið allt frá þeim tíma auk þess sem hún útskrifaðist frá leiklistarháskóla í New York 2009. Eiginmaðurinn Helgi Páll Helgason er doktor í tölvunarfræði og gervigreind.

„Við vorum svo heppin að leiðir okkar lágu saman í afmæli hjá sameiginlegum vinum, en þar sem við störfum á afar ólíkum vettvangi var algjör himnasending að hittast þar því líklegast hefðum við aldrei annars hist. Nú búum við saman með samsettu fjölskyldunni okkar í draumahúsinu sem við keyptum okkur og hlökkum til að dansa saman í gegnum lífið,“ segir Heiða.

Þriggja daga festival

Ætlunin var að gifta sig í ár en þegar tækifæri gafst á síðasta ári, þegar þjóðin fékk smá pásu frá Covid, slógu Heiða og Helgi til og skipulögðu brúðkaup á skömmum tíma.

„Við ætluðum alltaf að gifta okkur sumarið 2022, síðan opnaðist allt í smá Covid-pásu, sællar minningar síðasta sumar, og við hugsuðum að ættum við kannski bara að gera þetta núna, til hvers að bíða? Allir voru þyrstir í veisluhöld og að gleðjast. Þannig að við ákváðum með sjö vikna fyrirvara að kýla á þetta í fyrra og ekki að ástæðulausu. Þarna var kjörið tækifæri því afmælisdag Helga bar upp á laugardeginum 24. júlí sem er brúðkaupsdagurinn okkar. Trúlofunardagurinn er 25. júlí en við trúlofuðumst ári fyrr og ég varð fertug 26. júlí. Því mun ávallt verða þetta þriggja daga festival í okkar lífi. Við vorum alltaf ákveðin með að giftast í Garðakirkju sem var laus 24. júlí. Næsta skref var að athuga hvort salur væri laus og okkur leist best á sal Ferðafélagsins í Mörkinni. Við höfðum samband en vissum að líkurnar væru litlar, nema hvað, maðurinn sem leigir salinn út fyrir hönd félagsins sagði: „Ég trúi ekki að þið séuð að biðja um salinn þennan dag því ég fékk akkúrat afbókun í dag og vanalega erum við bókuð alla laugardaga.“ Þá hugsuðum við að þetta væri merki um að við ættum að gifta okkur með þessum stutta fyrirvara í staðinn fyrir að bíða í ár. Allt var sett á fullt, boðskortin send út og á sjö vikum náðum við að gera draumabrúðkaupið okkar.“

Íðilfagra brúðarskóna fann Heiða í versluninni Kjólum og konfekti.

Dansaði til blóðs

Heiða sló tvær flugur í einu höggi og fann brúðarkjólinn og draumaskóna í sömu versluninni. „Ég fer alltaf í Kjóla og konfekt þegar mig vantar föt fyrir sviðið sem söngkona eða til að fara í veislur og meira að segja líka þegar við fermdum dömuna okkar um hvítasunnuna. Þær hjá Kjólum og konfekti eru bara ávallt með réttu kjólana fyrir mig, en viti menn, þær eru líka með skó. Þar fann ég draumaskóna við kjólinn. Þeir eru hvítir, fallegir, þægilegir og ekki of háir fyrir brúði sem þarf að standa í lappirnar í marga klukkutíma. Nema hvað, sama hversu þægilegir þessir fallegu skór eru, að þá voru þeir, án gríns, blóði drifnir eftir veisluna því stuðið var það mikið að ég dansaði mér til blóðs. Ég fór því í einnota inniskóm, sem eru þarfaþing í veislum, við keyptum fullt af pörum fyrir dansandi stuðpinna sem þurftu hvíld frá hælum, á Grand hótel, þar sem við vörðum brúðkaupsnóttinni. Við fórum síðan til Barcelona í brúðkaupsferð á fertugsafmælisdaginn minn og ég ætlaði svoleiðis að vera svaka pæja þar, en nei, það gekk ekki upp. Ég þurfti á fyrsta degi að kaupa mér flatbotna, ekki svo smart, sandala sem meiddu ekki sárin á tám brúðarinnar og þurfti gjörið svo vel að nota þá nánast alla ferðina á meðan sárin greru. Þetta var samt þess virði eftir dásamlega veislu og fullkomna athöfn þar sem landslið vina minna í tónlist söng og ég grét eins og ég veit ekki hvað alla athöfnina, en ég er afar grátmild kona og eðlilega í hamingjukasti í kirkjunni að gangast að eiga elsku Helga minn.“

Gullfallega brúðartertuna bakaði mágkona Heiðu, Eva María Hallgrímsdóttir í Sætum syndum.

Guðdómlega falleg og góð kaka

Heiða býr svo vel að eiga mágkonu sem er snillingur í bakstri og kökuskreytingum, sem töfraði fram glæsilega brúðartertu.

„Draumakökuna gerði auðvitað elsku besta Eva María, mágkona mín, besta vinkona og eigandi Sætra synda. Guðdómlega falleg og góð kaka. Ekki nóg með hvað ég er rík að eiga vini sem syngja og spila og baka gullfallegar kökur, þá á ég að listakonurnar sem eru vinkonur mínar, þær Heidu HB og Rebekku Ötlu, sem skreyttu salinn sem var fallegasti salur sem ég hef séð. Rebekka bjó til blómabogann sem er yfir kökunni. Þær vinna báðar við að skapa alls konar fegurð en að auki er Heiða ljósmyndari og tók fallegu brúðkaupsmyndirnar okkar.“