„Það er varla að ég trúi því,“ segir íþróttafréttamaðurinn Henry Birgir léttur í bragði um þau ótrúlegu tímamót að nú séu fjörutíu ár síðan fyrsta myndin um drápsvélina Rambó, sem Sylvester Stallone gerði ódauðlegan, kom út.

„Þetta er ekki síðuefni, þetta er opna!“ segir Henry Birgir hlæjandi. Myndina sá hann fyrst þegar hann var einungis sjö ára gamall og hefur hann allar götur síðan verið mesti aðdáandi Sylvester Stallone hér á landi og þó víðar væri leitað.

„Það sem er galnast í þessu er að Sly lítur jafnvel betur út í dag en hann gerði þarna fyrir fjörutíu árum,“ segir Henry Birgir sem fylgist af athygli með öllum verkefnum Stallone.

„Ég var ungur drengur á Húsavík þegar ég sá myndina fyrst. Þetta var á þeim tímum þegar þú varst bæði að leigja myndbandstæki og spólur. Þetta hafði verið leigt í blokkinni hjá nágranna að mig minnir frekar en heima hjá mér og einhvern veginn komumst við í það að detta inn í þetta og eftir að hafa séð þennan svalasta mann allra tíma, með flottasta hníf allra tíma, þá bara breyttist líf mitt til hins betra.
Þarna var ég bara að sjá og upplifa eitthvað sem ég vissi að var að breyta lífi mínu á betri veg og eftir það hefur maður bara verið innmúraður í Sly-söfnuðinn allar götur síðan.

Ég keypti öll blöð og annað til þess að geta verið með plaköt af Sly og ég hef drukkið þetta í mig liggur við hvern einasta dag allar götur síðan. Það er gott að vera hluti af Sly-söfnuðinum.

Ég er einmitt formaður og stofnandi íslenska Sly Stallone hard­core fan club. Ég get sagt þér það að þetta er lokaður klúbbur en ég hef fengið hundruð beiðna frá fólki erlendis sem vill allt komast í grúppuna, en þangað kemst ekki hver sem er,“ segir Henry Birgir að sjálfsögðu hlæjandi.

Hann er ekki lengi að hugsa sig um spurður að því hvert sé uppáhaldsatriði hans í myndinni:

„Það er alltaf atriðið þar sem hann lætur sig falla fram af klettunum. Er auðveld bráð og þarf að velja á milli þess að láta skjóta sig í bakið eða stökkva og hann velur stökkið. Það var þá og er enn flottasta atriði sem maður hefur nokkurn tímann séð. Myndataka í hæsta gæðaflokki og þetta er bara svo hrikalega dramatískt og flott atriði. Ég held ég hafi sofnað með það atriði í hausnum hverja einustu nótt í þrjú ár á eftir.“

Henry Birgir segist ekki hafa verið mjög hrifinn af nýjustu Rambó-myndinni: Last Blood.

„Myndin þar á undan var það góð að Last Blood hefði ekki þurft að koma til sögunnar. Hún er góð en ekki jafn góð þannig að ég geri eiginlega þá kröfu að við fáum Last Last Blood. Ef ég þekki Sly rétt, á meðan hann hefur orkuna til, þá er það ekkert útilokað.“