Líklega hafa margir tekið eftir Margréti á skjánum í fréttatíma RÚV. Hún talar afbragðsgóða íslensku svo erfitt er að greina að hún sé fædd og uppalin í Póllandi. Það var aldrei á draumalista Margrétar að flytja til Íslands fyrir 20 árum. Hún er fædd og uppalin í Póllandi en bjó og starfaði í Frakklandi um nokkurra ára skeið áður en leið hennar lá hingað í sumarfríi til að skoða landið. „Ég er ekki týpískur Pólverji sem kemur hingað til að vinna,“ segir hún.

„Ég kom hingað með frönskum vini en í gegnum hann kynntist ég íslenskri konu hér á landi. Ég var einstæð móðir með son á öðru ári en hafði alltaf verið mikill flakkari. Ferðaðist út um alla Evrópu. Ég hafði ekki fest rætur neins staðar, hélt að Frakkland væri staður fyrir mig en það breyttist þegar ég kom til Íslands. Ég heillaðist af landinu og varð ástfangin af því um leið og ég kom. Það gerðist eitthvað í hjarta mínu þegar ég kom hingað,“ segir Margrét.

Hún ákvað ekki strax að setjast að hér á landi. Henni bauðst fljótlega vinna svo hún framlengdi dvölina. „Þegar sonur minn, Wiktor, byrjaði síðan í skóla hér fór ég að festa rætur. Hann er núna 22 ára og starfar sem matreiðslumaður á Michelin-stað í Noregi. Hann hefur staðið sig mjög vel í sínu fagi og ég er stolt móðir,“ segir Margrét en þess má geta að sonur hennar fékk silfurverðlaun í keppninni Ungkokkur Norðurlandanna árið 2019 og hefur verið í kokkalandsliðinu.

Ég hafði ekki fest rætur neins staðar, hélt að Frakkland væri staður fyrir mig en það breyttist þegar ég kom til Íslands. Ég heillaðist af landinu og varð ástfangin af því um leið og ég kom. Það gerðist eitthvað í hjarta mínu þegar ég kom hingað.

Algjör tungumálanörd

Margrét fór fljótlega eftir komuna hingað að læra íslensku. „Ég fór í Háskóla Íslands 2008 og kláraði BA í íslensku sem öðru máli. Mér fannst ekki hægt að búa hér og kunna ekki málið. Þar fyrir utan er ég tungumálanörd. Mig langaði alls ekki að tala einhverja hálfgerða íslensku,“ segir hún. „Mér hefur aldrei liðið hér eins og ég væri óvelkomin, þvert á móti. Lykilatriðið er að geta skilið og talað tungumálið. Íslendingar eru almennt yndislegt fólk,“ segir hún.

Margrét talar fyrir utan pólsku og íslensku, ensku, frönsku, þýsku og rússnesku. Það síðastnefnda eru leifar frá sovéttímanum þegar öll börn í Austur-Evrópu þurftu að læra rússnesku í grunnskóla. „Rússneskan hefur komið mér til góða,“ segir Margrét. „Ég starfaði hjá Vinnumálastofnun í fimm ár og þurfti þá að tala við fólk frá Lettlandi, Litáen og fleiri löndum þar í kring, fólk sem lærði rússnesku í skóla eins og ég.“

Þótt lífið hafi ekki alltaf leikið við Margréti segist hún vera hamingjusöm í dag og á réttum stað í lífinu. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Einelti í sendiráði

Áður en Margrét fór að vinna hjá Vinnumálastofnun starfaði hún við viðburðastjórnun. „Starfið á Vinnumálastofnun var fyrsta góða starfið mitt á Íslandi. Mér leið vel þar, var atvinnuráðgjafi sem var mjög gefandi starf. Ég hætti til að vinna við ferðaþjónustu sem togaði í mig að gera. Árið 2018 ákvað ég að breyta til og sótti um starf hjá pólska sendiráðinu. Það var mér ekki til gæfu,“ segir hún.

Eineltismál í pólska sendiráðinu varð fréttamál hér á landi og í Póllandi á sínum tíma. Sendiherrann lagði Margréti í einelti eftir að mynd af henni birtist í gleðigöngu í Reykjavík, málið varð mjög umtalað í Póllandi. Hún upplifði mikla niðurlægingu og kvíða í starfi sínu í sendiráðinu. „Þetta mál endaði ekki vel. Ég sagði upp starfi mínu og hætti. Fjórir sem störfuðu með mér eru sömuleiðis hættir, þremur var sagt upp og einn sagði upp sjálfur. Sendiráðið er eiginlega búið að útiloka alla Pólverja sem aðhyllast ekki kaþólska trú. Sendiherrann býður engum í neins konar viðburði á vegum sendiráðsins sem ekki eru harðir kaþólikkar. Því miður er þessi sendiherra enn starfandi hér á landi,“ segir Margrét. „Hann er ekki fyrirmynd og pólskt samfélag er hneykslað yfir því að þetta sé látið óáreitt. Sendiherrann er mjög fastur í gamla sovéttímanum þar sem fordómar voru allsráðandi.“

Dyr lokast, aðrar opnast

Margrét segir að það eigi við um sig að þegar einar dyr lokast opnast aðrar. „Þetta eineltismál fór mjög illa með mig. Ég hlakkaði til að vinna í sendiráðinu, taldi það gott tækifæri fyrir mig. Því miður fór það ekki svo. Í framhaldinu kom Covid og ég þurfti að finna mér eitthvað að gera. Þurfti að byggja mig aftur upp andlega. Ég var svo heppin að fá vinnu á yndislegum leikskóla þar sem mér gafst tækifæri til að jafna mig á þessari erfiðu reynslu sem ég hafði gengið í gegnum. Það var frábært að fara aftur að vinna hjá íslenskum atvinnurekanda þar sem starfar fordómalaust fólk sem tekur manni með opnum huga. Það er mjög erfitt að vinna með fólki sem hefur fordóma gegn öllum mögulegum hlutum. Ég vissi þó að starfið á leikskólanum væri ekki framtíðarstarf fyrir mig,“ segir hún.

Í fréttir hjá RÚV

Í vor var haft samband við Margréti frá RÚV. „Pólsk kona sem starfaði við þýðingar á fréttum yfir á pólsku var að fara í barneignarleyfi. Ég hafði sótt um sumarvinnu fyrir ári og gat fengið en það hentaði mér ekki þegar til kom þannig að umsókn frá mér lá inni á RÚV. Það var síðan hringt í mig og spurt hver staðan væri hjá mér núna, hvort ég vildi þiggja þetta starf sem væri hlutastarf. Ég hafði áhuga á starfinu en þar sem ég er einstæð móðir þarf ég að vinna fulla vinnu,“ segir Margrét.

„Ég setti mig því í samband við Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóra og sagðist vera spennt fyrir að vinna við fréttamennsku eins og aðrir fréttamenn á RÚV. Að ég yrði partur af teyminu á fréttastofunni og gæti lært af reynsluboltunum þar. Það var samþykkt að ráða mig inn sem fréttamann í fullu starfi og ég hóf störf 1. maí. Ég sé um allar pólskar fréttir auk annarra almennra frétta,“ segir Margrét sem segist alltaf hafa skrifað mikið. „Kannski dreymdi mig einhvern tíma um að verða fréttamaður en ég hef aldrei fyrr sóst eftir því,“ bætir hún við.

Margrét segir að henni hafi strax verið hent út í djúpu laugina og stuttu eftir að hún hóf störf var hún komin á fullt í sjónvarpsfréttir um sveitarstjórnarkosningar. „Og ég sem er ekkert pólitísk,“ segir hún hlæjandi. „Þetta gekk bara mjög vel og svo eru allir ótrúlega hjálplegir á fréttastofunni, frábært fólk sem sýnir mér stuðning og ég er afskaplega þakklát fyrir,“ segir hún. „Það er mikill heiður fyrir mig að fá að vinna á fréttastofunni. Starfið er skemmtilegt og ég finn að allt það sem ég hef safnað í reynslubankann nýtist vel í þessu starfi. Síðan læri ég eitthvað nýtt á hverjum degi,“ segir hún.

Erfið ár að baki

Margrét á foreldra í Póllandi og systur sem býr hér á landi. Hún segist oft skreppa í heimsókn til föðurlandsins eða foreldrarnir komi hingað. Það séu því náin og góð fjölskyldutengsl.

Margrét á tvö börn, soninn sem áður er getið um og dóttur, Helena, sem er 17 ára. Hún er fjölfötluð og það hefur ekki alltaf verið auðvelt fyrir einstæðu móðurina að ganga í gegnum veikindi dótturinnar sem oft hafa verið mikil. „Ein ástæðan fyrir því hversu vel ég lærði tungumálið voru spítalaheimsóknir mínar þegar dóttirin var lítil, þær voru ófáar. Helen stundar nám í Fjölbraut í Ármúla og býr á sérbýli fyrir fatlaða og líður mjög vel enda vel hugsað um hana. Hún fer í sumarbúðir í Reykjadal á hverju sumri þar sem er frábært starfsfólk sem annast börnin einstaklega vel. Það er algjör engill sem sér um hennar mál og ég gæti ekki verið hamingjusamari með allan hennar aðbúnað. Það gat vissulega verið erfitt að vera með svona mikið fatlað barn en ég verð að segja að mér finnst heilbrigðiskerfið mjög gott og get ekki kvartað undan því. Dóttir mín hefur fengið frábæran stuðning. Hún hefur farið í alvarlegar og erfiðar aðgerðir, læknirinn hringdi til okkar og fylgdist með bataferlinu, jafnvel þegar hann var í fríi,“ segir hún.

Kynnist landi og þjóð á annan hátt í starfi fréttamanns

Áhugamál Margrétar eru nokkur. Hún lætur sér ekki leiðast. Hún er til dæmis jógakennari í frístundum og finnst það skemmtilegt. Hún á hund og fer oft í fjallgöngur með hann þannig að útivera á vel við hana. Hún segist vera mikill dýravinur. Flökkueðlið er ekkert horfið því hún hefur einstaklega gaman af því að ferðast og vonast til að geta gert meira af því. „Svo vonast ég auðvitað til þess að halda áfram í fréttamennskunni hjá RÚV. „Maður kynnist Íslandi og Íslendingum á nýjan hátt í gegnum starfið. „Líf mitt hefur ekki alltaf verið dans á rósum og að vera innflytjandi getur verið erfitt í upphafi. Núna er ég hamingjusöm, mér líður bara eins og sönnum Íslendingi.“