Steinunn fór í fyrstu ferðina með gönguhóp til Majorka árið 1993 og eftir það varð ekki aftur snúið. „Ég er leiðsögumaður að mennt og var mikið með hópa af sænskum líffræðingum sem voru á ferðalagi hér á landi. Þeir komu hingað eftir ferðalag til Majorka og töluðu mikið um hvað það væri fallegt þar. Ég hélt að þessi eyja væri bara einn stór sandkassi, en þetta varð til þess að vekja áhuga minn á henni,“ segir Steinunn, en hún á og rekur Göngu-Hrólf, sem skipuleggur göngur hér heima og erlendis.

Steinunn og fyrrverandi eiginmaður hennar höfðu samband við sænsku ferðaskrifstofuna sem skipulagði bæði ferðirnar til Majorka og Íslands og fengu að hoppa með í eina ferð.

„Sonur okkar fór með og við vorum aðallega í fjöllunum í norður- og vesturhluta Majorka. Við heilluðumst alveg af þessu svæði og vildum leyfa fleirum að njóta þess með okkur. Við fórum út með vinum og fjölskyldu og í kjölfarið á því hófum við samstarf við Úrval Útsýn. Á tímabili fórum við í fjórar til sex ferðir með hópa á ári, bæði á vorin og haustin en á þessum tíma voru ekki aðrir sem buðu upp á svona gönguferðir,“ segir hún.

Á Spáni eru fjölmargar skemmtilegar gönguleiðir sem vert er að kynna sér nánar. Steinunn mælir með að skoða vel leiðarlýsingar til að átta sig á vegalengdum og erfiðleikastigi göngunnar og það komi í veg fyrir að fólk lendi í ógöngum. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Kæla sig niður á fjöllum

Síðar bættust við gönguferðir um Pýreneafjöllin, sem skilja Íberíuskagann frá meginlandinu og mynda náttúrleg landamæri á milli Spánar og Frakklands, og einnig um Tenerife, Andalúsíu og Kanaríeyjar, en Steinunn segist mest hafa verið á Majorka og í Pýreneafjöllunum. Árið 2018 fór hún svo í Montserratfjöllin í Katalóníu, sem hún segir frábært svæði rétt hjá Barcelóna.

„Í Pýreneafjöllunum hef ég farið í einstakar göngur um tvo þjóðgarða, sem eru í Katalóníu og Aragóníu. Umhverfið er sérlega fjölbreytt og kemur sífellt á óvart. Fjöllin eru há með hvassar eggjar yfir fagurbláum vötnum og djúpum dölum, og gróðurfarið er einstakt,“ segir Steinunn.

Veðursældin er mikil á Spáni og Steinunn segir gott að fara upp í fjöllin yfir hásumarið til að kæla sig aðeins niður.

„Ég fór til dæmis með hópa upp í Pýreneafjöllin í byrjun júlí. Margir héldu að þá væri of heitt, en svo er ekki. Þorpin þarna eru í fimmtán hundruð metra hæð og þar er ekki eins heitt og við ströndina. Göngurnar voru ýmist um fjalllendi eða á milli þorpa,“ segir Steinunn, sem var ófeimin við að fá ráðleggingar frá heimamönnum varðandi göngurnar. „Ef ég hitti á eldra fólk spurði ég oft hvaða leiðir það sjálft færi á milli þorpa og þannig kynntist ég gömlum þjóðleiðum,“ segir hún.

Göngurnar um Spán leiddu Steinunni til fleiri staða með ferðalanga, svo sem Krítar, Toskana á Ítalíu og til Tyrklands, en ferðir þangað voru mjög vinsælar.

Þegar Steinunn er spurð hvað sé heillandi við gönguferðir á Spáni stendur ekki á svari: „Upphaflega var það hitinn sem heillaði. Það er svo frábært að geta farið í fjallgöngur á stuttbuxum. Ég veit fátt skemmtilegra en göngur, og mér finnst forréttindi að fara og kynnast litlu svæði vel, vita hvenær komið er í næsta þorp og fylgjast með náttúrunni og hvernig hún tekur breytingum eftir árstíðum. Það færir manni miklu dýpri upplifun að kynnast landinu með því að ganga um það. Ég hef lagt mikið upp úr því að finna litlar og persónulegar ferðaskrifstofur sem ég hef unnið með í gegnum tíðina,“ segir hún. Undanfarin ár hefur Steinunn átt gott samstarf við ferðaskrifstofuna Vita.

Ekki lenda í ógöngum

Á Spáni eru fjölmargar gönguleiðir sem vert er að kynna sér nánar. Steinunn segir einfalt að finna þær á netinu og mælir með að lesa leiðarlýsingar vel og skoða sérstaklega lengd og erfiðleikastig. „Það er gott að fara í göngur sem eru í hring, það er sem byrja á sama stað og gangan endar. Með því að kynna sér leiðarlýsingar er minni hætta á að lenda í einhverjum ógöngum,“ segir hún.

Þessa dagana hefur Steinunn einbeitt sér að gönguferðum innanlands. „Ég fer gjarnan með hópa í léttar göngur á höfuðborgarsvæðinu, svo sem um Búrfellsgjá og meðfram strandlengjunni. Einnig fer ég með hópa að gosinu. Svo er ég nýkomin úr pílagrímagöngu frá Þingvöllum yfir í Skálholt, sem var stórkostlegt. Gangan sú er í tengslum við Skálholtshátíð. Um næstu helgi ætla ég að ganga í kringum Bæ í Borgarfirði á vegum Göngu-Hrólfs,“ segir Steinunn.

Á göngu mælir Steinunn með að halda jöfnum gönguhraða, fara ekki of geyst af stað, og ef fólk finnur fyrir mæði er gott að ganga hægar.