Amanda da Silva Cortes lyfjafræðingur hefur ástríðu fyrir CrossFit, umhverfis- og dýravernd og plöntumiðaðri matargerð. Hún er einnig bloggari á oskubuska.is. Hún er í fataföstu og ætlar ekkert fatakyns að kaupa á næstunni

„Ég ákvað að prófa aðra nálgun á tískuiðnaðinn með því að fara í sex mánaða fataverslanaföstu,“ segir Amanda. „Mér fannst ég vera á þannig stað í lífinu að tímabært væri að prófa eitthvað róttækt.“ Hún segist hafa verið hinn fullkomni neytandi. 

„Ég var vön að kaupa mikið af flíkum hjá svokölluðum „fast fashion“ verslunum sem eru verslanir sem selja flíkurnar sínar oftast tiltölulega ódýrt og framleiða nýja línu mjög reglulega. Ég fór að huga að neyslumynstri mínu fyrir ári, auk þess sem ég fór að velja framleiðendur sem voru með vottarnir fyrir því að starfsfólk fengi viðunandi laun og starfsaðstæður. Það minnkaði klárlega neyslu mína enda erfiðara að nálgast slíkar flíkur auk þess sem þær eru oftast nær dýrari, en samt þótti mér ég aldrei eiga nóg. Ég var alltaf á höttunum eftir næstu „draumaflík“ eða með lista yfir hvað gæti „vantað“ næst. Ég finn ekki fyrir löngun til þess að eiga nýjustu raftækin eða flottustu og dýrustu húsgögnin, en föt eru veikleiki minn.“

Amanda gerði tvær undantekningar frá föstunni. „Þar sem ég er bloggari vil ég geta kynnt lesendur okkar fyrir vörumerkjum sem framleidd eru á sanngjarnari hátt en gengur og gerist, og skyldi fyrirtæki vilja hefja samstarf við mig þar sem boðnar eru vörur fyrir umfjöllun þá vil ég geta samþykkt slíkt svo framarlega sem það er í takt við mín gildi. Hin undantekningin er að ef mig nauðsynlega vantar ákveðna flík sem ég get ekki fengið lánaða hjá öðrum, þá má ég kaupa hana notaða.“

10x10 áskorunin er hluti af fataföstu Amöndu. 

„Sú sem fann upp á áskoruninni heitir Lee og er með bloggið Style Bee. Hún byrjaði þessa áskorun árið 2015 þegar hún var í miðri fataverslanaföstu en síðan þá hefur áskorunin hlotið gífurlegar vinsældir. Tilgangurinn er að virkja ímyndunaraflið og sköpunargleði þegar kemur að fatasamsetningum og læra hvernig hægt er að nýta flíkurnar sínar oftar og við fleiri tilefni. Áskorunin virkar þannig að þú velur 10 flíkur sem þú notar í 10 daga á 10 mismunandi vegu. Náttföt, nærföt, íþróttaföt, skartgripir, belti, töskur og slíkir aukahlutir eru ekki taldir með. Hægt er að sníða þetta að eigin þörfum en ég tók t.d. ekki yfirhafnir með í áskorunina enda er ég hvort sem er alltaf í sömu úlpunni á veturna.“ Hún segir mikilvægt að reyna að nýta fötin sín sem best. „Meðal annars með því að gera við þau þegar þarf, annaðhvort sjálf eða fara með þau á saumastofu. Svo er gott að skoða alltaf þvottaleiðbeiningarnar sem fylgja flíkunum og þvo í samræmi við þær, auk þess að reyna að þvo flíkurnar ekki að ástæðulausu.“

Hún bendir á að fataiðnaðurinn sé einn af mestu mengunarvöldum heims. 

„Ekki er einungis verið að henda gífurlegu magni af flíkum sem enda gjarnan í urðun heldur eru notuð skaðleg efni í vinnsluna. Starfsaðstæður einstaklinga í fataverksmiðjunum, sem eru að vinna með öll þessi eiturefni, eru gjarnan mjög bágar og launagreiðslur mjög lágar. Þessar aðstæður myndast því að stórar verslunarkeðjur vilja framleiða flíkurnar hratt og með sem minnstum tilkostnaði. Fatasóun er mikið vandamál en það er skýrt samband á milli þessara ódýru fataverslana og fatasóunar.“ 

Hún bendir á að með því að vera stöðugt að framleiða nýjar fatalínur séu stóru keðjurnar óbeint að hvetja til aukinnar neyslu þar sem eitthvað er dottið úr tísku og annað komið í staðinn. 

„Flíkurnar eru gjarnan í lélegum gæðum þar sem þær þurfa að standa undir kostnaði og markaðurinn vill að neytandinn endurnýi flíkur sínar sem oftast. Enn er verið að smána og gera grín að stórstjörnum ef þær sjást tvisvar í sömu flíkinni, hvað þá á stórum viðburði, í stað þess að hrósa þeim fyrir að nýta flíkurnar. Það tók mig góðan tíma að átta mig á því að ég þarf ekki nýja flík í hvert partí og að það sé gott og fallegt að nýta flíkurnar sínar vel. Þarna þarf að verða viðhorfsbreyting.“

Hún segir að umhverfisvænasta leiðin til að kaupa föt sé að kaupa þau notuð. „Þannig er dregið úr líkum á því að flíkin lendi í urðun, kolefnisspor flíkurinnar minnkar og oft er verið að styrkja gott málefni í leiðinni þó það sé líka í fínu lagi að kaupa notuð föt á sölusíðum, t.d. á Facebook. Ég skoða alltaf úr hvernig efni flíkin er gerð og reyni að forðast plastefni. Þau anda gjarnan verr og það losnar úr þeim örplast í þvotti. Ekki einungis finn ég mun þegar ég nota flíkur úr náttúrulegum trefjum, heldur er einnig auðveldara að endurvinna þau. Annars er mikilvægt að kaupa vandaðar flíkur sem munu endast og máta þær við fataskápinn í huganum, reyna að búa til nokkrar samsetningar við það sem fyrir er áður en flíkin er keypt. Ég rannsaka svo alltaf fyrirtækin sem búa flíkina til og skoða hversu umhverfisvæn þau eru. Að lokum langar mig að hvetja alla til að horfa á heimildamyndina The True Cost sem er meðal annars á Netflix. “

Hægt er að fylgjast með Amöndu og áskoruninni á Instagram undir nafninu amandasophy.