Edda Sif Pálsdóttir íþróttafréttakona ræðir alvarlega líkamsárás sem hún varð fyrir af hendi fjölmiðlamannsins Hjartar Hjartarsonar fyrir tíu árum síðan í forsíðuviðtali nýjustu útgáfu Vikunnar. Þetta er í fyrsta skipti sem hún ræðir árásina opinberlega.

Edda Sif kærði fjölmiðlamanninn árið 2012, en málið fór ekki fyrir dóm þar sem þau náðu samkomulagi. Árásin átti sér stað eftir kjörið á íþróttamanni ársins í janúar 2012 þar sem þau bæði voru að vinna. Edda Sif segir að mörg vitni hafi orðið að hluta atburðarrásarinnar, annars hefði hún mögulega aldrei sagt frá því sem gerðist.

„Ég hef aldrei viljað tala um þetta opinberlega,“ segir Edda og segist í raun enn vera mjög óörugg með það. „Fyrst og síðast til að verja sjálfa mig, held ég, því ofbeldið var slæmt en umræðan reyndist mér jafnvel enn verri þó að það sé skrítið að segja það. Ég komst að því þegar ég byrjaði í EMDR-áfallameðferð fyrir einu og hálfu ári að augnablikið þegar ég hélt að ég myndi deyja var ekki það versta í þessu öllu saman heldur það sem á eftir kom; það sem fólk sagði eða sagði ekki,“ segir Edda í Vikunni.

„Fólk vissi ekkert hvað hafði gengið á en gaf sér að það vissi það, þetta var mikið í fjölmiðlum og rætt manna á milli þar sem ýmislegt var gefið í skyn en enginn fótur var fyrir. Á þessum tíma, þar sem ég var 23 ára, dró ég mig alveg inn í skel en blaðamenn hringdu og sögðu að það væri best fyrir mig að gefa þeim eitthvað, annars heyrðist bara önnur hlið málsins og þeir myndu geta í eyðurnar,“ segir Edda.

Hún segir atburðarásina enn sitja í sér og segist hafa leitað til Bjarkarhlíðar sex árum eftir atvikið. „Ég tikkaði í öll boxin,“ segir Edda. „Ég lét þetta yfir mig ganga án þess að segja mína hlið og hef gert síðan en það gengur kannski ekki upp að þegja bara og ætlast á sama tíma til að fólk viti og skilji. Og ég væri örugglega ekki að tala um þetta núna nema af því að það er fullt af fólki búið að stíga fram með sína reynslu og ég vona að tíðarandinn sé þess vegna aðeins annar en fyrir áratug,“ segir Edda Sif í Vikunni.

Forsíða Vikunnar.
Mynd/Birtingur