„Að ganga á heitum moldarstíg. Að leggjast í daggarblautt gras. Að sitja klofvega á sléttum og sterkum trjádrumbi og finna fyrir kraftinum. Að láta sig fljóta á spegilsléttu vatni. Að fara í sturtu með öllum pottaplöntunum og finna fyrir þeim strjúkast við kálfann þinn. Að þrýsta hendinni niður í þurran heitan mosann. Að leyfa lækjarsprænu að leika um líkama þinn. Að finna lyktina af blóðbergi. Að elska jörðina. Að verða ástfangin af náttúrunni og verða eitt með henni. Komdu í æsandi ferðalag með Írisi og leyfðu þér að upplifa jörðina sem elskhuga þinn.“ Þannig hljómar lýsingin á viðburðinum Náttúruhneigð, sem Íris heldur við Esjurætur í dag.

Íris útskýrir að náttúruhneigð eða jarðkynhneigð byggi á hugmyndinni um náttúruna sem elskhuga. Hún hvetur fólk til að horfa á jörðina sem ástvin í stað auðlindar.

„Orðið auðlind getur verið fallegt eins og þegar við sjáum fyrir okkur náttúruauðlind. En orðið inniber líka eitthvað sem við tökum, hvort sem það er til þess að horfa á það eða virkja það. Við ætlum að prófa að snúa dæminu við í göngunni við Esjurætur. Ef við sjáum fólkið í kringum okkur alltaf sem auðlind þá sjáum við fyrir okkur hvernig við getum notfært okkur það. Þá myndi ég til dæmis horfa á eiginmann minn og hugsa: Já, ég gæti nú virkjað þetta og þetta element í þessum manni mér í hag. Það er mjög eigingjörn sýn, þetta er viðhorf sem gengur út á að spyrja sig: Hvernig get ég hagnast? Þegar þú átt bara þannig samband við eitthvað eða einhvern þá er það frekar einhliða,“ segir hún.

Viðburðurinn við Esjurætur gengur út á að þátttakendur endurhugsi samband sitt við náttúruna, að hugsa ekki um hvernig þeir geti nýtt sér náttúruna heldur hvernig við sem manneskjur getum gefið til baka til hennar.

„Við ætlum að reyna að hugsa um það hvernig náttúran getur grætt á því að við séum að fara í þessa ferð. Hún getur grætt á þann hátt að einhver mun kannski hægja aðeins á sér, fara að hugsa meira um náttúruna og kannski hugsa sig tvisvar um við einhvers konar gjörðir sem tengjast því að menga eða traðka á. Markmiðið er að eftir þetta sértu í jafnara sambandi við náttúruna,“ segir hún en bætir við að náttúran traðki samt líka á okkur.

„Náttúran sturtar okkur niður með regnum og vindum og náttúruhamförum og við eigum ekki séns í hana. Þetta er stormasamt samband en það verður stormasamara eftir því sem við mengum meira og notfærum okkur náttúruna og eyðileggjum hana. Þá koma harðari viðbrögð til baka. Ég hef hugsað svolítið eftir þessa pestahrinu, Covid og allt það, hvað margir eru lengi að jafna sig og þurfa að hægja á sér eða draga sig í hlé.

Ég held að það sé mjög gott fyrir náttúruna að við hægjum á okkur. Ég held að ef við myndum öll hægja á okkur þá myndi náttúran stórgræða á því.“

Allt er lífskraftur

Leið Írisar að því að skoða náttúruhneigð á sér smá forsögu.

„Ég var að útskrifast úr meistaranámi í sviðslistum og var að skoða sjálfsfróun kvenna. Við fórum mjög djúpt inn í sjálfsfróun og fullnægingar. Svo með tímanum fór ég að vinna mikið með konum í verkum um sjálfsákvörðunarrétt kvenna, um það sem þær vilja gera með eigin líkama, ég hef líka unnið með sjálfa mig í því samhengi.

Ég hef alltaf komist nær og nær þeirri skoðun að þetta er allt eitt og það sama, það er að segja ég í mínu daglega lífi og ég sem kynvera er sama manneskjan, þetta er ekki aðskilið,“ útskýrir hún.

„Ef við erum í djúpum og nánum tengslum við dýrið í okkur, innri lífskraftinn, eins og til dæmis í fæðingu, þá ferðu inn í dýrið, þá gefurðu frá þér svipuð hljóð og í fullnægingum. Á þessari stundu ert þú alveg í kjarnanum þínum. Við erum þjálfuð í að vera svo langt frá þessum kjarna. Þannig að tilraunin mín með að skoða náttúruhneigð snýst um að við komumst inn í þennan djúpa kjarna og áttum okkur á því að allt er lífskraftur, allt er ást.

Við getum farið í samtal við náttúruna til að virkja þessa tilfinningu inni í okkur. Það er að segja virkja okkur sem náttúrubarn og óheflaða orku.“

Unaður í hversdeginum

Íris segir að í náminu hafi hún verið svo heppin að komast í kynni við hópinn Pony Express en meðlimir hans komu sem gestakennarar við skólann.

„Þau voru að leika sér með hugmyndina um að eiga í kynferðislegu sambandi við náttúruna. Þau töluðu um að hugmyndir þeirra um náttúruhneigð hefðu komið frá listakonunum Beth Stevens og Annie Sprinkle. Þær eru hjón og langaði að gera náttúruaktívisma og umhverfisaktívisma fyndinn og skemmtilegan. Þær hafa verið innblástur fyrir ótrúlega marga,“ segir Íris.

Viðburðurinn sem Íris stendur fyrir við Esjurætur gengur út á að þátttakendur endurhugsi samband sitt við náttúruna, að hugsa ekki um hvernig þeir geti nýtt sér náttúruna heldur hvernig við sem manneskjur getum gefið til baka til hennar.

„En mig langar svolítið að skoða náttúruhneigð út frá því hvernig þú sem manneskja getur leitt unað inn í hversdaginn. Hvernig við getum notað umhverfið til þess.

Ég hef sjálf gert það ómeðvitað gegnum tíðina. Ég fór mjög snemma að taka pottaplönturnar með mér í sturtu og fannst það æðislega skemmtilegt, að taka náttúruna í kringum þig inn í lífið og hafa það næs.

Ég sá hjá vinkonu minni um daginn að hún var að klippa birkigreinar og nota sem ilm í sturtunni hjá sér. Það er líka hægt að taka þara og þang og fara í þarabað. Ég vil leggja áherslu á alla þessa litlu hluti þar sem við búum til vellíðunartilfinningu fyrir okkur og unaðstilfinningu með aðstoð náttúrunnar.“

Íris segist með þessu vilja leggja áherslu á að við hættum að tengja unað eingöngu við kynlíf og eitthvað sem er bara gert bak við luktar dyr og er skammarlegt.

„Ég vil að við endurhugsum þetta aðeins. Hver er ég sem manneskja í samfélaginu og ég sem kynvera?

Það er búið að setja svo mikla skömm á kynlíf og unað. En kynlíf og unaður er ekkert sem er asnalegt eða fyndið eða skrýtið að tala um. Ég er að æfa mig að tala opinskátt um þetta og hætta að vera vandræðaleg. Kynlíf er grunnurinn að okkur sem tegund, að við höldum áfram. Það á ekki að vera eitthvað vandræðalegt að tala um það. En okkur er kennt það frá blautu barnsbeini,“ segir hún.

Ástarsamband þitt við þig

Kveikjan að viðburðinum sem Íris heldur í dag kom að einhverju leyti þegar hún var ólétt nýlega og var í veikindaleyfi.

„Ég mátti rosalega lítið gera svo ég fór mikið inn á við og fór að skoða það sem kallast orgasmic birth. Orgasmic birth fjallar um öruggar, unaðslegar og jákvæðar fæðingar. Þar er talað um okkur sem dýr og einnig um náttúruna og efnafræði. Um oxytocin og endorfín og hvernig við getum aukið oxytocin-flæði í líkamanum. Það er til dæmis það sem gerist þegar þú færð fullnægingu,“ segir Íris.

„Á fæðingarnámskeiðum er líka talað um oxytocin-flæði en enginn nefnir kynferðislega örvun í fæðingarsamhengi, það þora því fáir. Það er kannski sagt að það sé sniðugt að slökkva ljósin og hafa kósí tónlist en flestir fara í kringum kjarnann, að kynferðisleg örvun sé það besta til að auka þetta flæði, hvort sem það er með kossum eða beinni snertingu og nuddi á kynfærin eða geirvörtur til dæmis. Fólk vill ekki tengja þetta saman þó þetta sé náskylt. En ég átti geggjaða fæðingu og fann í kjölfarið að allt sem ég hafði verið að gera á meðgöngunni var svo mikið með mér. Það tengdist því að örva þetta oxytocin-flæði. Mig langaði svo að halda því áfram og geri það með því að innleiða unað í hversdaginn. Það getur verið að setja á sig olíu eftir sturtu eða horfa á sig í speglinum í langan tíma, bara eitthvað svona lítið. En er samt ástarsamband þitt við þig og umheiminn.“

Íris tekur fram að á viðburðinum hennar við Esjurætur í dag sé ekkert skrýtið að fara að gerast.

„Við mætum klukkan 12 og þá byrja ég rétt aðeins að kynna hugtakið náttúruhneigð. Svo gerum við ýmislegt til þess að reyna að tengjast betur og opna hugann fyrir því að eiga ástríðufyllra samband við náttúruna. Við munum taka smá hugleiðslu og ég verð með hugvekju, við virkjum skynfærin með lykt og snertingu til að örva allt í okkur. Fólk verður alltaf pínu hrætt þegar það heyrir eitthvað svona eins og hneigð, en þetta er ekkert hættulegt. Þetta er bara mjúk og þægileg ganga um Esjurætur.“