Dzintra Erliha, píanóleikari og tónlistarfræðingur, er stödd á landinu þessa dagana ásamt sellóleikaranum Emmu Aleksöndru Bandeniece í tilefni af 100 ára afmæli sjálfstæðis Lettlands. Báðar eru þær vel þekktar í heimalandinu og víðar en Dzintra Erliha flutti í gær tónleikafyrirlestur í flyglasal Listaháskóla Íslands og í dag klukkan 15 verða þær með tónleika í Hannesarholti. Þó að erindi þeirra sé fyrst og fremst að kynna kammertónlist heimalandsins segir Erliha aðspurð að náttúran dragi hana alltaf til Íslands. „Ég elska íslenska náttúru og er alltaf svo spennt að skoða landið í hvert sinn sem ég kem hingað. Og svo er það líka fólkið sem dregur mig hingað sem tónlistarkonu vegna þess að mér finnst Íslendingar njóta tónlistar svo innilega. Ég finn hvernig Íslendingar hlusta á tónleikum og skynja hjá þeim hvernig þeir njóta tónlistarinnar. Þess vegna finnst mér alltaf alveg sérstaklega gott og skemmtilegt að spila hérna.“

Dzintra Erliha lauk doktorsnámi árið 2013 og í ritgerðinni fjallaði hún um ævisögulegt samhengi, stíl og túlkunarleiðir í kammertónlist Lūcija Garūta sem er á meðal þekktustu tónskálda Lettlands. Hún segir að ferðin sé hluti af stóru verkefni sem felist í því að kynna lettneska kammertónlist fyrir heiminum en Ísland hafi verið fyrsti áfangastaðurinn þar sem það var fyrsta landið til þess að viðurkenna sjálfstæði Lettlands árið 1991. „Þetta er okkur ákaflega mikilvægt. En héðan held ég til Ástralíu þar sem ég verð einnig með tónleikafyrirlestra og tónleika nokkuð víða og í haust eru það svo Bandaríkin. Þetta verkefni er mér ákaflega mikilvægt og ég er til að mynda alltaf með í farteskinu núna bæði áritaða geisladiska og nótur af verkum Pēteris Vasks, sem er eitt okkar mikilvægasta tónskáld, með kveðjum frá Lettlandi og ég vona að það verði til þess að ýta undir að lettnesk tónlist verði leikin í auknum mæli hér á þessu fallega tónlistarlandi.“

Á tónleikunum í dag ætlar þær Dzintra Erliha og Emma Aleksandra Bandeniece einkum að flytja kammer­tónlist eftir lettnesku tónskáldin J. Medins, I. Ramins, J. Ivanovs, D. Aperane, P. Vasks, S. Buss og L. Garuta. Erliha segir að þarna sé á ferðinni klassísk, rómantísk og nútímatónskáld þannig að breiddin sé umtalsverð. „Við erum að leitast við að draga upp heildarmynd af lettneskri tónlist og vonum að fólk komi til með að njóta þess.“ En aðspurð hvort það sé einhver sameiginlegur strengur á milli þessara tónskálda segir hún að það sé vissulega svo. „Í allri þessari tónlist er sterkur þjóðlagastrengur. Öll þessi tónskáld sækja í brunn lettneskrar þjóðlagatónlistar með einum eða öðrum hætti og það er að mörgu leyti það sem einkennir tónlist þeirra.“