Það voru ekki allir sáttir með uppátæki Hatara á úrslitakvöldi Erovision í gær þegar þeir drógu upp trefla með palestínska fánanum á. Ingólfur Grétarsson, útsendari fréttablaðsins í Tel Aviv náði tali af Anthony C. J. meðlimi Félags áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (FÁSES) sem er belgískur að uppruna en var búsettur í Ísrael um áraskeið. Anthony sá um umfjöllun keppninnar fyrir útvarpsstöð í Belgíu.

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá sárnaði mér og leið sviknum,“ sagði Anthony þegar hann var spurður út í hvað honum þætti um uppátækið í gær. „Eurovision snýst um samheldni, fjölbreytileika og vináttu og verður að vera ópólitísk. Þetta var hins vegar gert í algerri mótsögn við anda og reglur keppninnar.“

Spurður út í viðbrögð ísraelskra vina sinna sagði Anthony þau augljóslega ekki hafa verið góð. „Flestir venjulegir áhorfendur í Ísrael vissu ekkert um fátið sem hafði verið í kringum Hatara fyrir keppnina. Þessi ögrun þeirra var líka frekar dónaleg gagnvart gestgjafa þeirra sem hafði boðið þá velkomna og séð vel um þá síðustu tvær vikurnar.“

En hvernig kom það til að maður sem ólst upp í Belgíu og starfaði í Ísrael gerðist meðlimur íslenska félagsins FÁSES?

„Þegar ég var unglingur fóru foreldrar mínir í ferð til Íslands og komu til baka með fullt af myndum, bókum og sögum. Ég varð fljótt heltekinn af landinu og á meðan flestir unglingar skreyttu herbergisveggi sína með plaggötum af poppstjörnum voru mínir fullir af myndum af eldfjöllum og hverum frá Íslandi.“ Anthony gerðist svo meðlimur FÁSES í gegnum vin sinn Flosa Jón Ófeigsson, formann félagsins, eftir að hann kynntist honum á ferð sinni hér um landið.

„Ég hef fylgst með Eurovision síðan ég man eftir mér, keppnin er orðin hluti af persónuleika mínum og ég dýrka andann í aðdáendunum. Bara ef allir jarðarbúar væru Eurovisionaðdáendur, þá væri lífið mun einfaldara!“ segir Anthony að lokum.