Breska leik­konan Claire Foy segist hafa verið gríðar­lega svekkt og í upp­námi þegar hún komst að því hversu mikið hærri laun með­leikari hennar Matt Smith var á í Net­flix þáttunum The Crown sem fjalla um líf og störf bresku konungs­fjöl­skyldunnar.

Leik­konan ræðir málin í ítar­legu við­tali við Guar­dian. Hún fór með hlut­verk Elísa­betar Bret­lands­drottningar í fyrstu tveimur seríunum af The Crown og lék Matt Smith Filippus her­togann af Edin­borg.

Nokkuð ó­hætt er að full­yrða að hlut­verk Claire hafi verið stærsta hlut­verkið í seríunum og brá henni fyrir í nánast hverri einustu senu sem Elísa­bet. Fréttir bárust svo af því árið 2018 að Matt Smith hefði fengið tölu­vert hærri laun en Foy.

Claire segist ekki hafa haft hug­mynd um það að Matt Smith væri á hærri launum en hún, heldur hafi hún komist að því á sama tíma og allir aðrir árið 2018.

„Ég var ekki í sjokki. Ég var í mjög miklu á­falli. Ekki búhú, grátandi á­falli. En ég var í mjög miklu á­falli. Ég held ég hafi eki leyft mér að tjá reiði mína,“ segir leik­konan.

Hún segist elska leik­listar­iðnaðinn. Hann sé fullur af alls­konar frá­bæru fólki. „En stundum verðuru vitni að ein­hverju, eða heyrir eitt­hvað, eða sérð eitt­hvað eða eitt­hvað gerist fyrir þig og þú hugsar bara: „Ó guð hvað er ég að gera? Af hverju er ég að gera þetta? Ætti ég að vera hluti af þessu? Mér fannst þetta mjög erfitt.“

Claire segir marga hafa hvatt sig til að tjá sig um þessi mál opin­ber­lega. Hún hafi hins­vegar ekki haft á­huga á því og ekki viljað láta reynslu sína af því að leika í þáttunum snúast al­farið um þetta.

„Ég held að margir hafi viljað að ég segði að þetta væri í góðu lagi. Ég meina, ég held ekki að ég ætti að vera hrein­skilin með suma hluti, því ég er ekki viss um að það myndi hjálpa neitt. Það myndi bara bæta olíu á eldinn. Við erum enn að tala um þetta öllum þessum árum síðar.“