Hygge eða huggulegur lífsstíll hefur farið sigurför um heiminn síðustu ár enda leita íbúar hins vestræna heims leiða til að vinna gegn streitu, örmögnun og kulnun sem er of algeng í nútímanum. Þar koma huggulegheit sterk inn, að dönskum sið, enda hafa Danir hvað eftir annað mælst meðal allra hamingjusömustu þjóða á alþjóðlegum mælikvörðum. Því er eðlilegt að líta til þeirra með bjargráð sem gætu dugað til að draga úr streitu og depurð,  bæta líðan og auka hamingju.

Haustið 2016 kom út bókin The little book of hygge, the Danish way to live well, eftir Meik Wiking framkvæmdastjóra Hamingjurannsóknarstöðvarinnar í Kaupmannahöfn. Bókin hefur farið sigurför um heiminn og fjöldi bóka um hygge fylgt í kjölfarið.

En hvað er þetta hygge?

Huggulegur lífsstíll snýst um að vera í nánd við sjálfan sig, stundina, aðra og umhverfið í hversdeginum. Að skapa og upplifa notalegheit, ánægju, þægindi og hamingju á einfaldan hátt daglega dags. Einn eða með fáum öðrum, án streitu og átaka í öryggi þar sem álag, áreiti og kröfur eru víðsfjarri.

Snýst ekki um markmiðadrifin verkefni

Huggulegur lífsstíll snýst því ekki um að keyra sig áfram í markmiðadrifnum verkefnum í frístundum utan vinnu. Hvorki í ræktinni, á hjóli, í prjóni, tónhæð, fjallgöngu, pólitík, golfhöggum, námi eða með annarri mælanlegri krefjandi þáttöku í einhverskonar verkefnum eða félagsskap.

Markmiðadrifn verkefni geta sannarlega verið ánægjuleg en hefur þú skoðað hvort þau fylli næstum alveg vökutímann þinn? Pælum líka aðeins í því, í ljósi fregna af fólki sem bugast af álagi, hvort ákaft átak eða verkefni á einhverju sviði núna í vetrarmyrkri í upphafi árs sé hollt fyrir þig og mig eða einum of? 

Við höfum öll 24 klukkutíma í sólarhringnum, ekki fleiri. Margir fylla dagskipulag sitt af metnaðarfullum verkefnum utan vinnu þar sem þarf að standa sig. Þar sem ætlast er til frammistöðu og framfarir mældar og metnar. Gæti verið að ef við veljum vera meira og minna í markmiðadrifnum verkefnum, hvort sem þau tengjast vinnu eða ekki, séum við að stefna í þrot?

Hugsum málið, ég og þú

Einn af valkostunum sem eru í boði er hygge, huggulegur lífsstíll. Athugum samt að hygge er ekki að koma heim og kasta sér í sófann í vinnugallanum með bjór í bauk og rífa opinn snakkpokann. Huggulegur lífsstíll snýst um að velja að nota hversdagsstundirnar til að koma á einfaldri notalegri hygge stemmningu og stund á heilsusamlegan og virkan hátt af rósemd og öryggi. 

Vilt þú velja hygge sem leiðarljós, gildi og viðmið og öðlast þannig notalegra og streituminna líf? Allt snýst þetta um ákvörðun, svo er að afla sér upplýsinga og temja sig smátt og smátt á nýjan veg. Rækta með sér huggulegan lífsstíl og gefa sér tíma og leyfi til að njóta hans, skoðaðu málið!   

Sjö lyklar huggulega lífsstílsins  

- Orðræðan þín skiptir máli. Talaðu um hygge, að hafa það huggulegt, af hlýju, virðingu og metnaði með bros á vör af því að það er virkilega eftirsóknarvert. Settu þannig verðugan merkimiða á huggulegu stundirnar þínar.

- Að hygge snýst um að hlúa að sjálfum sér og njóta einveru, eða njóta huggulegheita með fáum. Ekki krefjandi fjölmenn boð á háum hælum í stífum jakka.

- Kveiktu á kertum til að skapa meðvitað huggulega stemningu. Athöfnin sjálf að kveikja á kertunum merkir stundina, helgar hana sem mikilvæga, nærandi skjól án streitu. Flestir Danir, um 80%, kveikja á þremur eða fleiri kertum í einu. Lifandi ljós gefur tóninn, virkilega nýttu og njóttu þeirra í öruggum kertastjökum.

- Klæddu þig í hygge. Njóttu þess að koma þér upp hyggefötum að dönskum sið. Notalegum fötum sem eru þægileg, mjúk og falleg. Ekki nota gamla blettótta bolinn. Hyggeklæðnaður er til þess ætlaður að skapa jákvæða, notalega afslappaða, og huggulega tilfinningu í líkama og sál. Hlý, mjúk peysa og buxur, sjal og sokkar svona til dæmis.

- Nýttu bragðskynið, notaðu mat og drykk af skynsemi til að skapa sælu, ánægju og gleði á meðvitaðan hátt. Taktu eftir bragðinu! Um 90% Dana telja heita drykki tilheyra því að hafa það huggulegt, ekki slæmt á janúarkvöldi.

- Á heimilinu er mikilvægt að eiga sitt huggulegahorn. Útbúðu það vel fyrir þig. Góðan stól, teppi til að vefja sig inn í, lampa til að lesa við, hlusta á tónlist eða gera handavinnu. Þar þarf líka að vera hægt að leggja frá sér fallega kaffi eða tebollan sinn og koma fyrir lítilli skál fyrir dásamlega súkkulaðimola.

- Hygge, huggulegur lífsstíll snýst um góðvild, að þú ákveðir að sýna þér og þínum góðvild í verki aftur og aftur. Þakka fyrir að vera til og njóta þess af gleði til fulls á einfaldan, spennulausan og notalegan hátt; af natni, ræktarsemi og þakklæti.