Fúksía-bleikt sumar

Ljósir, kvenlegir og daufir bleikir tónar víkja í sumar fyrir sterkum og stoltum kirsuberjafúksía-bleikum litatónum. Liturinn passar vel með öðrum sterkum litum, eins og grænum, lime-grænum, skærgulum eða djúpfjólubláum, en segir líka mikið einn og sér paraður með hvítum eða svörtum. Fúksía er líka fullkominn litur á fylgihlutina, eins og sandala, veski eða steitment eyrnalokka, til að poppa upp aðrar flíkur, hvvort sem þær eru í neutral tónum eða andstæðum lit.

Elie Saab sýndi glæsilegan fúksía-bleikan kjól á tískuvikunni í París í janúar.

Kermit-grænt og vænt

Grænn er litur náttúrunnar, vekur rólyndistilfinningu og getur unnið gegn kvíða og stressi. Græni liturinn í ár er allt annað en niðurtónaður eða daufur og hermannagrænn má bíða fram á haustið. Smaragðsgrænir og tónar sem minna á Kermit-frosk úr Prúðuleikurunum eru hins vegar í aðalhlutverki. Liturinn sómir sér einstaklega vel á rauðhærðum sem og dökkhærðum konum og körlum.

Hér fær Kermit-grænn að vera i aðalhlutverki hjá Valentino í París í janúar. Takið eftir bleika kjólnum í bakgrunni og hvað hann tónar vel við græna litinn.

Á öndverðum meiði

Þessir tveir litir, smaragðsgrænn og fúksía-bleikur, eru algerlega á öndverðum meiði á litahjólinu; svokallaðir andstæðir litir. Þetta þýðir að þeir passa bæði fáránlega vel saman og vekja ávallt mikla athygli ef þeir eru paraðir saman. Þetta snýst í grunninn um að blanda saman litatónum sem eru hvor sínum megin á litahjólinu og kalla þannig fram litasprengju sem gleður augað og vekur athygli.

Blátt og appelsínugult, gult og fjólublátt, bleikt og grænt. Nú er tími til kominn að gúggla litahjólið, gramsa í fataskápnum og para saman flíkur sem þér hefur líklega aldrei dottið í hug að klæðast saman.

Imane Ayissi tók trendið alla leið og paraði fúksía-bleikan við smaragðsgrænan pallíettukjól í tískuvikunni í París. Dásamlega girnileg litasprengja!