Hvernig er að vera vísindamaður á þessum tímum?

Jón Magnús Jóhannesson, læknir og rannsakandi á Landspítalanum og Vísindavefnum

„Það er eiginlega bara einfalt svar. Þetta er flókinn tími. Maður er náttúrlega í vinnu og faraldurinn eykur bæði álagið þar en maður þarf líka að kynna sér meira af því sem maður þarf að miðla áfram.

Því miður er það gjarnan þannig að vegna þess að fólkið sem vinnur við að rannsaka þetta og sinna Covid-sjúklingum er svo upptekið að það hefur gjarnan ekki tíma til að miðla þessu öllu áfram og þá myndast tóm. Inn í það tóm stíga aðrir sem því miður hafa ekki sömu þekkinguna og sömu getuna í vísindamiðlun og aðrir.

Það veldur mér miklum vonbrigðum hversu mikið í rauninni fólk tekur mark á því sem það heyrir, tekur því jafnvel sem heilögum sannleik og heldur þá í rauninni að þetta sé bara allt spurning um skoðanaskipti og að þetta sé bara A á móti B.

Á meðan er staðreyndin sú að forsendurnar sem Þórólfur og þríeykið hafa fyrir sínum skoðunum eru á allt öðrum grunni byggðar en þær sem að þeir sem hlusta á sögusagnir og falsvísindi miða sína þekkingu við.

Þannig það getur verið mjög erfitt að vera vísindamaður nú á dögum en ég held að aðalatriðið sé að við megum ekki missa sjónar á því að það er hluti af okkar skyldum að miðla þekkingu áfram og það besta sem við getum gert til að svara falsvísindum er að koma með raunvísindi á móti.“

Jón segir að sér þyki hápunkti falsfréttaumræðunnar hafi verið náð þegar bandaríska leikkonan Betty White lést. „Fólk kom með kenningar um að það tengdist bóluefnunum, þegar 99 ára gömul kona lést af náttúrulegum orsökum. Við þurfum að muna það þegar við heyrum um gögn annars staðar frá að spyrja okkur, hvaðan fær fólk þessar upplýsingar og hvaða grunn hefur fólk til að skilja þær upplýsingar?

Það er mikilvægt að hugsa um það. Hvort er líklegra að Þórólfur, sem er menntaður sérfræðingur í smitsjúkdómum barna og gerði doktorsverkefnið sitt um bóluefnið, hafi rétt fyrir sér um virkni bóluefna eða einhver sem las eina grein á einhverjum falsfréttamiðli og horfði síðan á YouTube-myndband því til stuðnings? Höfum bakgrunn fólks í huga og hvaðan það kemur.“