Framleiðendur Hvolpasveitarinnar áréttu í gær að ekki stæði til að hætta að sýna barnaefnið í náinni framtíð.

Yfirlýsingin kemur í kjölfar ummæla Kayleigh McEnany, fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins, um að þættirnir, sem fjalla meðal annars um löggæsluhunda, væru fórnarlamb „útilokunarmenningar“ (e. cancel culture).

Kanadískir framleiðendur þáttanna voru fljótir að bregðast við orðum McEnany og gáfu út að aðdáendur þeirra þyrftu ekki að hafa neinar áhyggjur af framtíð Hvolpasveitarinnar.

Nokkur fjöldi sjónvarpssería sem fjalla um störf lögreglu hafa verið teknir úr sýningu í Bandaríkjunum að undanförnu í kjölfar mótmælaöldu gegn lögregluofbeldi.

Hvolpasveitin er þó ekki þar á meðal þrátt fyrir að borið hafi á orðrómi þess efnis á samfélagsmiðlum.

Talaði gegn „útilokunarmenningu“

Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu á föstudag sagði McEnany að Trump Bandaríkjaforseti væri mótfallinn „útilokunarmenningu“ og sérstaklega þegar kæmi að lögreglunni.

Með hugtakinu er átt við það þegar ummæli eða gjörðir einstaklinga eða fyrirtækja vekja upp hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum og kallað er eftir því að aðilinn sé sniðgenginn í mótmælaskyni.

„Við sáum það fyrir nokkrum vikum að sýningum á Hvolpasveitinni, barnaefni um löggur, var hætt. Eins er með þættina Cops og Live PD,“ sagði McEnany á föstudag.

Þá bætti hún við að danski leikfangaframleiðandinn Lego hafi tekið löggæslusett úr sölu en enginn fótur er fyrir þeirri fullyrðingu að sögn forsvarsmanna Lego.

Hins vegar er rétt að raunveruleikaþættirnir Cops og Live PD hafi nýlega verið teknir úr sýningu þar vestanhafs. Báðar þáttaraðir eru meðal annars umdeildar fyrir að sýna myndefni af raunverulegum lögreglustörfum án þess að fá leyfi hjá einstaklingum sem þar birtast.