Fyrri undankeppni Eurovision fer fram í kvöld, Þá mun Ari Ólafsson fulltrúi Íslands í keppninni flytja lagið Our Choice, en hann er annar á svið. Veðbankar hafa ekki mikla trú á framlagi okkar í ár og spá laginu neðstu sætum. Síðustu ár hefur okkur ekki tekist að komast upp úr undankeppninni og því er mikil spenna fyrir kvöldinu – kannski að það takist í þetta sinn.

„Það þarf að huga betur að grunninum og velja sterkari lög inn í keppnina í byrjun,“ segir söngvarinn Friðrik Ómar þegar Fréttablaðið leitaði til hans eftir skýringum á slöku gengi Íslands undanfarin ár.

Sjá einnig: Hlustaðu á lögin sem etja kappi við Ara

„Þetta hefur ekkert með söngvarna að gera. Ísland er stútfullt af frábærum röddum og það er aldrei neitt vandamál að finna frábæra söngvara. Það þarf að byggja betur undir grunninn sem er lagavalið inn í Söngvakeppni Sjónvarpsins en það hefur ekki verið nógu sterkt síðustu ár“.

Friðrik Ómar þekkir vel til keppninnar en hann og söngkonan Regína Ósk voru fulltrúar Íslands í keppninni í Serbíu árið 2008 með lagið This is my life. Dúettinn sem kom fram undir nafninu Eurobandið voru fyrstu Íslendingarnir til að komast upp úr undankeppninni frá því að slíkt keppnisfyrirkomulag var tekið upp árið 2004.

Gagnrýni á íslenska atriðinu hefur einkum beinst að laginu sjálfu en ekki flutningi Ara og undir það tekur Friðrik Ómar; 

„Ari er frábær söngvari og með geislandi augu og því var ég hissa á að fókusinn skyldi ekki vera þar mér finnst óþarfi að setja hann í hvít jakkaföt með rauðum röndum það bætir engu við atriðið. Ég set líka spurningamerki af hafa sex manns á sviðinu það bætir engu við atriðið þegar að horft er á það á skjánum.“

Athugasemdir aðdáenda keppninnar á netmiðlum eru að megninu til í sömu átt – röddin góð, söngvarinn heillandi en lagið ekki nógu gott.

„Ég hefði sett hann í svört jakkaföt og leyft augnaráðinu og röddinni að vera í aðalhlutverki. Ari fer létt með að heilla áhorfendur heima í stofu og hann á auðvelt með að horfa í vélina því hann er svo einlægur og ljúfur í framkomu sem er heillandi. Mér finnst það ekki nást nógu vel fram með þessari sviðssetningu.“.

Fyrir nákvæmlega tíu árum síðan stóðu Friðrik Ómar og Regína Ósk í sömu sporum og Ari er í dag, skildi gamli Eurofiðringurinn enn vera á sínum stað?

„Ég hef ekki fundið tilfinninguna lengi en upp á síðkastið hef ég aðeins verið að leiða hugann að henni aftur. Ég elska þessa keppni og fylgist alltaf með. Hver veit ef það kemur gott lag þá kannski gerist eitthvað, þetta veltur allt á laginu.“

Keppnin hefst klukkan 19 í kvöld og verður í beinni útsendingu á RÚV. Það er hefð fyrir því að þjóðin geri sér glaðan dag af þessu tilefni og er Friðrik Ómar engin undantekning þar á. 

„Ég á von fjórum vinum mínum en við horfum alltaf saman á keppnina og höldum okkur við hefðina og gæðum okkur á smurbrauði frá Jómfrúni,“ – en hvernig fer í kvöld? „Ég vona að þau eigi gott kvöld sönglega séð og geti gengið frá þessu stolt og glöð.“  

En það er auðvitað ekki hægt að sleppa söngvaranum lausum í smurbrauðið án þess spyrja hver muni standa uppi sem sigurvegari að lokum? „Ég spái Tékklandi, en segi samt „Áfram Ísland“ því auðvitað held ég með þeim.“