Þótt B-myndir taki sig ekki of hátíðlega þá geta þær verið stórskemmtilegar eða jafnvel mjög góðar, eins og The Evil Dead eða Texas Chainsaw Massacre hafa sýnt okkur. Í versta falli á áhorfandinn að geta skemmt sér yfir vitleysunni í flippaðri hugmynd eins og hvað myndi gerast ef útúrkókað bjarndýr myndi ráðast á fólk.
Það er einmitt, eins og titillinn gefur til kynna, söguþráðurinn í Cocaine Bear. Myndin byggir (mjög lauslega) á sannri sögu þar sem smyglflugvél full af eiturlyfjum hrapaði í óbyggðum og björn nokkur komst í feitan farm af kókaíni. Sá björn drapst skömmu síðar en hér er björninn sprelllifandi, kókaður og mannýgur. Ansi banvænn kokteill.
Á blaði hljómar Cocaine Bear eins og hugmynd sem getur ekki klikkað fyrir áhorfendur sem eru að leita sér að skemmtilegri vitleysu. Því miður er útkoman ekki nógu góð. Þótt Cocaine Bear eigi sína spretti í tveimur til þremur atriðum þá hittir húmorinn ekki nógu oft í mark. Flest drápin sjást ekki einu sinni í mynd og undir lokin er myndin orðin furðulega dramatísk og hreint út sagt leiðinleg, sem er versti hlutur sem B-mynd getur nokkru sinni orðið. Björninn er þar að auki oft heldur rólegur og alls ekki jafnkókaður og hann hefði átt að vera.
Kvikmyndastúdíóið Asylum, sem hefur gefið okkur skemmtilegar en ferlegar myndir á borð við Sharknado-seríuna, hefur nú lofað að svara myndinni með sínu eigin útúrdópaða rándýri í Meth Gator. Vonum að þar takist betur til.
NIÐURSTAÐA: Flöt útfærsla á skotheldri hugmynd. Björninn hefði mátt vera mun kókaðri.