Ragn­heiður Maí­s­ól Sturlu­dóttir, lista­kona, stofnaði á dögunum með vinum sínum hóp til að deila dóti sem jóla­sveinarnir getur endur­nýtt og farið með til barna þegar þeir koma til byggða. Ragn­heiður segir að á að­eins nokkrum mínútum hafi hún fundið dót fyrir mörg börn í her­bergi barnanna sinna. Hún vonast til þess að jóla­sveinarnir geti nýtt sér það.

„Við fjöl­skyldan erum síðustu ár búin að stíga mörg skref til að verða um­hverfis­vænni síðustu ár. Á jólunum er reynt að gefa gjafir sem hafa komið í gegnum deili­hag­kerfi,“ segir Ragn­heiður.

Hún segir að fyrst hafi hún tekið eftir mörgu í herbergi dóttur sinnar sem hún er hægt að nota og svo hafi hún verið í verslun og séð hluti sem jóla­sveinarnir væru lík­legir til að velja til að setja í skóinn hjá börnum og hafi hugsað hvort þeir gætu ekki nýtt frekar dótið sem börnin hennar væru hætt að nota.

Hún setti færslu á Face­book-síðu sína um hvort fleiri væru í sömu hug­leiðingum. Það hafi undið upp á sig og endað í litlum hópi þar sem fólk er nú að safna saman gjöfum sem jóla­sveinarnir geta endur­nýtt.

„Ég er ekkert sér­stak­lega hrifin af því að kaupa nýtt ef maður getur fengið það notað í góðu standi. Við höfum eigin­lega aldrei verið, sem dæmi, með dóta­daga­tal eða nammi­daga­tal um jólin, heldur höfum við alltaf verið með sam­veru­jóla­daga­tal. Þau eru farin að biðja um það sjálf krakkarnir,“ segir Ragn­heiður.

Hún segir að vina­hópurinn hennar hafi á­vallt verið dug­leg að skiptast á bókum og í af­mælum hafi aldrei verið sett fyrir að gefa notað dót eða klæðnað.

„Það má auð­vitað vera nýtt, en þarf ekki að vera það,“ segir Ragn­heiður.

Ragn­heiður segir að það verði líka að taka til­lit til breyttra að­stæðna fyrir jóla­sveina líkt og aðra. Það sé búið að stytta vinnu­vikuna, þeir séu komnir á aldur og svo megi auð­vitað ekki gleyma heims­far­aldrinum.

„Þeir geta ekkert verið að fara í búðir í þessu á­standi,“ segir Ragn­heiður.

Það þarf ekki að vera nýtt og ónotað í öllum pökkunum.
Fréttablaðið/Getty

Finnst sjálfsagt að endurnýta

Hún segist finna það í sínum börnum að þeim finnist sjálf­sagt að endur­nýta og þakkar upp­eldinu það.

„Þau tengja ekki nýtt dót við að það sé í kassa. Þegar þau eru hætt að nota eitt­hvað stinga þau líka oft sjálf upp á því að ein­hver annar geti nýtt dótið eða kjólinn. „Þá getur þessi fengið þetta,“ segja þau og mér finnst það svo frá­bært. Maður finnur það alveg í dag að deili­hag­kerfið er orðið rosa­lega stórt og það er ekkert endi­lega sjálf­sagt að fara að kaupa nýjan vagn eða föt,“ segir Ragn­heiður.

Hún telur að mikla breytingu megi sjá á þeim kyn­slóðum sem eru að komast á full­orðins­ár núna og eru enn að alast upp. Hún tekur sem dæmi nýja búð Góða hirðisins í mið­borginni sem var opnuð með þann mark­hóp í huga.

„Ég er alin upp af móður sem var alveg að verða fer­tug þegar hún átti mig og var alin upp í rosa­lega mikilli nýtni. Það var ekkert allt til þegar mamma mín var að alast upp,“ segir Ragn­heiður.

Ragn­heiður segir að hún hvetji fólk til að mynda sér litla hópa með vinum eða vanda­mönnum, eða jafn­vel fólki í hverfinu, til að safna saman dóti fyrir jóla­sveinana. Það hafi aðeins tekið hana stutta stund að finna dót í herbergi barnanna sinna fyrir marga jólasveina.

„Það er ekkert endi­lega mjög um­hverfis­vænt að fara alla leið í Norð­linga­holt til að sækja eitt plast­dót ef þú býrð í Vestur­bænum. Það eru hverfa­hópar, leik­skóla­hópar og það er ein­föld lausn fyrir fólk. Það tók mig um 20 mínútur að fara í gegnum skápana og finna dót fyrir marga jóla­sveina. Eitt­hvað sem dóttir mín er hætt að leika með er ef­laust eitt­hvað sem jóla­sveinninn gæti fært öðru barni,“ segir Ragn­heiður.