Ragnheiður Maísól Sturludóttir, listakona, stofnaði á dögunum með vinum sínum hóp til að deila dóti sem jólasveinarnir getur endurnýtt og farið með til barna þegar þeir koma til byggða. Ragnheiður segir að á aðeins nokkrum mínútum hafi hún fundið dót fyrir mörg börn í herbergi barnanna sinna. Hún vonast til þess að jólasveinarnir geti nýtt sér það.
„Við fjölskyldan erum síðustu ár búin að stíga mörg skref til að verða umhverfisvænni síðustu ár. Á jólunum er reynt að gefa gjafir sem hafa komið í gegnum deilihagkerfi,“ segir Ragnheiður.
Hún segir að fyrst hafi hún tekið eftir mörgu í herbergi dóttur sinnar sem hún er hægt að nota og svo hafi hún verið í verslun og séð hluti sem jólasveinarnir væru líklegir til að velja til að setja í skóinn hjá börnum og hafi hugsað hvort þeir gætu ekki nýtt frekar dótið sem börnin hennar væru hætt að nota.
Hún setti færslu á Facebook-síðu sína um hvort fleiri væru í sömu hugleiðingum. Það hafi undið upp á sig og endað í litlum hópi þar sem fólk er nú að safna saman gjöfum sem jólasveinarnir geta endurnýtt.
„Ég er ekkert sérstaklega hrifin af því að kaupa nýtt ef maður getur fengið það notað í góðu standi. Við höfum eiginlega aldrei verið, sem dæmi, með dótadagatal eða nammidagatal um jólin, heldur höfum við alltaf verið með samverujóladagatal. Þau eru farin að biðja um það sjálf krakkarnir,“ segir Ragnheiður.
Hún segir að vinahópurinn hennar hafi ávallt verið dugleg að skiptast á bókum og í afmælum hafi aldrei verið sett fyrir að gefa notað dót eða klæðnað.
„Það má auðvitað vera nýtt, en þarf ekki að vera það,“ segir Ragnheiður.
Ragnheiður segir að það verði líka að taka tillit til breyttra aðstæðna fyrir jólasveina líkt og aðra. Það sé búið að stytta vinnuvikuna, þeir séu komnir á aldur og svo megi auðvitað ekki gleyma heimsfaraldrinum.
„Þeir geta ekkert verið að fara í búðir í þessu ástandi,“ segir Ragnheiður.

Finnst sjálfsagt að endurnýta
Hún segist finna það í sínum börnum að þeim finnist sjálfsagt að endurnýta og þakkar uppeldinu það.
„Þau tengja ekki nýtt dót við að það sé í kassa. Þegar þau eru hætt að nota eitthvað stinga þau líka oft sjálf upp á því að einhver annar geti nýtt dótið eða kjólinn. „Þá getur þessi fengið þetta,“ segja þau og mér finnst það svo frábært. Maður finnur það alveg í dag að deilihagkerfið er orðið rosalega stórt og það er ekkert endilega sjálfsagt að fara að kaupa nýjan vagn eða föt,“ segir Ragnheiður.
Hún telur að mikla breytingu megi sjá á þeim kynslóðum sem eru að komast á fullorðinsár núna og eru enn að alast upp. Hún tekur sem dæmi nýja búð Góða hirðisins í miðborginni sem var opnuð með þann markhóp í huga.
„Ég er alin upp af móður sem var alveg að verða fertug þegar hún átti mig og var alin upp í rosalega mikilli nýtni. Það var ekkert allt til þegar mamma mín var að alast upp,“ segir Ragnheiður.
Ragnheiður segir að hún hvetji fólk til að mynda sér litla hópa með vinum eða vandamönnum, eða jafnvel fólki í hverfinu, til að safna saman dóti fyrir jólasveinana. Það hafi aðeins tekið hana stutta stund að finna dót í herbergi barnanna sinna fyrir marga jólasveina.
„Það er ekkert endilega mjög umhverfisvænt að fara alla leið í Norðlingaholt til að sækja eitt plastdót ef þú býrð í Vesturbænum. Það eru hverfahópar, leikskólahópar og það er einföld lausn fyrir fólk. Það tók mig um 20 mínútur að fara í gegnum skápana og finna dót fyrir marga jólasveina. Eitthvað sem dóttir mín er hætt að leika með er eflaust eitthvað sem jólasveinninn gæti fært öðru barni,“ segir Ragnheiður.