„Sumarið er hlaðið alls konar skemmti­leg­heitum en mest er þetta í Norður­firði á Ströndum. Ég er með hóp sem mætir þar í byrjun júlí og þá verður farið á upp­á­halds­fjallið mitt, Glissu,“ segir fjalla­geitin og fjöl­miðla­maðurinn Reynir Trausta­son og bætir við að einnig verði leitað á ný mið, svo sem Finn­boga­staða­fjall og Ár­nes­fjall.

Reynir, sem er rit­stjóri Mann­lífs og farar­stjóri hjá Ferða­fé­lagi Ís­lands í hjá­verkum, var kominn af léttasta skeiði þegar hann fékk fjalla­bakteríuna og hefur stundað fjall­göngur, sam­hliða blaða­mennskunni, af miklu kappi í rúman ára­tug og munar því lítið um að mæla með góðum og mis­erfiðum göngu­leiðum þar sem þessar þrjár eru í upp­á­haldi.

„Rauðs­gilið er náttúr­lega gríðar­lega fal­legt og gaman að fara það og ganga það og Búr­fell sem stendur yfir fæðingar­bæ mínum,“ segir Reynir og vitnar í frægt ljóð Jóns Helga­sonar sem fæddur var á Rauðs­gili:

Handan við Okið er hafið grátt,
heiðar­fugl stefnir í suður­átt,
langt mun hans flug áður dagur dvín,
drýgri er þó spölurinn heim til mín.

„Þetta er svona staðurinn sem maður kemur alltaf aftur og aftur á og manni líður alltaf svo vel í hjartanu. Það er svo mikil fegurð. Þetta er líka bara lítt snortið og ekki í al­fara­leið,“ segir Reynir.

Lífs­björgin Úlfars­fell

Fyrir þá sem vilja létta og skemmti­lega göngu mælir Reynir því með Rauðs­gili en Glissu fyrir þá sem vilja eitt­hvað ör­lítið meira krefjandi. Reynir kallar Glissu, sem er á mörkum Reykja­fjarðar og Ingólfs­fjarðar á Ströndum, „dul­magnað fjall“.

Í þriðja lagi nefnir Reynir svo Úlfars­fell í Mos­fells­sveit sem er það fjall sem hann hefur oftast gengið á. „Ég er búinn að fara 1.500 sinnum þangað. Þetta bjargaði lífi mínu eða alla­vega lífs­gæðunum,“ segir Reynir, en Úlfars­fellið var fyrsta fjallið sem hann tók ást­fóstri við þegar hann byrjaði að stunda fjalla­mennsku af al­vöru fyrir rúmum ára­tug.

Reynir ætlar svo að enda sumarið á fjalla­ferð til Marokkó sem hann fer á eigin vegum með fimm­tán manna hópi.

„Ég ætla að enda sumarið á Tou­b­kal, sem er hæsta fjall Marokkó, rúmir 4.000 metrar. Það verður svona test fyrir mig til þess að sjá hvort ég kemst eitt­hvað á­leiðis á E­verest,“ segir Reynir, en hann setti sér það ára­móta­heit að klífa hæsta fjall heims árið 2023, þegar hann verður sjö­tugur.

„Svo bara verður þetta ein alls­herjar­gleði að taka á móti fólki og stunda sjósund og fjöll.“