Þrátt fyrir hefðbundið jólastress reyna starfsmenn upplýsingatæknifyrirtækisins Advania að eiga notalegar stundir á aðventunni ár hvert. Einn lykill í þeirri viðleitni er að reyna að brjóta upp hversdagsleikann með stórum og smáum jólauppákomum segja þær Sigrún Ósk Jakobsdóttir, mannauðsstjóri Advania, og Hólmfríður Rut Einarsdóttir, vörustjóri á rekstrarlausnasviði og formaður starfsmannafélags Advania. „Með því að brjóta upp hversdagsleikann gefum við starfsfólki tækifæri á að skapa minningar með vinnufélögunum sem ekki tengjast þeirra daglegu verkefnum. Þessar uppákomur hafa reynst alveg einstaklega vel og skapað skemmtilega stemmingu á vinnustaðnum í desembermánuði,“ segir Sigrún.

Þær eru sammála um að starfsmenn séu ánægðir með þá viðburði og hefðir sem hafa skapast hjá fyrirtækinu. „Það sést helst á því hvað þátttaka fólks er mikil á þeim viðburðum sem boðið er upp á þrátt fyrir að allir hafi í nægu að snúast við undirbúning jólanna heima við,“ bætir Hólmfríður við.

Ofvirkt starfsmannafélag

Þær segja desembermánuð alltaf vera viðburðaríkan þótt vissulega sé hann breytilegur milli ára. „Við búum að því að eiga alveg einstaklega ofvirkt starfsmannafélag með ótrúlega hugmyndaríkt fólk í forystu. Árlega hafa verið tveir stórir viðburðir; við höfum boðið annað hvort til hefðbundins jólahlaðborðs eða boðið öllum starfsmönnum á jólalega tónleika. Í ár blöndum við þessu tvennu saman, bjóðum starfsfólki á tónleika og eftirpartí í framhaldinu sem verður með jólahlaðborðsívafi. Á þessum tíma árs kemur yfirleitt einhver stórmyndin í bíó, og höfum við leigt bíósal og fjölmennt þangað með makana og börnin.“

Keppnisskap í starfsfólki

Á vinnustaðnum skapast einnig mikil jólastemming með ýmsum uppákomum að þeirra sögn. „Leynivinaleikir innan smærri hópa er frekar föst hefð hjá okkur og endar oftast með jólakaffiboði og notalegri stund. Undir lok mánaðarins er jóladagur Advania haldinn hátíðlegur. Þann daginn hætta allir aðeins fyrr í vinnunni og boðið er til viðburðar í mötuneytinu. Þar afhenda allir stjórnendur starfsfólki sínu jólagjafir, boðið er upp á jólalegar veitingar, heitt kakó og jólaöl og yfirleitt einhver skemmtiatriði. Þennan dag mæta allir í sínu jólalegasta dressi og þá eru tilkynnt úrslit í jólaskreytingarkeppninni og veitt verðlaun fyrir jólalegasta starfsmanninn. Það er mikið keppnisskap í okkar fólki og undantekning ef einhver starfsmaður er ekki í jólapeysu.“

Veisla í hvert mál

Ilmurinn í eldhúsinu er svo sannarlega lokkandi vikurnar fyrir jólin því mötuneyti Advania sér til þess að færa starfsfólki bragð af jólum frá mismunandi heimshornum allan nóvember og desembermánuð. „Þegar líður á mánuðinn ættu allir að hafa fengið kalkún og allt sem honum fylgir, hnetusteik og hamborgarhrygg, svo eitthvað sé nefnt. Þetta er að okkar mati algjört lykilatriði í því að skapa jólastemningu á vinnustað enda er leiðin að hjörtum fólks oftar en ekki í gegnum mat.“

Dagskráin er að öllu jöfnu fjölbreytt vikurnar fyrir jól. „Helsta breytingin í ár verður eflaust að við erum orðin betri í því að gera þeim sem sitja heima, í öðrum landshlutum eða löndum, kleift að taka þátt í dagskránni. Það er í takt við þann nýja vinnustað sem Advania er, en hér vinnur fólk þaðan sem því hentar. Við erum staðráðin í því að sveigjanleiki sé kominn til að vera og honum fylgja nýjar kröfur sem við aðlögum okkur að. Það á við um viðburði í aðdraganda jóla líkt og allt annað sem kemur að vinnustaðnum.“


Meiri áhersla á sjálfbærni

Síðustu ár hefur áhersla fyrirtækja á sjálfbærni aukist á heimsvísu og um leið á Íslandi. „Til að mæta þeim höfum við lagt áherslu á að minnka sóun. Það er alltaf erfitt að finna eina gjöf sem höfðar til 600 manns og því gefur það augaleið að jólagjafir síðustu ára hafa komið að mismiklum notum á heimilum fólks. Síðustu tvö ár höfum við gert starfsfólki kleift að velja sína eigin gjöf af gjafavef Advania þar sem er að finna gjafabréf frá margvíslegum fyrirtækjum. Við höfum lagt áherslu á fjölbreytt úrval og að ávallt sé í boði að velja sér upplifun eða gefa andvirði gjafarinnar til góðgerðarmála. Þannig teljum við okkur lágmarka sóun og gefa starfsfólki okkar kost á að finna sér gjöf við hæfi. Þetta form hefur vakið mikla ánægju meðal starfsfólks okkar og er sérstaklega gaman hvað margir hafa kosið að gefa til góðgerðarmála.“