Um titil sýningarinnar segir Ingibjörg: „Þetta algenga franska orðasamband, de rien, hefur alltaf heillað mig, það þýðir ekkert að þakka eða það var ekkert, en bókstaflega merkingin er af engu. Þetta stóra og dramatíska hugtak er notað svo hversdagslega að maður tekur varla eftir því hvað það er hyldjúpt.“

Ingibjörg segir að sýningin hverfist um það sem hún vill kalla „ekkert-ið“. „Eyðingin, ekkert-ið og tómið er mér hugleikið. Táknmynd sýningarinnar er núllið. Ég átti afmæliskerti sem var í laginu eins og núll sem ætlast er til að sé brennt niður fyrir aftan aðra og hærri tölu á stórafmælum. Með því að láta það ekki brenna og neita að láta það eyðast fannst mér ég geta höndlað ekkert-ið. En svo sá lífið auðvitað við mér. Ég var með kertið á vinnuborðinu mjög lengi en sá svo hvernig það var byrjað að upplitast vegna sólarinnar og farið að hverfa.“

Boðið upp á köku

Á sýningunni er mynd, gerð með gouache-litum, af kertinu. „Sú mynd á sér síðan systurverk. Þegar ég var að mála myndina af kertinu þá blotnaði nefnilega næsta blað í teikniblokkinni og til varð lítil eftirmynd, upphleypt út af vatninu. Mig langaði strax að útbúa ramma fyrir hana sem ég myndi dýfa í litina sem eru á upphaflega afmæliskertinu. Þannig myndi myndefnið umpólast, liturinn rynni út á rammann, en minningin um formið yrði eftir á myndfletinum. Á nokkrum vikum gufaði vatnið upp og pappírinn varð alveg sléttur svo það sést ekki að nokkuð hafi verið á honum. Sem er auðvitað enn betra. Þar með var orðið til síðasta verkið á sýningunni sem heitir Ekkert af engu.“

Skúlptúrar eru á sýningunni. Þar á meðal er samanþjappaður sandur og í miðju hans er greypt form af madeleine-köku. „Hugsanir um tímann, eyðinguna og ekkert-ið eru tengdar minninu og því hvernig maður er alltaf að missa tökin á því. Þá kemur Proust upp í hugann. Mig langar til að ná í skottið á tímanum, en ég get það ekki, ég get bara boðið upp á Madeleine-köku sem minnir þig ekki á neitt sérstakt,“ segir Ingibjörg.

Viðkvæmt jafnvægi

Blaðamaður hefur orð á því að verkin á sýningunni virki einföld. Ingibjörg tekur undir það: „Þau eru einföld, flest smágerð og afskaplega viðkvæm. Þarna er samanþjappaður sandur sem hrynur í sundur ef þú rekst í hann og pappírsstafli sem sömuleiðis hrynur um koll ef ýtt er við honum.

Öll verkin hanga saman á trúnni og traustinu og því að þeim sé stillt upp af nákvæmni. Um leið nær það sem er smátt og lítið að safnast saman og verða að einhverju voldugu. Hversdagslegir hlutir sem virðast vera rusl fá nýja meiningu. Plast sem er hér uppi á vegg eru umbúðir utan af límmiðaspjaldi sem dóttir mín átti og á þeim stendur: Stickers. We have hopes because we have love. Made in china. Með litlu c.

Þegar maður rekst á einhvern kjarna í hlutum sem verða á vegi manns þá getur maður stillt þeim upp og búið til frásögn milli þeirra. Hvert og eitt verk er lítið og úr viðkvæmu efni, en býr um leið yfir djúpum sannleika. Dæmi um þetta er póstkort af ketti með starandi blátt augnaráð, hann horfir svo djúpt í augun á manni að hann verður eins og hálfgerð samviska manns.“

Er ekki hætta á að einhver verkin verði fyrir hnjaski? „Ég verð að reikna með að það geti gerst, en ég hef óskaplega mikla trú á fólki og að það sjái í hversu viðkvæmu jafnvægi þessi verk eru og vilji leggja sitt af mörkum til að leyfa þeim að lifa,“ segir Ingibjörg