Sjónvarpsþættirnir The Book of Boba Fett á Disney+ eru nýjasta tilraun Disney til þess að hámarka fjárfestingu sína með kaupunum á Lucasfilm og þar með öllu tengdu Star Wars.

Stjörnustríðsaðdáendur eru í seinni tíð orðnir ansi kröfuharður hópur, sem hikar ekki við að láta í sér heyra sé tilfinningum þeirra misboðið með nýju efni. Þættirnir um hina dáðu aukapersónu, mannaveiðarann Boba Fett, virðast þó almennt leggjast ágætlega í mannskapinn. Þegar þrír þættir eru að baki kannar Fréttablaðið hug Star Wars-aðdáenda beggja vegna borðsins, en fjórði þátturinn fer í loftið í kvöld.

Hvaða bull er þetta?

Heiðar Sumarliðason, stjórnandi hlaðvarpsins Stjörnubíó.

Ég tók eftir því með The Mandalorian að þegar þættirnir fóru mest á flug var Jon Favreau hvergi nálægur sem höfundur, eða þátturinn var þess eðlis að það var ekki hægt að klúðra honum. Til dæmis þegar Logi geimgengill birtist.

Þeir þættir sem innihéldu atvik sem vöktu upp kjánahroll hjá mér voru hins vegar alltaf skrifaðir á Favreau: froskakonan og eggin, einhver? Nú þegar þrír þættir af The Book of Boba Fett hafa verið sýndir hefur þessi trú mín styrkst: Dansar við Tuskens, einhver? Allir eru þeir eftir Favreau, þunglamalegir og lítið spennandi. Svo er Boba Fett alls ekki sá töffari sem ég hélt; stjórna með virðingu? Hvaða bull er þetta? Einnig skil ég ekki þessa þráhyggju þeirra hjá Lucasfilm fyrir þessum Mandalorians. Tvær fyrstu leiknu seríurnar eru báðar um gaura í Mandalorian galla og með hjálm. Þessi markaður er mettur og vel það.

Stækkandi stjörnuþoka

Elsa María Hertervig, Stjörnustríðsaðdáandi

Fyrstu þrír þættirnir um Boba Fett eru alveg hreint magnaðir. Fyrsti þátturinn byrjaði hægt en undirbyggði vel það sem á eftir hefur komið. Boba sleppur úr Sarlacc-pyttinum á Tatooine og er tekinn til fanga af Tusken-ættbálki en sýnir fljótt að hann er verðmætur bandamaður og er innvígður í ættbálkinn.

Þau kenna honum siði sína og sögu, sem er saga þjóðar sem lifði af hrikalegar hörmungar og þurfti að aðlagast lífi í gjörbreyttum heimi, sem er táknrænt fyrir það sem Boba hefur gengið í gegnum og það sem hann á í vændum.

Allar persónur þáttanna eru mjög vel gerðar, sviðsmyndin er mögnuð og steam-punk þemað yfir þeim á svo vel við á eyðimerkurplánetu eins og Tatooine. Mér finnst frábært að stjörnuþokan langt, langt í burtu er ennþá sístækkandi og að eftir öll þessi ár er hún ennþá að koma okkur á óvart.