Logi hefur í mörg horn að líta. Hann hefur rekið fyrirtækið Fjarform í mörg ár þar sem hann þjálfar fólk á öllum aldri, bæði byrjendur og lengra komna. Hann hefur verið iðinn við að halda fyrirlestra og þá er hann einn helsti handboltaspekingur landsins og hefur í áraraðir fjallað á RÚV um íslenska landsliðið á stórmótum.
„Ég er búinn að vera með Fjarform í tólf ár á sama stað í Hafnarfirði. Ég er að þjálfa fólk meira og minna allt árið. Þetta er íþróttafólk, kyrrsetufólk, Ólympíufarar, unglingar, eldri borgarar og bara öll flóran. Það kemur til mín alls konar fólk sem vill bæta lífsstíl sinn og fá ráðgjöf um hann. Ég set upp æfingar og matarprógramm fyrir fólk og fylgi því eftir með mælingum og utanumhaldi. Það er búið að vera brjálað að gera í þessum bransa. Vissulega dró aðeins úr þessu í Covid en núna er þetta komið á fulla ferð aftur,“ segir Logi en að hans sögn hafa mörg þúsund manns nýtt sér þjónustu Fjarforms.
Logi hefur í mörg ár haldið fyrirlestra og segir að fátt sé skemmtilegra en að halda þá. „Ég fæ mikið út úr því að halda þessa fyrirlestra. Ég fer í fyrirtæki, til íþróttafélaga, í skóla og á fleiri staði. Ég hef keyrt á nokkra fyrirlestra og sá vinsælasti er með yfirskriftina: „Það fæðist enginn atvinnumaður.“ Þar fer ég yfir leiðina í það að verða atvinnumaður og er svolítið framhald af bókinni 10 10 10 sem ég gaf út hérna um árið. Ég hef haldið 2-4 fyrirlestra á mánuði, bæði hér í bænum og úti á landi. Þetta eru líka heilsufyrirlestrar sem eru meira fyrir fyrirtækin. Ég hreinlega elska að gera þetta og það skemmir heldur ekki fyrir að mér leiðist ekki að fá athyglina. Maður nýtir hana á þessum vettvangi og ef maður getur gefið eitthvað af sér þá er það frábært,“ segir Logi.

Ögrar fólki með glingrinu
Logi lék sem atvinnumaður með þýska liðinu Lemgo frá 2004- 2010 og hann spilaði 97 leiki með íslenska landsliðinu og skoraði í þeim 289 mörk. Hann vann til silfurverðlauna með landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og til bronsverðlauna á Evrópumótinu í Austurríki 2010 en lagði landsliðsskóna á hilluna 2011. Þeir sem séð hafa Loga á skjánum hafa tekið eftir því að honum leiðist ekki að klæða sig upp og skarta alls konar glingri.
„Sérstaklega þegar ég kem í sjónvarpið og ekki síst þegar stórmótin eru í gangi og 70% þjóðarinnar eru að horfa, þá þarf maður að vera svolítið flottur. Fólk hefur ótrúlegar skoðanir á því hvernig maður klæðir sig og póstunum rignir inn. Til dæmis voru þeir margir sem vildu ekki sjá rauða sólann undir skónum lengur, sem ég gerði í að láta sjást. Þegar ég mæti með gullgleraugun og gullhringana í settið þá er ég svolítið að ögra fólki en ég vil líka vera öðruvísi. Þetta er bara ég. Ég fæ helling út úr þessu.“
Komast í besta form lífsins
Þegar Logi er spurður út í eigin hreyfingu og heilsurækt segir hann: „Ég ætla að komast í besta form lífs míns á þessu ári og það fertugur að aldri. Ég ætla að taka heilsuna vel í gegn,“ segir Logi, sem fer gjarnan upp í Kaplakrika til að sækja orku. Kaplakriki var lengi vel hans annað heimili en Logi er fæddur og uppalinn í FH og karl faðir hans, goðsögnin Geir Hallsteinsson, vann í fjöldamörg ár sem forstöðumaður í Kaplakrika sem Logi naut góðs af.
„Ég gríp í lóðin af og til. Handboltaferillinn fór ekkert mjög illa með mig og til að mynda fór ég í september á síðasta ári og tók þátt í „All Star“-leik í Þýskalandi sem gekk bara vel. Skrokkurinn er ekkert illa farinn enda var ég frekar stutt í atvinnumennskunni. Ég er í góðu líkamlegu formi og nú þegar maður er orðinn fertugur þá bætast göngutúrar við. Ég ætla líka að sigra nokkur fjöll á þessu ári og stefnan er að labba Laugaveginn.“

Hvert tímabil í lífinu hefur sinn sjarma
Logi á tvö börn, Vilberg og Júlíu, með Ingibjörgu Elvu Vilbergsdóttur en Logi og Ingibjörg hættu saman eftir tíu ára sambúð árið 2019.
„Lífið er yndislegt og það er gaman að vera til. Hvert tímabil í lífinu hefur sinn sjarma og aldrei að vita nema að ástin banki upp á 2023. Ég hef góða tilfinningu fyrir því að þetta verði árið sem þetta gerist,“ segir Logi, sem segist hafa búsetu á þremur stöðum.
„Ég bý í Njarðvík og er með krakkana hjá mér aðra hverja viku. Ég er líka með íbúð í bænum og svo geri ég mikið af því að fara vestur í Grundarfjörð. Ég reyni að vera í húsinu í Grundarfirði eins mikið og ég get. Grundarfjörður er æðislegur staður og er falinn demantur að mínu mati. Ég keypti húsið upphaflega sem sumarhús en ég er að fara í það yfir allt árið. Ég get unnið þar og mér líður ákaflega.vel á þessum stað. Ég er enn þá að gera húsið upp og þegar því lýkur verður þetta alvöru villa.“
Það er ekki hægt að sleppa Loga án þess að spyrja hann aðeins út í landsliðið nú þegar rykið hefur sest eftir HM í síðasta mánuði. Logi var mjög bjartsýnn og taldi liðið vera nógu gott til að vinna heimsmeistaratitilinn. Niðurstaðan varð hins vegar 12. sæti. Í janúar á næsta ári fer EM fram í Þýskalandi og þar verður íslenska landsliðið nær örugglega í eldlínunni. Logi hefur verið einn sérfræðinga á RÚV mörg undanfarin ár.

Síðasta stórmótið á RÚV?
„Ég er ekki frá því að þetta hafi verið síðasta stórmót mitt í sjónvarpinu. Við verðum með frábært lið í Þýskalandi og mig langar að upplifa það mót sem áhorfandi. Mig er búið að dauðlanga til að fara á þessi stórmót ár eftir ár en frá árinu 2012 er ég búinn að vera á RÚV og er búinn að fjalla um síðustu tíu stórmót hjá landsliðinu. Það tekur á og maður er hálf bensínlaus nokkrar vikur á eftir. Ég man eftir heimsmeistaramótinu sem ég tók þátt í með landsliðinu í Þýskalandi 2007. Það er flottasta mót sem ég hef farið á. Umgjörðin var rosaleg og fólk hafði aldrei séð annað eins. Stemningin var mögnuð og allar hallir voru fullar. Þeir sem fóru á þetta mót hafa beðið eftir því að fara aftur á mót í Þýskalandi og eitt er víst að það verður boðið upp á stórveislu þar á næsta ári.
