Álfheiður Erla Guðmundsdóttir söngkona syngur eina kvenhlut verk ið í óperunni St. Françoisd’Assise sem nýlega var frumsýnd í Theater Basel í Sviss. Frammistaða hennar heillaði gagnrýnendur upp úr skónum. Álf heiður býr í Berlín og hefur verið þar síðan hún hóf bakkalárnám í Hanns Eisler tónlistarháskólanum árið 2014. Næsta vor lýkur hún meistaranámi þaðan en vegna COVID var lokatónleikunum hennar frestað.

„Ég hef verið lánsöm að fá að stíga mín fyrstu skref í Staatsoper Berlín samhliða náminu sem hefur verið algjör draumur. Að auki hef ég reynt að sækja ýmis meistaranámskeið og taka þátt í keppnum og því hef ég verið nokkuð mikið á flakki síðastliðin ár. Síðasta vor hefði ég einnig átt að fara með hlutverk í óperunni í Montpellier en það bíður vonandi betri tíma. Ég var svo ráðin fyrir þessa uppfærslu í Theater Basel sem var mikið gleðiefni á þessum skrítnu tímum,“ segir hún.

Eina kvenhlutverkið

Óperan St. Françoisd’Assise (Heilagur Frans frá Assisí) er eina ópera franska tónskáldsins Olivier Messiaen og var frumsýnd í Theater Basel 15. október síðastliðinn en þetta er fyrsti flutningur á verkinu í Sviss. „Óperan er mjög krefjandi og því var æfingaferlið óvenju langt eða um það bil átta vikna langt,“ segir Álfheiður. „Upprunalega er þetta rúmlega fjögurra klukkustunda verk samið fyrir 120 manna hljómsveit og 150 manna kór en vegna aðstæðna var óperan bæði stytt og útsett fyrir smærri hljómsveit og kór. Ég fer með hlutverk engilsins en það er eina kvenhlutverk óperunnar. Hinar rullurnar eru allt saman karlar: heilagur Frans, munkarnir og holdsveiki maðurinn.

Leikstjórinn okkar, Benedikt von Peter, sem er einnig nýráðinn óperustjóri Theater Basel gaf verkinu algjörlega nýtt sjónarsvið. Í stað þess að sviðsetja verkið á hefðbundinn hátt í klaustri, þá ákvað hann að breyta hlutverki heilags Frans í útigangsmann sem heldur sig á bílastæði við súpermarkað stuttu eftir heimsendi. Hlutverk mitt sem engillinn fékk einnig alveg nýjan tilgang. Í stað þess að birtast sem vængjaður engill af himnum ofan, þá fer ég með hlutverk heimilislausrar stelpu sem er vör um sig og reynir að lifa af í köldum og einmanalegum heimi.

Hún kynnist Frans sem virðist í fyrstu vera furðulegur en er í raun mjög veikur og nærri dauðanum. Stelpan reynir að aðstoða hann og færir honum dósamat úr súpermarkaðinum og lyf en hann vill ekki nærast og syngur þess í stað um fuglana og minnist látinna félaga sinna af götunni. Hlutverk Frans, sem er virkilega vel sungið af kanadíska bass-barítóninum Nathan Berg, er mjög stórt, með þeim stærstu sem finnast. Hann yfirgefur aldrei sviðið á þessum þremur og hálfu tímum sem verkið tekur. Það sem hefur verið lærdómsríkast í þessu ferli fyrir mig í hlutverki engilsins, er leiklega hliðin. Það eru fjölmargar senur í verkinu þar sem ég er á sviðinu þrátt fyrir að vera ekki að syngja. Það var skemmtileg áskorun og fer klárlega í reynslubankann.“

Djarft verkefnaval

Álfheiður hefur fengið afar góða dóma fyrir túlkun sína á englinum. „Viðbrögðin hafa verið mjög góð og fólk virðist almennt ánægt með uppfærsluna. Flestum finnst verkefnavalið djarft og metnaðarfullt á þessum óútreiknanlegu tímum. Ég var einnig ótrúlega þakklát fyrir hlý orð í fjölmiðlum um frammistöðu mína í hlutverki engilsins, sem er í raun fyrsta stóra hlutverk mitt á óperusviðinu.“ Álfheiður segir ýmislegt gert til að halda tónlistarhúsum í Sviss opnum.

„Í Sviss eru augljóslega miklir fjármunir settir í viðburði sem þessa og því ekki víst að þetta væri hægt alls staðar. En ég lít á hverja sýningu hjá okkur sem forréttindi og ég reyni að taka bara einn dag í einu og vera bjartsýn. Ég geri mér grein fyrir því að ástandið getur breyst hratt. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að vera hluti af þessu magnaða teymi og að fá að flytja lifandi tónlist fyrir (hálf)fullu húsi þrátt fyrir allt.“

Spurð hvað sé fram undan segir Álfheiður: „Við sýnum verkið alls tíu sinnum ef allt gengur vel og að því loknu fer ég aftur til Berlínar þar sem ég mun undirbúa næstu verkefni. Á dagskránni eru tvennir tónleikar á Íslandi fyrir jól. Annars vegar frumraun mín sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar og hins vegar tónleikar með óhefðbundnu sniði í Norðurljósasal Hörpu sem bera titilinn Apparition, en þar sameinum við píanóleikarann Kunal Lahiry og ég ýmis listform ásamt góðu fólki.“