Stefnuyfirlýsing Chertrúarsafnaðarins á Facebook er einföld enda hefur hópurinn aðeins eitt markmið og eina sannfæringu sem hverfast um einn brandara. Aðeins einn. Og hún er Cher.

„Þessi hugmynd fæddist í vinnubílnum þann 18. janúar. Við vorum að spá í sértrúarsöfnuði og eftir smá pælingar þá datt okkur í hug að það væri sniðugt og fyndið að stofna Chertrúarsöfnuðinn,“ segir Stefán Jónsson um söfnuðinn sem hann og Arinbjörn Sigurðsson Halldórsson stofnuðu og leiða með aðstoð góðs og chersinnaðs fólks.

Stefán og Arinbjörn höfðu kastað mörgum hugmyndum á milli sín áður en þeir gripu Cher og trúarsöfnuðinn á lofti.

Arinbjörn og Stefán eru málarameistarar og eru sem slíkir mikið á ferðinni tveir saman. „Við eyðum miklum tíma í vinnubílnum þegar verkefnin eru utan höfuðborgarsvæðisins og erum oft að kasta hugmyndum á milli okkar um hitt og þetta,“ heldur Stefán áfram.

Cher veri með þér

„Tilgangurinn var einfaldlega að hafa gaman að þessu og sjá hversu langt það væri hægt að fara með einn brandara en aðallega að skemmta okkur og öðrum í leiðinni.

Cher-il-Crowe. Mynda­gáturnar hafa komið sterkar inn í sam­komu­bann­skó­vinu. „Þær eru cher­stak­lega skemmti­legar og þær eru alltaf að aukast,“ segir Stefán.

„Þetta byrjaði á því að við tveir vorum að setja inn einhverjar myndir og grín sem við fundum á netinu og settum einhvern texta við.“

Þarna var búið að vera ömurlegt veður og leiðinlegar fréttir, veiran að fara af stað og frekar slappur mórall í þjóðfélaginu,“ segir málarameistarinn um hópinn sem er grænn í gegn og „endurvinnur sama brandarann aftur og aftur til enda veraldar,“ eins og það er orðað á litskrúðugum Facebook-vegg safnaðarins.

„Loksins er Sindri Sindra heima hjá Cher!“

Eitt slagorða hópsins er sótt í Stjörnustríð, „megi Cher vera með þér“ og það er hún greinilega ekkert síður en Mátturinn þar sem söfnuðinum vex stöðugt ásmegin.

Cherbakað vínarbrauð

„Þetta byrjaði rólega fyrstu vikurnar og við vorum að djóka með að fá okkur cherbakað vínabrauð ef við næðum 500 manns í grúppuna,“ segir Stefán. „Við skáluðum svo í heitu kakói og cherbökuðu einn föstudaginn þegar það náðist.“

Eins og allir vita eru kartöflur ekki góðar Einar og Cher.

Síðan kom COVID-19 og þeir félagar segja að eftir að fréttum af veirunni og sjúkdóminum sem hún hefur borið um heimsbyggðina og fólki í sóttkví fór fjölgandi hafi byrjað að fjölga hratt í hópnum.

„Við héldum að við værum að verða búnir að hugsa upp alla cherbrandarana eftir fyrsta mánuðinn en höfðum svo algerlega rangt fyrir okkur.“

Þeir segjast enn skemmta sér mjög vel yfir ósköpunum um leið og þeir séu gapandi hissa á því hversu margir hafi bæst í hópinn og ekki síður „ótrúlegu hugmyndaflugi fólks. Við verðum seint leiðir á svona cherstöku gríni.“