Hin 56 ára gamla Melinda Gates er nú á allra vörum, eftir að hún til­kynnti að hún og einn ríkasti maður veraldar, Bill Gates, væru nú að fara að skilja eftir 27 ára hjóna­band.

Gates er fjórði ríkasti maður heims og keppast er­lendir slúður­miðlar nú við að greina frá því að hjónin hafi ekki gert með sér neinn kaup­mála. Það þýðir að auð­æfum verður skipt á milli þeirra í skilnaðinum.

Í umfjöllun Forbes kemur fram að Bill hafi vegna þessa fallið úr fjórða sæti á lista yfir ríkustu menn veraldar og niður í 17. sæti. Auðævi hans er metin á jafnvirði um 15 þúsund milljarða króna. Þannig má gera ráð fyrir að í hlut Melindu komi 7.500 milljarðar króna.

Sjálf hefur Melinda sagt að hún muni ekki þurfa á neinum fram­færslu­eyri að halda. Ekki er annað að skilja á yfir­lýsingum hennar en að þau hafi ekki skilið í illu. Þau segjast ætla að halda á­fram að vinna að sam­eigin­legum mark­miðum góð­gerðar­sjóðs síns, sem nefndur er eftir þeim báðum, þrátt fyrir skilnaðinn.

Topp­nemandi

Melinda, sem heitir fullu nafni Melinda Ann French, fæddist þann 15. ágúst árið 1964 í Dallas í Texas ríki. Hún er næst­elst af fjórum börnum en faðir hennar Raymond Joseph French Jr. var flug­virki og móðir hennar Ela­ine Agnes Amerland, heima­vinnandi hús­móðir.

Melinda var frá upp­hafi yfir­burðar­nemandi. Fjór­tán ára gömul kynnti faðir hennar og grunn­skóla­kennari hana fyrir App­le II tölvunni. Það var þá sem Melinda öðlaðist á­huga á tölvu­leikjum og BASIC for­ritunar­málinu.

Melinda er gríðar­lega menntuð. Hún kláraði BA gráðu í tölvunar­fræði og hag­fræði við Duke há­skóla árið 1986. Svo nældi hún sér í MBA gráðu frá við­skipta­fræði­deild skólans árið 1987.

Hennar fyrsta starf var að kenna krökkum stærð­fræði og tölvunar­fræði. Eftir að hún út­skrifaðist úr há­skóla­námi varð hún markaðs­stjóri hjá Micros­oft árið 1987 og sá um vöru­þróun marg­miðlunar­for­rita fyrir­tækisins, meðal annars Micros­oft Word og Publis­her.

Melinda og Bill saman á góðri stundu árið 1993.
Mynd/Gates sjóðurinn

Frum­kvöðull

Melinda kynntist Gates sama ár og hún hóf störf hjá Micros­oft. Þau fóru að fella hugi saman eftir að hafa farið út að borða saman í New York vegna vinnunnar. Bill hefur áður lýst upp­hafi sam­bandsins.

„Okkur var mjög annt um hvort annað og það voru bara tveir val­mögu­leikar: Annað­hvort myndum við hætta saman eða við myndum gifta okkur,“ sagði Bill.

Melinda hefur áður lýst því hvernig Bill nálgaðist sam­band þeirra á sama hátt og vinnuna. Hann hafi ritað lista á töflu með göllum og kostum þess fyrir þau bæði að gifta sig. Þau giftu sig á Havaí árið 1994 og keyptu allar þyrlur í grenndinni til að koma í veg fyrir ó­um­beðinn gesta­gang.

„Bill og ég erum jafnir fé­lagar,“ sagði Melinda við AP frétta­stofuna árið 2019. „Karlar og konur eiga að vera jafningjar á vinnu­staðnum,“ sagði hún jafn­framt. Melinda er mikill frum­kvöðull og stofnaði góð­gerðar­sjóð á­samt Bill árið 2000. Hún hefur sagt að sjóðurinn hafi gert þau nánari.

„Hann þurfti að læra hvernig á að vera jafningi og ég hef lært að stíga upp og verið jafningi,“ skrifaði Melinda í sjálfs­ævi­sögu sinni. Þá stofnaði hún jafn­framt fjár­festingar­sjóðinn Pi­vo­ta­l Ventures árið 2015 sem ein­göngu að­stoðar konur og fjöl­skyldur við fjár­festingar.

„Heimurinn er loksins að ranka við sér og átta sig á þeirri stað­reynd að það er engu okkar til fram­dráttar þegar helmingurinn af okkur er haldið aftur,“ sagði hún við til­efnið. „Gögnin sýna fram á þetta; vald­efldar konur um­breyta sam­fé­lögum.“

Byggt á um­fjöllun BBC og Guar­dian.