Það var stundum talað um það í upphafi að við værum að guðlasta með því að hafa jólin uppi árið um kring en í dag segir enginn neitt. Hingað koma jafnt kristnir, gyðingar, múslimar, nunnur, búddamunkar og fólk af öllum trúarbrögðum og njóta þess í hvívetna, enda segi ég þeim að fyrir mér séu jólin hátíð ljóss, friðar og kærleika. Þannig hafa jólin ævinlega verið í mínum huga og mér finnst bara yndislegt ef landsmenn fara nú fyrr og meira að hugsa um jólin. Það er ekkert út á það að setja. Mér finnst bara fallegt að borgin og sveitarfélög landsins ætli að lýsa upp skammdegið fyrr með jólaljósum og almenningur á ekki að vera feiminn við það. Ekki veitir af á þessum tímum og við eigum að vera miklu betri hvert við annað, því öll erum við mennsk og gerum mistök.“

Þetta segir Benedikt Ingi Grétarsson í Jólagarðinum. Hann er í óðaönn að bæta við enn meiri ljósadýrð í Sveinsbæ þar sem jólaljósin verða tendruð um helgina.

„Já, svæðið okkar í Jólagarðinum heitir nú Sveinsbær og hefur þar tvenna skírskotun. Annars vegar sem tákn um jólasveinana en svo átti tengdamóðir mín heitin heima í húsinu Sveinsbæ í Hafnarfirði þegar hún var barn. Með nafninu heiðrum við minningu hennar,“ upplýsir Benedikt.

Allt í Sveinsbæ byggir á persónulegum minningum fjölskyldunnar.

„Stóra, hvíta húsið með bláu hlerunum köllum við Bakgarð „tante Grethe“ en nafnið tileinkum við okkar ástkæru Grethe sem var dönsk eiginkona Jakobs Benediktssonar frænda míns og ég kallaði alltaf Grethe frænku, eins og títt er um börn sem kalla alla í fjölskyldunni frændur og frænkur. Þeim hjónum varð ekki barna auðið og því nutum við systkinin dæmafás dekurs þegar við heimsóttum þau og vorum þar eins og kóngur og drottning,“ segir Benedikt og brosir að minningunni, en Bakgarður „tante Grethe“ var áður rekinn sem verslun út frá Jólagarðinum á Akureyri.

Íslenskt jólahandverk er eitt af aðalsmerkjum jólavarningsins í Jólagarðinum. FRÉTTABLAÐIÐ/AUÐUNN

Kærleikurinn fer ekki í sjóðvélina

Á sumri komanda verður aldarfjórðungur síðan Benedikt og eiginkona hans, Ragnheiður Hreiðarsdóttir, opnuðu Jólagarðinn í Eyjafirði, 31. maí 1996.

„Jólagarðurinn hefur ekki beinlínis vaxið hratt á þessum 25 árum en hann hefur vaxið með trjánum. Þau voru pínulítil þegar við byrjuðum og þá voru gestirnir líka pínulitlir en svo uxu trén og gestirnir með, sem og gestafjöldinn,“ segir Benedikt.

Hann segir heppni að íslenskir gestir tóku fljótt ástfóstri við Jólagarðinn.

„Jólagarðurinn væri ekki til ef við hefðum ekki haft Íslendinga með okkur í liði. Margir sem komu hingað sem börn koma nú með sín eigin börn. Þeir eiga góðar minningar úr Jólagarðinum og vilja sýna börnunum það sem þeir upplifðu sjálfir í æsku, Grýlu í hellinum og litla jólakotið undir stiganum, og það er ómetanlegt að geta komið aftur á stað þar sem allt er eins og það var áður, nema aðeins meira,“ segir Benedikt sem skynjar væntumþykju gesta sinna.

„Velvilji í garð fjölskyldunnar er mikill. Sá kærleikur fer ekki í sjóðvélina heldur í hjartað á manni, maður nærist á honum og það gefur þessu öllu vægi. Þetta er auðvitað bisness en verður minni bisness fyrir vikið. Ætli þetta sé ekki frekar köllun, eða eins og sumir segja, að mér hafi verið úthlutað þessu verkefni og það snertir mann.“

Benedikt hefur frá upphafi látið sérreykja fyrir sig gómsætt Húskarlahangikjöt sem gestir Jólagarðsins fá smakkað. FRÉTTABLAÐIÐ/AUÐUNN

Metsumar í miðju kófi

Yfirstandandi ár hefur verið óvenjulegt í Jólagarðinum eins og víðast hvar.

„Það var metsumar í heimsóknum Íslendinga sem voru byrjaðir að koma strax um hvítasunnuna en í venjulegu ári koma þeir í kringum 17. júní. Landsbyggðin naut góðs af því að landsmenn voru hvattir til ferðalaga innanlands og þótt okkar fyrirtæki sé lítið verða gríðarmörg afleidd störf til í kringum það. Við látum prenta eitthvað, þurfum að kaupa þjónustu af öðrum og allt hjálpar það svæðinu mikið. Hingað kemur fólk sem gistir og í sumar sá maður að hver króna vann tvöfalt og fór ekki úr hagkerfinu, heldur var inni og hjálpaði áfram,“ upplýsir Benedikt.

Í upphafi var hann oft spurður hvers vegna hann opnaði Jólagarðinn í Eyjafirði en ekki á Akureyri.

„Sannleikurinn er sá að búðin sem nú er Bakgarður „tante Grethe“ fær mun fleiri heimsóknir hér en þegar hún var á Akureyri. Akureyringum þykir gott að komast í sveitabíltúr, það slaknar aðeins á þeim og þeir stoppa lengur. Fólk sem kemur lengra að stoppar svo enn lengur. Í því fólst stóri munurinn í sumar, þegar hvergi voru skipulagðar bæjarhátíðir; þá voru Íslendingar rólegri og þurftu ekki að vera komir á Húsavík klukkan tvö, heldur tóku lífinu með ró, ferðuðust á sínum hraða og nutu tilverunnar í næði.“

Benedikt nýtur hvers dags í Jólagarðinum.

„Mér finnst alltaf eins og ég hafi opnað í gær. Hver dagur er ævintýri og flestum þykir ómissandi að koma aftur og aftur. Kona sem kom fyrsta árið og svo aftur og sagði hissa: „Ég ætlaði ekki að nenna að koma því ég kom í fyrra, en þetta er allt annar staður nú og búðin allt öðruvísi. Hér er allt annað skraut og alveg ný upplifun!“ Það hefur líka að segja í hvernig skapi fólk er þegar það kemur. Ef það er dapurt svífur á það sæla og höfgi í Jólagarðinum og það kveður léttara í bragði. Það er líka mikil upplifun að standa á bak við afgreiðsluborðið og sjá þegar krakkar koma inn í búðina, sérstaklega í fyrsta sinn. Þá dettur af þeim andlitið, þau missa hökuna ofan í bringu, taka andköf og dæsa vá! Þannig viljum við hafa það, gleði, vellíðan og notalegheit.“

Það er heillandi upplifun að skoða sig um í Jólagarðinum í Eyjafirði þar sem nostrað er við hvern hlut. FRÉTTABLAÐIÐ/AUÐUNN

Óskabrunnur sem virkar

Í blómlegum garði Sveinsbæjar stendur Óskabrunnur ófæddra barna.

„Óskabrunnurinn hefur sýnt sig að vera töfrastaður og hann virkar. Systir mín gat ekki eignast börn án aðstoðar, né konan sem bjó til listaverkið utan um brunninn, en þegar hún var búin að fullgera brunninn gat hún allt í einu eignast barn og systir mín líka. Ömmur koma til mín, þakka mér fyrir barnabörnin og ég hugsa með mér: „Ég ætla að vona að ég hafi ekki komið nálægt því!“,“ segir Benedikt og skellihlær en brunnurinn er lokaður á veturna vegna hættu á frostskemmdum.

„Í Jólagarðinum eignast hver og einn sínar persónulegar minningar. Allir koma með væntingar eða af ásetningi, eins og þeir sem kaupa sér alltaf pakka af laufabrauði til að maula á meðan þeir skoða sig um því í Jólagarðinum opnast öll skilningarvit, sjón, heyrn, þefskyn og bragð, og þá tilheyrir að njóta þess með heitar, ristaðar og ilmandi möndlur í poka.“

Tilhlökkun fyrir jólahátíðinni skín úr hverju andliti í Jólagarðinum, líka hinum örsmáu. FRÉTTABLAÐIÐ/AUÐUNN

Ekki nema 55 dagar til jóla

Nýjasta viðbótin á Sveinsbæ er lítill braggi sem er vísir að pínulitlu útikaffihúsi. Þar er hægt að fá sér kaffi og kjammsa á innpökkuðum kökum.

„Við hjónin höfum afskaplega gaman af matarstússi og leggjum mikið upp úr spennandi matarupplifun,“ segir Benedikt sem er menntaður kokkur.

„Í Eplakofanum bökum við vöfflur á priki og húðum jólaepli með kirsuberjabrjóstsykri. Þá sjóðum við rabbarbarasultur sem við setjum saman við gulrætur, ananas og fleira gott og seljum í Bakgarðinum. Við fórum sér ferð til Danmerkur til að læra að rista möndlur, gerum karamellupopp og bökum jólakökur og jólasmákökur. Þá höfum við alla tíð verið í farsælu samstarfi við höfðingjana í Kjarnafæði og látið sérreykja fyrir okkur hangikjöt. Það er aðeins þurrara, hægt að borða það ósoðið og þetta er bara konfekt, skorið í þunnar sneiðar. Við köllum það Húskarlahangikjöt og var upphaflega hugmyndin að láta það hanga í eldhúsum á aðventunni til að fá ilminn í húsið og skera sér sneið þegar maður kæmi heim úr vinnunni eða ofan á gott brauð. Það er líka gott í forrétt og alveg ómissandi fyrir jólin enda margir sem hafa haldið tryggð við okkur og keypt sér hangilæri fyrir hátíðarnar hér í Sveinsbæ,“ segir Benedikt og sker sér væna sneið af dýrindis Húskarlahangikjöti.

Aðventan og jólin færast nær með hverjum deginum sem líður og þá er gaman að hafa fallegar kynjaverur í kringum sig. FRÉTTABLAÐIÐ/AUÐUNN

Í Jólagarðinum fæst líka dásamlegt íslenskt jólahandverk sem margir koma um langan veg að til að sækja sér.

„Sumt af handverksfólkinu hefur verið með mér alla tíð en margt af því er orðið mjög fullorðið. Ég er því orðinn pínu smeykur um að handverkinu fari fækkandi en vona að yngra fólk sjái tækifæri í að skapa íslenskt jólahandverk, sem er sívinsælt og eigulegt.“

Benedikt er ekki enn farinn að setja upp jólaljósin heima hjá sér en ætlar að starta jólunum formlega í Sveinsbæ um helgina.

„Við hlökkum mikið til jólanna. Bakgarðurinn er orðin óskaplega jólalegur og þeir sem komast ekki á jólamarkaði í Þýskalandi þetta árið vita hvar Jólagarðurinn er. Hér ríkir einstakur jólaandi og jólastemning og við erum með jólavarning frá sautján þjóðlöndum. Við teljum líka dagana niður til jóla og í dag eru þeir ekki nema 55 talsins!“