Karen Björg Jóhannsdóttir sýnir málverk á einkasýningunni Litaglæður í Núllinu gallerí að Bankastræti 0, 101 Reykjavík. Að hennar sögn eru mörg verkin á sýningunni mjög persónuleg. „Þau eru huglæg tilfinningaferð túlkuð í miklu litmáli með góðu dassi af fígúratífu,“ segir hún.

Karen hefur alla tíð heillast af málverkinu og því ferðalagi sem sköpun þess býður upp á. „Ég mála fólk, dýr, náttúru, abstrakt, allt sem mér dettur í hug að mála. Ég leyfi litunum svolítið að stjórna því hvernig ferðalaginu er háttað. Niðurstaðan er aldrei ákveðin í upphafi og því er það vegferðin út af fyrir sig, að vega og meta allt fram á endastöðina.“

Sýningin 'Litaglæður' er samansafn tilraunakenndra verka sem langflest voru unnin á covid lituðu árunum 2020-2021. Hér eru litir, áferð og fígúratív huglæg vitund listamannsins í forgrunni.

Karen notar hvatvísina, leyfir litunum að flæða yfir strigann og skapar þannig kraftmikil verk.

Hvatvísi í lífi og list

„Ég virðist vera jafn hvatvís í málverkinu og í lífinu. Ef mér dettur í hug að gera eitthvað þá geri ég það. Þar af leiðandi á ég ögn erfitt með að staðsetja mig varðandi stíl, þó svo ég hallist alla jafna að fígúratífri túlkun.“

Karen vinnur oft á mörkum hins hlutbundna og óhlutbundna. Litagleðin er þó sjaldan langt undan.

Sýningin verður opnuð á morgun, fimmtudaginn 23. september, og stendur yfir fram á sunnudag 26. september. Á morgun, fimmtudag er opnunarkvöld frá 17-19. Léttar veitingar í boði fyrir opnunargesti. Á föstudegi til sunnudags er opið frá 16-18.