Ráðherrarnir Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson feta glaðbeittir í fótspor ræningjanna í Kardemommubænum í nýju verki listmálarans Þrándar Þórarinssonar sem sótti ekki innblásturinn yfir lækinn frekar en í fyrri ádeilumálverkum.

„Þau eru bara rennandi blaut enn og ég var nú bara rétt að leggja lokahönd á þetta áðan,“ segir listmálarinn Þrándur Þórarinsson um sínar nýjustu pólitísku pensilstrokur sem skiluðu ráðherrunum Bjarna Benediktssyni, Katrínu Jakobsdóttur og Sigurði Inga Jóhannssyni á strigann í kunnuglegum sporum Kaspers, Jespers og Jónatans. Ræningjanna goðsagnakenndu sem herjuðu á Kardemommubæ.

„Það er bara gaman hjá þeim sko. Bara fjör en það náttúrlega væri óskandi að það færi fyrir þessu illþýði eins og ræningjunum. Kata myndi gerast ljónatemjari, Bjarni slökkviliðsmaður og Sigurður Ingi bakari. Ég vona bara að þessir ræningjar ræni ekki lestinni, eða Borgarlínunni, eða sporvagninum eins og í sögunni,“ segir Þrándur sem er gjarn á að blanda pólitískri ádeilu saman við olíumálninguna.

„Þau hafa verið ærin tilefnin og það hefur ekkert skort á undanfarið,“ heldur Þrándur, sem ekki þarf að sækja innblásturinn langt yfir skammt á meðan salan á bréfum í Íslandsbanka er í brennidepli, áfram.

Kaka með kardemommudropum

„Ég málaði í síðustu viku mynd af Bjarna Ben að skreyta köku en var þá líka strax byrjaður á þessari og gat ekki gert upp á milli hugmynda þannig að ég ákvað bara að mála þær báðar og fannst bara upplagt að taka mið af bókarkápunni. Það er misjafnt hversu fólk er vel að sér í Kardemommubænum en flestir kannast nú örugglega eitthvað við þetta og þekkja kápuna.“

Þrándur bætir aðspurður við að myndin sé „snarföl“ þótt hann sé ekki kominn með verðmiða á hana. Þá segist hann ekki verða var við annað en að ádeiluverkum hans sé tekið fagnandi.

Bíður eftir löðrungnum

„Það er það eina sem ég tek eftir en ég er ekkert svo innmúraður í Sjálfstæðisflokkinn að ég viti nokkuð hvað er sagt þar. Ef það er eitthvað. Það er stundum talað um þetta sem umdeildar myndir eða eitthvað þannig en ég verð ekkert var við það sjálfur.

Þeir eiga það nú svolítið til að refsa fólki sem er eitthvað að gagnrýna þá og ég er alltaf að bíða eftir að fá einhvern löðrung,“ segir Þrándur æðrulaus á mörkum lífs og dauða eftir að hafa í byrjun vikunnar opnað nýja sýningu í safnaðarheimili Neskirkju þar sem hann skoðar Hólavallakirkjugarð frá ýmsum sjónarhornum.

Fréttablaðið/Ernir