Rithöfundurinn og sviðslistamaðurinn Friðgeir Einarsson sendi á dögunum frá sér sína aðra skáldsögu sem ber titilinn Stórfiskur. Bókin fjallar um íslenskan hönnuð búsettan á meginlandi Evrópu sem fær það verkefni að hanna merki fyrir íslenskt hvalveiðifyrirtæki.

„Það reynist honum dálítið erfitt verkefni en hann neyðist samt til að taka það að sér. Hann þarf að yfirstíga margar hindranir, bæði gera upp við sig hvort hann vilji taka að sér verkefnið og takast á við þau siðferðislegu álitamál sem tengjast því. Svo reynast vera mörg ljón í veginum þegar kemur að rannsóknarvinnunni. Bæði er margt dularfullt og skrýtið í starfseminni og líka ýmislegt innra með honum sem truflar hann, hversdagsleg vandamál sem flækjast fyrir,“ segir Friðgeir.

Mjög umdeilt umfjöllunarefni

Í fyrri verkum þínum hefur þú mikið fjallað um hversdagsleikann. Það hljómar eins og þessi bók sé ívið pólitískari heldur en síðustu bækur.

„Umfjöllunarefnið hvalveiðar er náttúrlega mjög umdeilt og erfitt að fjalla um það án þess að tala um póli­tísk mál eða málefni sem kveikja í fólki. Hönnuðurinn nálgast engu að síður málin af faglegu hlutleysi, eða reynir það. Eins og ég segi þá er hann að glíma við ýmiss konar vandamál í sínu einkalífi þannig að bókin er ekki alveg laus við hversdagsleika þrátt fyrir allt.“

Að sögn Friðgeirs er fólk almennt mjög forvitið um hvali enda eru þeir sem skepnur í senn bæði framandi og kunnuglegir.

„Hvalir eru náttúrulega skepnur sem fólk er mjög forvitið um og eru bæði mjög fjarlægir okkur en samt finnum við til einhvers konar skyldleika við þá, eða margir gera það, þannig að þeir eru næstum því heilagar skepnur. Svo er þessi hvalveiðibransi náttúrlega framandi flestum á Íslandi og víðar, það er einhver svona mystík í kringum hvernig það fer allt fram og af hverju hvalveiðar eru hreinlega enn stundaðar á Íslandi, þó þetta sé nú hverfandi atvinnugrein.“

Tákn fyrir mót manns og náttúru

Í vestrænni menningarsögu má finna fjölmargar birtingarmyndir hvala, allt frá Biblíusögunni um Jónas í hvalnum til stórvirkisins Moby Dick eftir Herman Melville og loks ferðaþjónustunnar hér á landi. Friðgeir segir þessar ólíku birtingarmyndir hvala koma fram í bókinni meðal annars í þeirri rannsóknarvinnu sem aðalpersónan framkvæmir til að reyna að tengjast verkefni sínu.

„Aðalpersónan á svona nokkrar atlögur að því að tengjast þessu rosalega fjarlæga umfjöllunarefni. Hann verður vitni að strandi þegar smáhveli synda upp í fjöru og fer líka í hvalaskoðun og nálgast þetta svolítið út frá sínum bakgrunni með sínum gleraugum sem hönnuður. Bókin fjallar þannig um hvernig náttúran og maðurinn mætast einhvern veginn og hvernig maðurinn sér allt út frá sínu sjónarhorni í þessari veröld, sem er að verða sífellt manngerðari. Hvalurinn er kannski svolítið tákn fyrir þessi mót manns og náttúru.“

Ertu að sækja í íslenskan veruleika þegar þú skrifar um þennan hvalveiðiiðnað?

„Já og nei. Þetta er náttúrlega skáldsaga en fyrirmyndirnar í íslensku samfélagi fyrir stórhvalaveiði eru ekki margar. Það er bara eitt fyrirtæki á Íslandi og í heiminum sem veiðir stórhveli. Þó að reyndar hafi langreyðar ekki verið veiddar á Íslandi í nokkur ár af ýmsum ástæðum, þá er enn til fyrirtæki sem gefur sig út fyrir það með rekstur og aðstöðu til að veiða og verka. Þannig að já, að því leyti þá er íslenskt samfélag í forgrunni,“ segir Friðgeir.